Ég hef mímarga, mýmarga, mý-marga, mí marga.. hallast að mýmarga, hæfileika. Einn af þeim stærri eru röðunarhæfileikar mínir. Ég er svakalega góð í því.

Hér á Frímerkinu hefur ekki verið tekið uppúr öllum kössunum sem við komum með hingað. Það er útaf því að þetta er frímerki og ekki hægt að hafa dót útum allt.

Samt hefur mér tekist að gera þetta að hinu ágætasta heimili. Auðvitað er erfitt að útskýra í orðum hvað það er frábært að ég er búin að taka alla tómu, flötu kassana og troða þeim bak við 2 sæta sófann þar sem ég, Bóndi og Hannes bróðir okkar sátum heilu kvöldstundirnar meðan hann var í heimsókn. Þá sátu þeir og prumpuðu og horfðu á myndbönd, þó þeir væru búnir að sjá allar myndirnar og ég prjónaði.

Talandi um prjónapokann minn. Hann er svo stór að hálft frímerkið fer undir hann. Úr honum eiga að spinnast lopapeysur á lýðinn sem ég bý með.

Annað merkilegt sem ég hef framkvæmt hér til hagræðis er 3m hátt fjall af kössum. Þar eru 7 fullir pappakassar af dóti sem ég þarf aldrei að nota. Inni hjá börnunum á daginn treð ég sængunum uppí hillu og koddunum uppá skáp og reisi svo dýnurnar við. Það er að svínvirka.

Verst þykir mér að vera ekki á bíl í dag. Ekki af því það er vont veður, hér er reyndar geðveikt gott veður, heldur útaf því að hér er 3/4 af sængurveri fullt af óhreinum þvotti sem ég þyrfti að koma í þvottahús einhverstaðar.

Nú kann einhver sem ég þekki og var búin að segja að ég vildi ekki eiga bíl, að byrja að hllæja inní sér og hugsa, ” ég sagðiða.. engum sem kemur frá búsetu í Danmörku og segist ætla að hjóla allt á Íslandi, tekst það”.

Við því segi ég: búðu með 5 manna fjölskyldu (þar af Búngling og Sprengju sem eru á hverjum degi eins og þau haldi að þau séu svín og eigi að rúlla sér uppúr skít og drullu) á frímerki með enga þvottavél, ekkert Christiania-hjól og engan bíl.

Ég er komin rosalega nálægt því að skella kjöti í súr, sauma skinnskó og slétta moldargólfið.

Varðandi röðunarhæfileika mína þá er ég ennþá bara rosalega hissa á því að IKEA hafi ekki hringt í mig og boðið mér að koma og innrétta hjá þeim.