Ég er hversdagshetja. Hversdagshetjur eru fólk sem er fagurt (sbr. ég), yfirmáta skemmtilegt (sbr.ég) og æðislega gáfað (líka ég).

Hversdagshetjur lifa af allskonar aðstæður í hinu venjulega lífi. T.d þegar kaffið er búið og þegar dúfur gera árás á heimilið. Þegar hetjan verslar og allt í hillunni dettur útum alla búðina, þegar strætó keyrir á fullu farti í stöðuvatnið sem hefur myndast, akkúrat þar sem hetjan er að hjóla.

Í þessu sambandi (þetta er nýja uppáhalds setningin mín) langar mig að deila því með ykkur að hversdagshetjan ég er búin að vera að leita að íbúð fyrir okkur að flytja í þegar það þarf. Íbúðin þarf að vera annaðhvort stór 3 herbergja íbúð eða ekkert svo stór 4 herbergja íbúð.

Nú, Daninn er skrítinn, það þarf ekkert að taka það fram. Hann er með óteljandi reglur sem öllum þarf að fylgja. Til dæmis fékk ég svar frá einum leigusalanum, sem er fyrirtæki, um að reglan hjá þeim er að leigja ekki út 3 eða 4 herbergja íbúðir til þeirra sem eru 5 í heimli. HÖMMM!! Þannig að þar á bæ er bara hægt að fá 5 herbergja íbúð til leigu séu menn 5 í heimili. Þvílíkur þvættingur.

Áður en  ég flutti hingað þá var ég að skoða námsmannabústaði (kollegí) og þar var mér tjáð að það væru max 2 börn í íbúð, þannig að ef maður á 3 börn áður en maður sækir um að leigja námsmannabústað þá er ekki vegur að komast að.

Einmitt, oft er það þannig að hversdagshetjur fá ekki breik.

Eins og þegar ég fór yfir götuna að skoða íbúð sem síðan kom í ljós að hafði baðkar sem gerði að reiknað var með 2000dkk í hita/vatns kostnað á mánuði, sem varð til þess að ég sagði “nei, takk!! ” Ekki nóg með að það átti að rukka svona mikið heldur kviknaði í húsinu mánuði síðar. Pældu í því ef ég væri ekki hetjan sem ég er, VÓ!

Síðustu söguna er að segja af mér sem hversdagshetju, en það var þegar ég fór að skoða íbúð á Íslands Bryggju,  (drauma staðsetningin) í blokk númer 16 nú í síðustu viku. Ekkert of dýr íbúð, þannig séð. Og ég skoðaði á korti hvar þetta væri og var aldeilis viss í minni sök þegar ég brunaði af stað um kvöld í myrkri, bara svo það sé á hreinu.

Svo var ég komin á staðinn og var við að klöngrast á svakalegri íshellu yfir einhvern göngustíg og smá garð að ég sá mann útá svölum í tómri íbúð. Ég hugsaði að þetta hlyti að vera það. Ég skautaði áfram og komst að húsinu og viti menn!! stigagangurinn sem tóma íbúðin var í var einmitt númer 16. Ég hugsaði með mér, sjett hvað ég er geðveikt næm, ég bara “V E I T”  hvert ég er að fara án þess að ..vita það. Svo ég lagði hjólinu og í þann mund að ég gerði það þá kom maðurinn út með tóma kassa og var í símanum.

Ég hugsaði með mér að þetta gæti bara ekki verið annað, ég meina, íbúðin var tóm, maðurinn eitthvað að fara með kassa, húsið númer 16.. Ég beið bara eftir að maðurinn kæmi til baka, því ég vissi ekki hvaða bjalla það var..svona ef ske kynni að það væri ekki þessi maður.. en það getur ekki verið, ég er jú svo næm.

Maðurinn kom til baka, enn í símanum og brosti til mín þegar ég, með alveg kringlótt augu og augabrúnir upp við hárlínu og hálfbros á vör, leitaði eftir viðbrögðum. Hann opnaði hurðina og ég elti hann inn, ennþá sjokkeruð yfir eigin næmni. Hugsa sér, að hafa bara hjólað næstum því eitthvað og bara mætt á svæðið! Talandi um “meant to be!”

Ég elti manninn upp stigann, tvær hæðir og einn krók til hægri að íbúð hans, þar sem hann SKELLTI hurðinni og LÆSTI. Ég endurtek, hann lokaði á andlitið á mér og LÆSTI. Hehehe, hann hefur haldið að ég væri einhver lúnítík og sikkópati sem í gerfi gullfallegrar og saklausrar stúlkukindar væri að elta fólk uppi til að troða sér í heimsókn.

Ég snérist á hæli, í orðsins fyllstu merkingu, hraðar en orð fá sagt. Ég roðnaði meira að segja þarna ein í blokkinni. Þurfti að tékka hvort einhver væri að horfa, svona eins og þegar maður rennur á rassgatið á svelli og byrjar að líta í kringum sig hvort einhver tók nokkuð eftir því, eiginlega áður en maður lendir á jörðinni. Ég gekk með hraði, en reyndi samt að læðast í leiðinni, út úr þessari blokk, opnaði hjólið og var búin að dúndra í burtu (hinum megin við blokkina svo hann myndi ekki sjá mig) og var komin útí Nettó áður en ég vissi af.

Nú þurfti ég bara að ákveða hvort ég ætlaði að snauta heim til mín með skottið milli lappanna eða hringja í leigusalann og fá leiðbeiningar þar sem ég var rænd bæði ráði og rænu varðandi að leita uppi götuheiti á Íslands Bryggju.

Útaf því að ég er sannkölluð hversdagshetja þá hringdi ég í leigusalann og komst að því að vandræðin byrjuðu í raun og veru heima hjá mér þegar ég leit vitlaust á kortið… íbúðin var akkúrat hinum megin. Ég fann þetta á endanum og leit þar inn, því miður var íbúðin of lítil.

En ég lifði af, og það er ÞAÐ sem gerir mig að hversdagshetju! Seisei já.