Mér finnst alveg bráðfyndið hvernig fólk hjólar hér í borg. Ég er glöð yfir að það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru bara að ferðast á milli staða, frá heimili að vinnu og svona, þú veist, bara í venjulegu fötunum sem þeir eru síðan í yfir daginn. Í allskonar skóm, með venjulega bakpokann sinn eða veskið með. Bara alveg eins og ef það væri á bíl eða gangandi.

Fyrir mér eru hjólreiðar bara að ferðast á milli staða. Fyrir öðrum er þetta greinilega jaðarsport. Jafn skelfilega hættulegt og teygjustökk, fallhlýfarstökk og aðrar adrenalínaukandi íþróttir, það sést á þeim brjálæðislega búnaði sem fólk er í… á leiðinni í vinnuna.

Ef það kemur sá dagur að ég er komin á nær milljónkróna (sá eitt svoleiðis í Erninum um daginn) reiðfák, er klædd neofren (lítur þannig út) hjólabuxur með púðum í klofinu og einhvern mokdýran næfurþunnan flíshjólajakka úr 66°norður (sem kostar uppí 1/10 af hjólinu) og utan yfir dressið væri ég í sjálflýsandi samfesting eða í það minnsta of stóru vesti frá vegagerðinni og svo í spes hjólaskóm, með spes hjólagrifflur og svo með lukt sem kostar hátt í 1/100 af hjólinu sem lýsir eins og hún sé bílljós á háu, og með attitjúd eins og ég væri að taka þátt í þríþraut eða hjólreiðakeppninni þarna í Frakklandi, þá máttu velta mér af því hjóli.

Mér finnst hjólreiðar vera ákveðið rómantískar. Það er að eyðileggja fyrir mér að fólk sem hjólar mér samferða finnist það þurfa að eiga dýrasta hjólið og allan mögulegan búnað til að getað hjólað – og hjólar svo eins og það sé að æfa fyrir alvarlega mikilvæga keppni en ekki eins og það sé bara að fara að afgreiða í Bónus, standa vaktina á Borgarspítalanum, kenna í grunnskóla eða svara í símann einhversstaðar.

Annars reyni ég að hugsa bara næs til minna samferðamanna.

Kíkið á þessa síðu http://www.copenhagencyclechic.com/ þarna er hvernig á að vera á hjóli.