Er eiginlega að vona að ég sé komin í hreiðurgerð. Það mun vera vísbending um að ég megi eiga von á gríðarlegum verkjum rétt um það bil bráðum.

Hér hefur auðvitað allt verið á algjörum rúi og stúi en pípararnir sætu hafa lokið við uppgröft, lagnaísetningu og yfirgröft og steipun bæði inná litla baði, í þvottahúsinu og úti í innkeyrslu. Svo allur mannaskítur frá okkur hér á Félagsbúinu mun núna renna í rörum útí sjó eins og hjá öðru venjulegu fólki.

Þegar kona hefur ekki haft þvottahúsið sitt í marga daga, eða svona eina og hálfa viku, eru allir komnir aftur í skítugu fötin sem lágu neðst í óhreinatauinu og þykja bara lykta vel miðað við allt hitt sem er skítugt líka. Maður lifandi!

Einnig þegar engin er raunverulega inngönguleið í húsið nema að vaða yfir sjó og land, eða moldarflag og uppgrafna malarinnkeyrslu þá er allt hér inni útí sandi. Og líka útaf því að það er komið sumar, ég gerist bara svo frökk að halda því fram að það sé sumar þrátt fyrir veðurfarskvartandi meðlanda mína,  þá er hér inni allskonar jarðvegur, bara mold, sandur, grjót og blómaleyfar útum allar trissur.

Það er engu líkara en að við það að tæma eins fermeters litla forstofu og bansett þvottahúsið sem er kannski 1.5 fermetrar að húsið allt hafi minnkað um 60 fermetra. Þvílíku og örðu eins af dóti er hægt að troða í alla króka og kima sem núna liggur útum allt hús. Mig verkjar í skipulagið.

Í dag réði ég samt bót á efri hæðinni. Notaði bara bumbuna til að skúra gólfið um leið og ég skreið á fjórum fótum til að sækja öll leikföng barnanna sem lent höfðu á gólfinu og undir hinu og þessu. Allt voða fínt, ykkur er boðið í kaffi á efri hæðinni, verðið leidd blindandi þangað upp.

Talandi um leikföng þá hóf Sprengjan tiltekt í sínu herbergi fyrir um það bil viku, óbeðin..ég veit það bara næst að það boðar sennilega ekki gott. Alveg af sjálfsdáðum ákvað hún að breyta í herberginu sínu. Ég, verandi of sver til að halda uppi lögum og reglum á Félagsbúinu eða nokkru aðhaldi yfir höfuð, samþykkti að hún mætti breyta, þegar ég hugsa útí það, þá held ég mögulega að ég hafi ekkert heyrt það sem hún sagði, hafi bara sagt já í einhverri móðu. Það sem ég vissi hinsvegar ekki var að það sem hún hafði gert lista yfir kvöldið áður, aðgerðalista yfir breytingarnar þ.e, var að tæma gjörsamlega herbergið af dóti. Hún er hætt að leika sér með dót og hananú. Þessvegna fóru uppá loft í gær alveg nokkrir kassar af barbí, dúkkum, pet shop og einhverju öðru sem ég kann ekki nafnið á. Silvanians dótið ákvað ég að hafa þá inni í mínu herbergi enda alveg pípandi sætt dót. Mér finnst í lagi að fullorðin kona (eða er ég fullorðin.. OG er ég kona??) sé með dót innihjá sér.

Í heila viku hefur því allt dót úr þvottahúsi og forstofu verið á gólfinu allstaðar, á stólbríkum og sófum. Þá, útaf því að hún snéri herberginu sínu á rönguna þá var allt dótið á gólfunum uppi og síðast en ekki síst þá tæmdi mín kæra systir geymsluna sína fyrir austan í bílinn hans pabba og pabbi kom svo auðvitað góssinu til mín og lá þá heil önnur geymsla á stofugólfinu líka. Að vísu erum eigum við þá bara eftir að sækja vögguna til mÖmmu R og þá er heimilið tilbúið fyrir únglambið væntanlega. Það er vel. Ekki nóg með þetta allt saman þá kom hér frænka mín Ásthildur sem heitir því skemmtilega nafni Sóllilja í seinnanafn með tvíburakerru sem ég og hún elskum jafn mikið.

Kerruna notaði ég þegar Sprengjan og Búnglingurinn voru lítil, enda bara rétt tæpt eitt og hálft ár á milli þeirra. Það gerði frænka mín líka enda einnig bara sirka svo langt á milli hennar barna. Kerran er hér, veit ekkert hvað ég á að gera við hana og hún er bæði til láns eða föl fyrir lítið.

Lítur svona út:

kerran-goda