Það eru lúsaskilaboð á öllum stofnunum sem börnin eru vistuð á þessa daga. Það er á Frítíðs, í bekkjum þeirra eldri og á leikskólanum. Ég meina..hvað á það að þýða? Það er því kemt hér hægri vinstri. Ekkert hefur fundist, en ég á lúsasjampó til öryggis í skápnum.

Það gerist nú það sama og alltaf þegar það eru próf í undirbúningi. Þá er eins og maður geti bara ekki þolað (voða klæjar mig í hausinn alltíeinu…) að það sé þvottur í þvottakörfunni eða það sé ryk neinstaðar. Best að skoða allar bloggsíður Veraldarvefsins og Facebook frá A til Ö. Best að taka fleiri þætti af sömu seríunni til klukkan 2 á nóttunni svo ómögulegt verður að rolast framúr á morgnana.

Svo er eitthvað að Bóndanum. Ég held hann sé óléttur eða eitthvað. Allavega eru skuggalega margar athafnir hans farnar að minna mig á hreiðurgerð.

stökk skyndilega til (já eða stökk…bara svona sveif , maður getur nú ekkert stokkið þegar maður er óléttur) og færði hið fagra loftljós okkar. Þetta er uppáhalds ljósið mitt. Það er svo flott að mér finnst að ég er búin að líma glerið í því í tvígang og hafa það hangandi á bilaðri innstungu síðan við fluttum. Það var s.s flutt hér fyrir ofan bækistöð mína.

Sjáiði bara hvað hann ber þetta vel. Þetta var að sjálfsögðu ekki það eina sem benti til þess að hann sé óléttur og með hreiðurgerð á hæsta stigi.

Hann (NB: hann, ekki ég) tók allt úr skápunum þar sem matur er geymdur og helti því sem hægt var að hella í litlar krukkur, merkti þær með túss og raðaði svo í stafrófsröð í skápinn aftur. ….OG.. tók síðan mynd af því. Já, áhyggjur mínar fara vaxandi, ég er ekki tilbúin að eiga fleiri börn, mér finnst þessi þrjú bara vera ágætur fjöldi.

Þetta er hinsvegar minn veruleiki. Ég spilaði tónleika á þriðjudaginn síðasta með Blæserensemblet. Það var frábært. Vorum í Mariendalskirken sem liggur einhverstaðar nálægt Frederiksberg. Ég var á ballettsýningunni hjá Sunnevu og þurfti að bruna þaðan í kolniðamyrkri og helli dembu, svo ég veit eiginlega ekkert hvernig ég komst þangað eða hvernig ég komst niður eftir aftur. En tónleikarnir tókust ágætlega. Verst er þegar maður er vanur að spila í einhverju herbergi og vanur að heyra í meðspilurum sínum og spila síðan tónleikana í svona hlussu stórri kirkju með þvílíkan hljóm og heyra ekki í neinum nema sjálfum sér…úúúúff..

Við erum eitthvað að gæla við tilhugsunina um að koma heim og vera þar svolítið í sumar. Það eru alveg 7 mánuðir þangað til. Jedúdda, veit ekki hvort ég lifi það af, þá yrði komið 1 og 1/2 ár síðan ég kom á mitt eigiðs land. En það yrði æði ef það yrði hægt. Ef einhver er ekki búinn að kaupa jólagjöf handa mér og ætlar að gera það, þá óska ég hér með eftir gjafabréfi hjá Flugfélagi…já eða afmælisgjöf, ég verð jú ** næsta sumar. Ég er ekki, miðað við haglélið í fjármálabransanum, að búast við því að fá ósk mína um nýja flautu í ** afmælisgjöf uppfyllta. Enda gerir prófessjónal flauta mig ekkert að betri flautuleikara…..jú, hún myndi reyndar gera það, en reynum að sætta okkur við þá gömlu, sem mér reyndar þykir æði vænt um og kann mÖmmu R og Yfirpabba endalausar þakkir fyrir hana…hún hefur dugað í að ég held örugglega hátt í 18 ár. Nema ég hafi átt hana strax þegar ég byrjaði að spila, nú man ég það ekki bara, ég man eftir að hafa verið að bera út DV, þar sem ég var búin að fá staðfest að þá var ég 9ára, og í spilatímum uppá Grensás á eftir útburði og ef ég hef átt flautuna þá, eða fyrr, þá er hún amk 20 ára. VÁÁÁÁ…hún er antík næstum.

Framundan er náttúrulega jólin. Aldrei þessu vant þá sé ég fram á rólega tíð í heimsóknum í skóla barnanna. Er ég bún að þusa nóg yfir því??. Fyrst þegar skólinn byrjar þá er “júhú, skólinn er byrjaður eftir sumarfríið” svo strax á eftir því kemur “Júhú, það er komið haust” og strax á eftir því kemur “júhú, það er hallóvín” og strax á eftir því finnst dönum við fullorðnir ekki fara nóg úr húsi og hitta börnin okkar og halda því allskyns hátíðir og félagshlaðborð í tilefni bara..mánudaga þessvegna og svo er það náttúrulega “júhú, það eru að koma jól” og þá er , jólabakað, jólaföndrað, jóladansað, jólasungið..og allt jóla sem er eðlilegt. Ég held að hið almenna danska foreldri hljóti að taka fæðingarorlof þegar börnin byrja í skóla til að geta mætt á alla félagssamkomurnar. Ég er ekkert önug sko, ekki lesa þetta þannig. Mér finnst bara oft nóg um. Ef við ætluðum á allt sem okkur var boðið að taka þátt í á skólum,leikskólum, vinnum og tónskólum þá hefðum við verið úti alla síðustu viku frá morgni til kvölds.

Á ég að halda áfram?? Auðvitað, þér þykir svo skemmtilegt að lesa. Ég var rétt í þessu að spá hvað ég myndi gera ef allar þessar bloggfærslur myndu bara hverfa, þið vitið, eitthvað myndi koma fyrir í kerfinu sem geymir þær allar. Væri það ekki svolítið leiðinlegt. Ég búin að dagbóka allt okkar Danaveldis líf. Ætti ég að láta prenta bók? Nú…það var þá ekki lengra..