Miðað við 5 manna fjölskyldu.

Ég hef sjaldan orðið eins rasandi hissa og í dag þegar ég sá þessa færslu á Smartland á mbl.is.

Þar sem ég hef standard, þá verð ég að taka fram að þrátt fyrir ítrekaða legu mína í sófa undanfarna mánuði, þá er ég ekki á hverjum degi að drekka í mig visku Smartlands, er eiginlega frekar fráboðin þeim “þætti”.. einmitt útaf svona tilkynningum.

Fréttin fjallar s.s um konu, sem er stjórnmálakona, sem ætlar að elda fyrir sig og fjölskyldu sína, þau eru 4, tvö fullorðin og tvö úngmenni, s.s elda fyrir þau öll saman 7 kvöldmáltíðir í viku á tops 20 þúsund, en hefur 10 þúsund aukalega til að kaupa fyrir dagvöru (hvað er nú það), nesti, hreinlætisvöru og allt þetta sem þarf til heimilis.

Afhverju er ég, bara einhver gella útí bæ,  svona rasandi hissa?

a. Fyrst, áður en ég las greinina varð ég hissa því það er svo greinilegt að hún lifir ekki eins og svo æðislega margir í almenningi, sem einmitt eru með sömu fjölskyldustærð, plús mínus einn, líka í fullri vinnu, líka í mjög mikilvægu starfi (þú veist.. annars myndi familían ekki éta). Það í sjálfusér er ekkert furðulegt, það sem er hinsvegar furðulegt er að þetta rati á síður netmiðla. Pípandi skrítið að það sé fréttnæmt að einhver ætli í átak og láta fjölskyldu sína lifa á þessum pening, sem hún komst síðan að, að er í samræmi við neysluviðmið Velferðarráðuneytisins.

Við í minni fjölskyldu þyrftum að hafa sirka 45 þúsund á viku skv. Velferðarráðuneytinu. Eftir hálft ár þyrftum við að hafa um 50 þúsund.

b. Ég varð síðan líka svo hissa því á síðunni hennar og í greininni á Smartland stendur að maðurinn hennar hafi orðið hissa (ég var þá ekki ein um það) og spurt hversvegna í ósköpunum hún vildi endilega vera að þessu.

Ástæðan er auðvitað að spara, temja sér að eyða ekki í óþarfa, jafnvel hafa það fyrir úngmennunum að skipuleggja innkaup og bara svona almennt að vera hagkvæm í heimilisrekstri.

Þetta er eitthvað sem ég skil mæta vel, þú veist, sem fellow kona og heimilisrekandi.

Of margar spurningar fóru þá á flug í hausnum á mér, og fleirum því ég rép (að raupa, rjúpum, rjopið.. ég rép) um  þetta á Fésbókinni.

  • Aðallega væri ég til í að vita hvað hún hafði eytt í mat og tilheyrandi á árinu 2012, eða bara einhverju ári áður en þetta átak fór í gang?
  • Hvað kom til? Kom eitthvað uppá í þeirra fjárhag eða byrjaði henni bara skyndilega að blöskra eyðslan?
  • Finnst þeim í Smartlandi smart að flengja svona fram þegar það er kunn staðreynd að það eru fáránlega margir í þjóðfélaginu sem berjast í bökkum og ná ekki endum saman, ekki bara ég, eigum við að ræða allar hjúkkurnar sem eru að segja upp og flytja úr landi? Alla kennarana sem fara grátandi heim úr hor, ég nefni bara hér svona nauðsynja burðarstólpa svo samfélag geti fúngerað.
  • Finnst þeim hjá Velferðarráðuneytinu ekkert öfugt að fletta fram svona tölum vitandi að fólk er ekki að meika þetta? Er það ekki bara ágætis vísbending um að dæmið gengur ekki upp og að “eitthvað” þurfi að laga?
  • Fannst manninum hennar þetta vera eitthvað sem bara þarf ekki? Er hann ekki til í að vera hagkvæmur og skipulagður, er hann ekkert stoltur af konunni sinni fyrir að ætla að vera svona dugleg?

Ég ætti kannski að  fara í svona átak líka. Ég myndi hinsvegar þurfa að gera lista yfir 7 kvöldmáltíðir og tvær hádegismáltíðir (helgar) fyrir 5. 5 vinnu-hádegismáltíðir fyrir mig sjálfa, ellegar ég mun deyja úr hungri, nú veit ég ekki hvort hún Eygló fær að borða í sinni vinnu eða maðurinn hennar en ég fæ það alla jafna ekki og þarf að kaupa mér þann mat. Krakkarnir þrír eru í skólamat. Eiginmaðurinn er heppinn að vinna við mat. Einnig þyrfti ég að kaupa auðvitað allt nesti annað fyrir bæði mig og börn, nesti í skólann og svo nesti fyrir þau þegar þau eiga langan dag og koma ekki heim úr tómstundastarfinu fyrr en að verða kl.17. Og ekki má gleyma að það þurfa allir að borða eitthvað í morgunmat, morgunkaffi og eftir skóla/vinnu en fyrir kvöldmat. 10.000 í allar máltíðar fyrir utan kvöldmat og hreinlætisvörur og aðra dagvöru.. mér er bara spurn. Ég vil taka fram að ekkert af okkur á við offituvandamál að stríða þó við borðum allar þessar máltíðar, við erum ekki einusinni vel í holdum.

Ég held ekki að Eygló sé að átta sig á að neysluviðmið Velferðarráðs nái yfir mat, drykk og aðrar dagvörur til heimilishalds, fata og skókaup, heimilisbúnað og svo raftæki og viðhald raftækja. Hennar 20 þúsund eru bara fyrir 7 kvöldmátíðir fyrir fjóra og einstaka nesti fyrir eldra úngmennið og svo 10 þúsund í hitt.

Já, ég skal sko sýna ykkur hvernig ég fer að því að fæða og klæða 5 manna fjölskyldu fyrir fimmþúsundkallinn minn á viku. Eða bíddu.. var það kannski ekki hægt?