Flestir sem þetta blogg lesa vita að ég er skúringakona af guðs náð. Ég er svo starfi mínu vaxin að það er erfitt að finna aðra eins þrifapíu..reyndar býr önnur eins þrifapía með mér.. en það er önnur saga.

Við erum þá tvær með eitt og hálft hús hér í borg sem við þurfum að skeina á hverjum degi næstum því. Við höfum eitt hús útaf fyrir okkur og hitt tökum við á móti A og B.

Húsið sem við höfum sjálfar er gamalt og risastórt. Það er meira að segja búið að byggja við það. Þar eru hæðir margar og stigar endalausir og engin lyfta. Ég er ekki að gera grín þegar ég kvarta yfir að mér finnst ósanngjarnt í meira lagi að þurfa að ganga upp, hvað voru það 97 tröppur eftir allan liðlangan vinnudaginn..urrr. Númm, í þessu húsi er s.s kennt fullorðnu fólki að stjórna öðru fullorðnu fólki og svo eru kennarar og aðrir vinnugarpar með skrifborð sem við erum að þurrka af. Ótrúlega merkilegt er að eitt skrifborðið hjá einni konunni er alltaf útatað í kexmylsnu og klíneríi undan glösum. Hjá öðrum þarf alltaf að fjarlægja of marga bolla, svo marga að ég hef brugðið á það ráð að láta ruslið húrra niður á næstu hæð í frjálsu falli og krossa fingur um leið að allir ávextirnir sem fólkið uppi hefur borðað yfir daginn slettist ekki uppúr pokanum..svo ég tali ekki um allan pappírinn úr klósettruslafötunni.. OJ.

Í hinu húsinu eru endurskoðendur sem endurskoða af miklum móð. Flestir eru karlar en ég hef séð nokkrar konur þar líka. Það er fjölskyldu fyrirtæki sem heitir Bóu og Skó, neita að fara aftur oní það… tæpti á þessu hér.  Þeim tekst að setja ógrynni af heftum og gataradrasli um allar trissur. Við vorum þarna um jólin líka og þá með allt verkefnið í afleysingu og þá var venjan held ég að geyma nokkur vel valin jólakex í öðrum enda hæðanna, taka sér eitt og mylja það, en ekki borða, yfir allt gólfið og biðja svo vinnu félagana um að labba á eftir sér og stappa duglega í mylsnunni, bara til að vera viss um að ekkert gólfsvæði yrði án hennar.

Það var líka jóla leikur í gangi. Trúlega svona leynivina leikur. Það tæklaðist þannig, að því er virtist, að fólk átti að skreyta skrifborð og skilja eftir pakka. Þessa ályktun dró ég því í hvert skipti sem ég dró upp moppuna var búið að setja blöðrur, krulluband, litla draslið sem ég er alltaf að troða í jólakortin (ég biðst innilegrar afsökunar), glimmer (go figure) og annað gleði skraut á borðin. Ég held að það allt hafi verið konur því síðan á tveimur borðum hafði einhver tæmt úr gatara  og annar límt post-it miða yfir allan tölvuskjáinn..það held ég að hafi verið menn.

Það er ekki bara dans á rósum að þrífa hús skal ég ykkur segja. Annað fullorðið fólk er ótrúlegur sóði. Sérlega á baðherberginu. Ekki skyldi mig undra þó það kæmi í ljós að einhver af karlkyninu sé með skallabletti í kringum æxlunarfærin… eða stendur fólk í því að plokka sig þarna niðri og henda án þess að hitta hárunum oní klósettið?

Oooog ég held ekki að það séu konur sem hlanda ..eða á ég að segja spreyja allstaðar annarstaðar en oní sjálfa klósett skálina…

Það er síðan ljóst að í byrjun hvers mánaðar er hinn alþjóðlegi túrdagur kvenna. Það er ógeðslegt að hala hvert blóðugt dömubindið upp úr tunnunni á fætur öðru.. og þetta á ekki bara við um eitt húsið eða eitt klósett í einu húsinu, heldur er á fleiri klósettum í báðum húsum á þessum sama tíma hellingur af kvenblóði í grisju. OJ.