Fyrir skemmstu skrifaði ég póst um að mér ætti sennilega eftir að leiðast í fæðingarorlofinu yfirvofandi. Áður en ég held áfram verð ég að koma því að að ég er alltaf að breytast, breytist eins og vindurinn á Íslandi. Til dæmis þá hef ég aldrei verið hrifin af því að vera heima hjá mér mjög mikið hálf aðgerðarlaus, en núna hlakka ég alveg pípandi mikið til.

Að ætlaðri eymd í orlofi, samt, þó ég hlakki til að vera í því.. ó svo skrítið og þversagnarkennt.

Af listanum sem ég hafði skrifaði um daginn yfir það sem ég gæti mögulega gert hef ég strax hafist handa við nokkur verkefni.

image

Ákvað að taka þátt í svona árs samhekli á netinu.. sjáum til hvort mér tekst að vera með.

Ég er alveg dottin oní heklið. Hekla og hekla. Er auðvitað algjör jómfrú í hekli, þó ég hafi prjónað töluvert,  svo ég hef verið að gera hinn einfaldasta ömmuferning svokallaða í teppi handa Sprengjunni. Ég er búin að gera svona 40 ferninga. Ef ég hef reiknað rétt þá þarf ég að gera að minnsta kosti 100. Það vissi ég ekki þegar ég byrjaði á þessu og hefði sennilega ekki byrjað ef ég hefði vitað það.

image

Nokkrir af ferningunum sem eru komnir

Þá er mættur á heimili mitt leirbrennslu ofn. Hann bara kom uppí hendurnar á mér án þess að ég hafi þurft að láta annan handlegginn fyrir. “Eina” sem ég þarf að gera er að tengja hann við rétta gerð af rafmagni. Ég nenni ekki að halda að hlutirnir séu rosalega mikið vandamál, jafnvel þó það þurfi að bera fram orð eins og þriggja fasa, lekaliði, varrofi, öryggi eða vita hvað amper, wött og volt eru.

Hlakka til að byrja að leira aftur. Var búin að gleyma að ég var á kafi í því og hef farið á fjöldann allan af námskeiðum og áföngum í mótun.

Annars eru allir hressir, amk í þessu dásemdar veðri sem hér er. Dásemdar segi ég því Eiginmaðurinn komst ekki til vinnu og gerði allt mikið auðveldar fyrir mig í dag. Get ég ekki ráðið hann í vinnu, bara vinnu við að vera Eiginmaðurinn minn, ég lofa að skila öllum launatengdum gjöldum.

Árshátíð yfirvofandi í grunnskólanum, Búnglingurinn mun framkvæma með sínum árgangi atriði úr Thriller, Sprengjan úr Grease og Örverpið úr Mary Poppins. Talandi um Mary Poppins þá ætla ég aldeilis annað kvöld að breggða mér á þá sýningu með móður minni.

Svo er ég að hugsa um að fara í tíma hér í bæ sem heita Soul shaking. Tíminn ku byrja á Qi gong svo einhverskonar dans og svo slökun. Ég var t.d alls ekki með áhuga á svona fyrir sirka mánuði.