Já. Það má ekki strax draga þá ályktun að Bóndinn sé algjör engill og ég algjör pína að búa með. Mig grunar að margir haldi að ég standi bara á gólinu hérna og þeytist um og bendi á hina og þessa hlutina sem ég vill að séu framkvæmdir. Aðrir gætu séð mig fyrir sér að ég sé í frekjukasti sem engan endi ætlar að taka og að allir á heimilinu séu þessvegna beygðir til þess að framkvæma vilja minn.  Þetta er auðvitað bara að parti satt, en nú skulum við fara aðeins yfir það hvað Bóndinn er ekki alltaf mikill engill.

Það er búið að vera vesen á hjólinu mínu. Fyrir jól þá sprakk að aftan og eftir mikið moð þá skakklappaðist Bóndi niður í geymslu og gerði við. Allt kom fyrir ekki og var lekið úr strax daginn eftir. Þá keypti ég slöngu og hann setti í og fór á sama veg, bara nokkrum dögum seinna. Nú, á laugardaginn tók ég eftir að framdekkið var flatt. Ég bað Bóndann með mínum blíðasta rómi og fagurri framkomu að GERA við dekkið ekki síðar en á sunnudeginum. Það kostar mig jú 3 lestarferðir hver á 21krónu að ferðast um Kaupmannahöfn á mánudögum. Það varð skammhlaup í höfðinu á Bónda og þurrkuðust út þau mikilvægu gögn að gera við hjólið mitt.. Það endaði með því að ég þurfti að taka lestina að heiman, komst ekki lengra en til Islands Brygge, þar sem lestarfjandinn stoppaði vegna einhvers sem var að gerast lengra á teinunum. Þá þaut ég í strætó niðrá torg og svo í strætó þaðan uppí skóla. Það var svosem í lagi, og líka leiðin frá skóla í tónskóla, maður hoppar eiginlega bara uppí næstu lest og skiptir á réttum stað. En svo þegar ég ætlaði til baka þá þurfti ég að bíða í 20mín í kuldanum eftir strætó, ég ætlaði nefnilega að labba sem minnst, sko í staðinn fyrir að fara bara í Metró. Og svo þurfti ég að skipta um strætó og þurfti aftur að bíða og þá var komin rigning. Og þegar ég komst loksins í réttan strætó þá uppgötvaði ég að ég hafði labbað og beðið mikið lengur en þurfti og svo þegar ég fór úr, þá sá ég að ég hefði þurft að labba alveg jafn langt frá metro stöðinni og heim..en verið klukkutíma fljótari heim, urr. Númm, Bóndi gerði við hjólið og ég fór á því í skólann á þriðjudaginn, þegar ég kom út og ætlaði í tónó aftur, NB með selló á bakinu, þá sá ég mér til mikillar undrunar að bæði dekkin voru flöt. Hvað á það að þýða?

Þýðir að dekkin eru ónýt ekki bara slöngurnar. Ég tók lest frá þeim ógeðis stað Nørreport station, þurfti í lyftuna og allt..oj. Mér varð svo mikið um þetta að ég fór í lestina án þess að klippa kortið mitt, en komst sem betur fer á leiðarenda án þess að vera gómuð. Diva cykler er við hliðina á tónskólanum og þangað henti ég hjólinu í dekkjaskiptingu meðan ég fór í spilatíma. Þar er ég með afsláttarkort, ég er dyggur viðskiptavinur.

Og því ég vill meina að Bóndi sé eiginhagsmunasamur, þá er það þannig að hann hefur núna rænt hjólinu mínu. Já, fannst örugglega frekar hallærislegt að hjóla á því á ónýtum dekkjum … en auðvitað elska ég Bóndann sama hvað ég er í miklu frekjukasti.

dsc_0006

Að öðru

Það er alltaf þannig þegar ég er að gera mikið og svona og hef ekki alveg tímann til að ganga frá hverju einasta snytti sem aðrir meðlimir Félagsbús dreifa af mikilli samviskusemi útum öll gólf að það lýtur allt út eins og eftir sprengju og eins og ef við byggjum með 13 rónum sem allir stefndu leynt og ljóst að því að pissa ekki oní skálina.. Þannig að á miðvikudögum því þá er ekki kennsla í skólanum þá hef ég tekið aðeins til. Í morgun dreifst ég á lappir og ætlaði að byrja. Reif fram ryksugu garminn og byrjaði að ýta skaftinu á henni fram og til baka meðfram stofugólfinu. Nú, ryksugan þessi hefur verið ónýt síðan í nam og dettur hausinn á henni af á 2 sekúndna fresti og svo er hún gerð fyrir þjóðir sem ekki eru 170cm í meðalhæð, heldur svona…70cm í meðalhæð. Og hausinn datt af aftur og aftur og svo fann ég einhverja ógeðslega fýlu. Kúkafýlu. Ég fékk svo mikið nóg að ryksugunni hefur verið úthýst .

Ég sannfærði sjálfa mig á svona 3sekúndum að ég yrði að fara og nálgast nýja ryksugu, hér eru ástæðurnar:

  • Við erum 5 og okkur fylgir sandur, mylsna, ryk og hár
  • Við búum í ryksafnara
  • Sunneva hefur það að venju að hella úr perlukassanum á gólfið..(kommon ég leggst ekki nema einu sinn í gólfið til að týna það allt saman upp)
  • Við búum í landi þar sem njálgur er tíður heimilisgestur og er ryk hans aðal skemmtistaður
  • Hreinlæti er af hinu góða
  • Ég á ekki skilið að þurfa að ryksuga með ryksugu sem er búin til fyrir dverga
  • Við eigum ekki skilið að vera í skítugu heimili
  • Börnin fá astma ef við ekki ryksugum allt rykið
  • Ryksuguhljóðið fælir frá dúfurnar (sem eru búnar að skíta út allar framsvalirnar..ég prufaði að grýta eina um daginn með snjóbolta og aftur með sígarettustubb sem “einhver” hafði skilið eftir á svölunum..hún flaug í burt og að því er ég sé,þá eru þær núna frekar á svölunum við hliðina..)
  • Sá sem skúrar stigaganginn verður meira fúll ef við ekki ryksugum okkar stigapall
  • það er ógeðslegt að sópa alltaf, þá þyrlast rykið upp..

Allt þetta með rökfærslum og ráðagerðum ásamt ákvörðun að ég myndi útí búð að kanna ryksugur  gerðist eins og ég sagði á 3 sekúndum. Nú er bara klukkan 13 og ég er búin að fara og versla pínulitla ryksugu á 300 danskar. Á eftir að prufukeyra hana, er undarlegt að ég hlakki til að prufa nýju ryksuguna?