Hvernig bara er þetta að gerast trekk í trekk? Eftir mikla íhugunarviku nú í síðustu viku, þar sem mér hefur fundist ég standa á ballettskóm (þessum til að dansa á tánum í) á ystu nöf á Látrabjargi í villtum meðvindi, ákvað ég að ég yrði bara að gera hreinsun. Bara eitthvað til að losa mig við þessi endalausu óþægindi og grænu augu. Er eðlilegt að vera þjökuð af svona mikilli angist?

Hreinsun lagar allt. Og hvar byrjar kona að hreinsa? Jú, innstu skúmaskotin, dimmustu hornin, staðina þar sem öllu hefur verið hent inn og lokað á ofsahraða svo allt velti nú ekki út um allt.

Ég húrraði s.s niður í geymslu meðan Bjútíbína svaf.

DrrrrAAAsssliðððÐÐ!

Hvað er þetta, hvaðan kom það og HVERT er það að fara?!?!!?!… apparentlí er það ekki að fara neitt, eða amk þangað til í dag.

Kannski hefur Eiginmaðurinn líka verið í einhverju angistarkasti og dottið í gamalt munstur. Amk var geymslan (og er eiginlega ennþá, þrátt fyrir hreinsun) full af hlutum sem ég hef bara aldrei í lífinu séð áður. Gamalt útvarp, samt ekki það gamalt að það sé flott, bara eitthvað sem líkist kaffiskúrsútvarpi í vinnu þar sem bara er boðið uppá uppáhelling í risastórri kaffikönnu og mjólkurkex, árið 2000. Ritvél, ok, ég vissi af henni og finnst hún flott, en hún fékk samt að fjúka.

Bílaútvarp… mig langar ekki einusinni að tala um hve fáránlegt það er að draga með sér bílaútvarp heim, bara af því að það var gefins (ég meina, við eigum ekki sinusinni bíl..). Af einhverjum ástæðum fór það samt ekki í tunnuna, sennilega því það var í kassanum og allt ennþá.

Endalaust af fötum í pokum. Ekki fór ég að henda því en dágóður slatti fær að húrra í rauðakross gáminn.

Og endalaust fleira.

Ég henti eins og enginn væri morgundagurinn, það er í stíl við hvernig mér hefur liðið. Hreinsunin hélt síðan áfram hér heima hjá mér þegar útí öll skot geymslunnar hafði verið farið. Hvernig mér tókst að vera sest með heimilisbókhaldið (enn eina ferðina, það er eins og maður þurfi að vera að þessu í hverjum fjárans mánuði..) í sófagarminn með skúruð gólf og svæft barn kl 22:15 er mér óyfirstíganlegt að skilja.

En það er hreint amk. Ég ætla ekki að þrífa nokkurn skapaðan hlut á morgun. Á morgun ætla ég bara að leika mér og gera það sem er skemmtilegt. Þannig hefur þessi hreinsun hjálpað. Líka er bara þægilegt að hafa yfirsýn.

Daninn hefur miklar áhyggjur að geta ekki óverskúað (haft yfirsýn) hlutina. Honum finnst alveg skelfilega erfitt að finna útúr því að óverskúa.

Ójæja. Ég vona að þetta “sumar” fari að hætta og þeir ráði nýtt í staðinn. Kræst hvað er búið að vera dræm mæting hjá sólinni.