Hvað erum við að tala um? Það er góð spurning finnst mér, hjá mér sjálfri. Ég las grein í mjög merkilegu og hátt settu blaði hér í landi, svo hátt settu og vinsælu að allar konur hljóta… sko, HLJÓTA að hafa þennan bleðil að leiðarljósi í sínu lífi. Líka þó pésinn sé á dönsku og allar konur kunna ekki dönsku.

Blaðasafnið heitir Hendes Verden.. hehe og ég keypti það því það fylgdi því einhverjar prjónauppskriftir sem síðan voru ekkert merkilegar. Afar dæmigert.

Datt samtsem áður (eins og sannri konu sæmir) ofaní að lesa þar eina grein og þar var ss kona að segja frá því að í hennar uppvexti hefði hún fengið svona lausan tauminn til að kanna hvað hún vildi gera við líf sitt og hvað hún var glöð með að hafa verið alin þannig upp, hún er leikkona í dag, og svo var hún að tala um að á hennar heimili, hún á tvo syni 15 og 20 ára, væri mikið talað um kvikmyndir, leikrit, list og fleira í þeim dúr.

Það sem ég síðan hjó eftir var að hún sagði að  það hefði bókstaflega litað það sem synir hennar eru að gera í dag og að þeir séu hressir og lífsglaðir.

Hvað segir það mér þegar ég spyr mína 12 ára dóttur hvað við séum alltaf að tala um og hennar svar er ” hvað á að vera í matinn”…?

Ég veit síðan að við tölum óhemju mikið um peninga og allt í kringum þá. Samt erum við þeirrar skoðunar að peningar séu ekki aðal málið (heldur andleg og líkamleg heilsa og þar fram eftir götum) og að  þeir stjórni ekki okkar lífi. Og þeir gera það ekki nema bara að því leiti að þeir eru ekki þarna og það stjórnar svakalega miklu í okkar lífi.

Svo held ég að við séum og höfum verið of stíf, þó svo að ég hugsi alltaf um mig og okkur sem frekar frjálslegt fólk.

..já..

Ég bara var að opna augun fyrir því í gær, 09.10.14 í kringum klukkan 15,  að það skiptir máli hvað við erum að tala um á heimilinu.

Hvað ef, öll börnin fjögur hafa ekki heyrt um annað hér heima heldur en umræður um hvað á að vera í matinn og hve flókið það getur verið að halda sig við að deila fénu sem til hefur fallið þannig að dugi fyrir téðum kvöldmat í heilan mánuð í senn?? Hvað ef þau heyra okkur aldrei tala um andans mál eða eitthvað annað sem virkilega skiptir máli?

Óh, mæ.