Þrátt fyrir alvarlega hræðslu um að ég myndi missa vitið þá gerðist það ekki, sbr. síðasta póst. Ég hélt viti enda er ákvörðun tekin um að vera nasista móðir alltaf tekin í einhverskonar geðbilunarham. Hann stóð nú stutt yfir og ég var aftur ég sjálf eftir smá.

En ég hugsa samt mikið um það hvernig á að tækla þessi fjögur börn sem ég hef hér að láni. Stundum er ég svo ráðþrota og þau svo mikið búin að taka yfirhöndina að ég veit í alvöru ekki mitt rjúkandi ráð. Stend bara og nudda á mér augun (þessvegna alltaf með maskara útum allt), eða ráfa um íbúðina með deleríum tremens. Aðra daga, þegar þau eru alveg bara “I luv jú möm” og eru eins og hugur manns, eða þegar þau sofa, þá horfi ég yfir hópinn geggjað stolt og finnst náttúrulega þegar öllu er á botninn hvolft, þau vera hreinasta afbragð og ótrúlega vel búin til blessuð börnin.

Ég hef ákveðið (rosalega ákveð ég mikið) að í staðinn fyrir að lyppast bara niður eins og einhver gúmmímamma og í staðinn fyrir að fara í nasistafötin, þá ætla ég að vera kennarinn þeirra.

Það er nefnilega fyndið að þegar ég er að siða þau til, þá er ég oft (stundum oft á dag) að segja þeim  að gera eitthvað sem ætti sjálf að vera að gera.

Er maður þá bara sinn eigin uppalandi? Hvernig á ég að setja það í samhengi með að börnin séu þá líka sínir eigin uppalendur.. hvar passa ég sem uppalandi í þá jöfnu?