Ég er í sögulegu þyngdar hámarki og hef verið síðan um miðjan janúar. Alveg jafnlengi hef ég verið pirruð yfir því ástandi. Kom reyndar í ljós að eitthvað minor líkamsástand hefur áhrif þar á en er núna í meðhöndlun til leiðréttingar.

Ég hef aldrei þurft að kljást við aukakíló. Ég veit ekkert hvað ég á að gera.

Ég er búin að hugsa um þetta lengi (nú.. alveg síðan í janúar) og datt niður á spurningu í gær. Afhverju lætur maður við líkamann sinn eins og hann sé eitthvað drasl sem ekki eigi að hugsa vel um .. eins og bara ef við tökum sem dæmi bíl eða tölvu. Bílinn bónum við og þrífum (ok.. ég fer alveg í sturtu ekki misskilja mig) gefum honum bara það bensín sem hann má fá og þar fram eftir götum. Við förum líka vel með tölvuna. Vírusvörn, dífragmenta, endurræsa, hlaða batterí, þurrka af, taka til í.. eru allt hlutir sem við gerum til að tölvunni líði vel og að hún endist sem lengst.

Afhverju er ég ekki eins góð við kroppinn minn?? Hann er jú mitt heimili.

Það gerist alltaf á kvöldin að ég er alveg bara: “NÚÚÚÚ  er nóg komið, núúú geri ég eitthvað” .. örugglega alltaf svona á kvöldin því ég er jú búin að gúffa ekkert annað í mig en kex og m&m.

Og í fyrrakvöld fann ég að ég tók ákvörðun um að breyta þessu. Ég vaknaði meira að segja í stuðinu fyrir breytt líferni. Það er yfirleitt merki um að eitthvað sé að fara að gerast, þegar ég er til í málin líka daginn eftir bömmer kvöldsins.

Hvernig….HVERNIG má það þá vera að ég fór útí búð þegar opnaði og keypti eftirfarandi: 3 kexpakka, 2 m&m gula, bláber og tyggjó???

Afhverju keypti ég ekki frekar það sem stendur í bókinni að geri mann léttari, hreinari og fallegri (efast samt um að það sé hægt..að ég sé fallegri)?

Hver ræður eiginlega í þessu húsi? Það lítur ekki út fyrir að það sé Ég sem ræður heldur ég…ömó, þarf að moka mér út.

Og ég át það allt líka.. er ennþá að éta það og engan mat. Ég ét hvern bitann á fætur öðrum með vænni slummu af samviskubiti oná.

Jább, ég er að misþyrma húsi sálar minnar á frekar aumingjalegan máta. Ég vill breyta þessu og strax í gær. Get að vísu örugglega ekki byrjað fyrr en á morgun fattaru… er jú búin að éta kex í allan dag og bókin segir að fyrstu vikuna (af 10) eigi maður að fylla út matardagbók.. og í viku 2 eigi maður að hætta að éta sykur.

Hlakkar ykkur ekki til að hitta mig þá í næstu viku.. og hvenær á ég að ákveða að þessi vika sé búin..