Þegar ég geng í röskri en heitri golunni meðfram grasröndinni við hliðina á malbikaða göngustígnum hér hinum megin við kanalinn, og held höndunum þannig yfir andlitinu, eða eiginlega í kringum það, þannig að ég sjái bara grasið, sem er nýslegið og þurrt, er ég flutt aftur í tíman á ljóshraða.

Lyktin, vindurinn, hitastigið, liturinn og hvernig grasið hefur bæði stingandi gömul og þykk grös og mjúk ný grös lætur mér líða eins og ég standi á einu túninu á Breiðabólstað hjá ömmu og afa.

Ég veit ekki hvaða túni nákvæmlega en veröldin er galopin og tilfinningin bæði stór og smá. Smá vegna þess að ég sé öll túnin sem tilheyra bænum og bærinn er ekki langt frá né risastór, en stór vegna þess að ég er takmarkalaus, endalaus, á þessari stundu.

Tilfinningin að vera 100% örugg í algleymi mínu, sem eitt með náttúrunni og allt, bókstaflega allt, er í himna lagi akkúrat þarna þegar ég dreg inn andann og drekk í mig lykt, vind, hita og liti, gerir fortíðina í sveitinni að ógleymanlegri stundu.

Lífið á malbikinu, sem fullorðin kona, með allar áhyggjurnar, stressið, lætin, nútíma erfiðið og erfiðan andlegan hund sem kann ekki að ganga í taumi, togar alltaf í og er frekur, er bæði flókið og erfitt.

Grasrönd í borginni getur þannig fengið konu til þess að vatna músum, en nú veit ég líka afhverju við sitjum hér bæði með fortíðarljóma í augum í hvert sinn sem í harðbakkann slær og ” eigum við ekki bara að fara og búa í sveit? “