[]

Frekar drungalegt í Köben í dag. Ég elska þegar það rignir og elska þegar það er svona drungalegt. Sjáiði himininn hann er stappaður af skýum.  Tók þessa mynd á leiðinni í tónlistaskólann í dag um klukkan 16.

Það er líka Halloween tími hér. Krakkarnir voru boðnir í Halloween partý á frítíðsheimilinu eða á fritten síðasta föstudag. Þau voru vampírur af einhverju tagi og það héngu köngulær í hárinu á þeim og um hendurnar og þau voru með svartar strípur spreyjaðar í hárið. Þeim fannst þau kúl og mér líka.

Duddi litli fékk líka tekna mynd af sér. Hann fékk því miður ekki að vera með í partýinu, enda hefði hann bara týnst og farið að grenja. Það var allt dimmt og drungalegt, það var meira að segja draugahús.

Við Sindri fórum á meðan bara í Fisketorvet að skoða búðarglugga. Ég er búin að búa til ný lög hjá Félagsbúinu og þau voru sett í dag. Það má ekki bara ræða harðindin. Það er niðurdrepandi og leiðinlegt.  Við fórum s.s með tvennum tilgangi, eða þrennum tilgangi í Fisketorvet. Númer eitt að skoða búðarglugga (og ekki láta sig dreyma um neitt sem í gluggunum stóð vegna ónefnds ástands í heiminum). Númer tvö að fá okkur Mc Donalds, því ég nennti ekki að hjóla með þau í partý, bruna heima aftur til að elda oní okkur tvö og bruna svo aftur út að ná í þau..

…hér er hann að éta hambó á Mc Donalds, hann var líka málaður í framan eins og þau hin, annað kemur varla til greina. Ég man ekki hvað var í þriðjalagi..

Og ég fór til Berlín um daginn. Það var fjör. Ég segi ekki að þetta hafi verið auðveldasta ferðin, enda langar mann frekar til að deila útlanda ferðum með þeim sem maður þekkir vel. En þetta hafðist og ég er reynslunni ríkari og hefði sko ekki viljað…ekki fara. Það stendur margt uppúr en aðallega táfýlan af sjálfri mér. Það er náttúrulega ekki eðlilegt að vera í sömu skónum frá 7 á morgnana til 23 eða síðar á kvöldin. Ég fæ bólur ef ég hugsa um að þurfa að fara í þá aftur. Verst er að ég henti vetrar múnbútsunum fyrir algera slysni þegar ég var að flytja í sumar. Þau voru dásamleg og hlý og oj hvað er farið að kólna. En fallegir dagar engu að síður.

Framundan er svo bara hið venjulega líf. Ég eyddi leynt og ljóst allri helginni í að kvíða fyrir því. Ætlaði varla að fá mig til að fara í skólann í morgun. En svo þegar dagurinn er afstaðinn og ég náði að gera það sem ég átti að vera að gera og fara í spilatímann og svona, þá hlakkar mig bara til að halda áfram með hið venjubundna líf.

mAmma Ragna kemur í heimsókn í byrjun nóvember, við hlökkum til.