Bjútíbína skopparabolti. Hvaða svipur er þetta eiginlega? Pottþéttur stríðnissvipur ættaður úr föðurfjölskyldu hennar. Gott ef ekki grallarasvipinn hafi ég séð á föðurhennar, föðurbróður hennar sem og öllu karlkyni í þeim legg fjölskyldu.

Í veðurfréttum er þetta helst: Hér er heitt, en ekki of heitt, volgt kannski mætti segja. Svolítið vindasamt, amk fyrir minn smekk. Mér finnst ekki mjög gott að láta blása mikið á mig, þannig.

2015-06-30 17.01.09

Stundum þurfum við bína að fara saman í vinnuna. Einn góðan sólardag hér fyrir nokkru, það var að mig minnir um helgina fyrir tveim vikum, þegar það var 30-34 stiga hiti hér í borg. Þannig að þú skilur að það var heitt og þurrt og alls ekki blautt. Enda er þessi græni pollur þarna eins og geimskip yfir Snæfellsnesi. Álfur útúr hól. Fljúgandi apar úr afturenda mínum.

Bjútíbína vildi labba sjálf að sjálfsögðu og áður en að ég fékk nokkru við komið þá var hún komin, eins og börnum einum er lagið, ofaní þennan óeðlilega poll.

Ég henti skónum.

2015-07-03 14.46.27

Hún var líka í sumarfríi hér fyrir viku síðan. Var í fríi í tvær vikur. Stundum veit ég ekki alltaf hvað ég er að gera. Ég var ekkert í fríi og því síður Eiginmaðurinn. En ég ruglaðist í ríminu undir hvössu og dæmandi augnaráði einnar fóstrunnar (sem btw er sennilega 10 árum yngri en ég og með litað blátt hár) sem fússaði og sveijaði yfir því að börn færu ekki í það frí sem þau ættu að fara í.

Eftir að hafa munað að hún byrjaði fyrst á vöggustofunni í mars og þar á undan hafði hún verið sem mikið yngri og ótrúlega matarfrekur síamstvíburi minn, þá ákvað ég að stytta fríið hennar um viku og hætta við vikuna sem ég hafði skráð hana í, í byrjun ágúst. Hún getur farið í frí næst þegar ég er í fríi.

Hún var svo fengin að komast úr klóm mínum, búin að fá nóg af rólegheitunum að hún rauk inná vöggustofuna og sagði ekki einusinni bless.

En á myndinn þarna fyrir ofan, sennilega í einhverskonar örvinlan að reyna að finna sér eitthvað spennandi að gera, gekk hún um með dúkkukjól á hausnum.

2015-07-04 17.09.11

Svo er eiginlega um að gera að baða sig svolítið á svölunum, það höfum við aldeilis gert áður, við höfum meira að segja verið með uppblásnar sundlaugar á svölunum.

2015-07-04 17.09.19

Þessi fær samt enga uppblásna sundlaug, enda Bústýra Félagsbúsins, sem kannski leiðinlegt er að viðurkenna, orðin aðeins yfirvegaðari í ákvarðanatöku. En í balann fór barnið og fannst ágætt eða þangað til …

2015-07-04 17.10.08..það var of heitt í sólinni og vissara að koma sér fyrir í skugganum.

2015-07-08 15.19.43

 

Við fórum og keyptum loksins rúm handa henni. Hún er búin að sofa uppí hjá okkur í 2 ár núna. Rólegan mysing, hún er ekki sködduð af því eða neitt. En þetta æxlaðist bara svona. Hún vildi aldrei vera í rimlarúminu og ég gafst upp á því að vera alltaf að vakna á milli þess sem ég vaknaði til þess að sækja hana háorgandi í rúmið.

Hún fór rakleiðis og sótti dúkku og dúkkurúmið. Hún var ekkert mikið fyrir að prufa sitt eigið rúm en tróð sér enn og aftur í dúkkurúmið…með sæng.

2015-07-01 12.36.51

Við fórum í strandferð. Það er alls ekki búið að vera mikið strandveður. Bara þrjár ferðir hingað til. Vona að það verði hægt að fara oft of mörgum sinnum í viðbót!

2015-06-30 14.43.53
2015-06-30 19.11.42

2015-07-01 12.40.12

Við vorum öll á ströndinni nema Únglíngurinn, hann er í föðurhúsunum.


2015-07-01 12.40.14

Eiginmaðurinn og mini-hann.Ég var þarna líka. Það er eitthvað ótrúlega þægilegt að fara og vera við sjóinn. Ég er alveg hætt að vilja liggja og bakast í sólinni. Ég vil ekki hafa brennda húð og húðkrabbamein, mér finnst það barasta ekki vera þess virði. Enda eru allir partar míns kropps sem sjást þegar ég er í venjulegum fötum brúnir bara vegna þess að ég fer yfir höfuð eitthvað út. Hinir hlutar kroppsins sem enn eru næpuhvítir sjást aldrei því ég er búin að slökkva ljósið í svefnherberginu áður en ég stekk á hraða ljóssins undir sæng.

2015-07-01 12.40.04

Bjútíbína að liggja í sólbaði eins og allir hinir… nema hún gleymdi handklæðinu og svona.

2015-07-01 17.14.07

Sama dag hlítur að vera, hann er í sama bolnum, hjóluðum við eitthvað. Mega flott hjól. Ég man ekki hvað við vorum að gera.

2015-07-07 19.26.28

OK. Hvað er nú þetta?? Jú, það kom í ljós eftir tveggja mánaða bið eftir að þetta myndi hverfa á sjálfusér, plús bið þegar búið var að panta tíma hjá lækni, sem sendi okkur á húðlækni sem sendi okkur á háls, nef og eyrnalækni. Háls, nef og eyrnalæknirinn varð alveg jafn áhugasöm og uppveðruð af undurm líkamans eins og augnlæknirinn sem Sprengjan fór til hér í vetur.  Þetta er hin vallegasta munnvatnsbóla. Ég þarf varla að taka fram að ég var hætt að sofa á nóttunni undir það síðasta vegna hræðslu um að þetta væri eitthvað hræðilegt, annar munnur að myndast eða eitthvað þaðan af verra.

2015-07-02 13.05.32

Við vorum mættar s.s hjá háls, nef og eyrnalækninum í annaðskiptið til þess að láta fjarlægja ófögnuðinn.


2015-07-07 19.26.41

Hún stóð sig eins og hetja. Var deyfð eins og hjá tannlækni og á meðan hún lá þarna eins og mesti töffari í heimi, starði ég útum gluggann svo ég myndi ekki sjá þegar það var skorið gat á barnið og munnvatnsbólan hífð uppum það… reyndar á milli þess sem ég reyndi að stöðva Bjútíbínu í að rústa pleisinu. Þetta er pottþétt ókosturinn við að vera hálf einn í útlöndum, amk án ammanna og afanna, það er aldrei hægt að biðja um pössun og krakkarassgatið verður alltaf að koma með. Þreytandi.

En aðgerð heppnaðist vel og hún var saumuð 3 spor og bannað að hreyfa sig mikið næstu 3 daga amk. Ekki það að það hafi verið vandamál að fylgja því eftir í maraþon letikasti þessa sumars.

2015-07-10 13.43.31

Eitthvað þurftum við að gera okkur til dundurs og skemmtunar. Ég hef ekki notað svitalyktareyði sem keyptur eru úr búð síðan í fyrra. Þá gerum við hluta af þeim sápum sem við notum sjálf. Og þá er ekki seinna vænna en að prufa að búa til vorar eigin snyrtivörur. Þarna er Sprengjan að hræra í augnskugga og kinnalit.


2015-07-10 13.27.09

Framleiðslustjórinn sá um vörutalninguna.


2015-07-10 14.15.30

Og þarna er samlitur varagloss að verða til. Allt eiturefna laust. Ég keypti líka hráefni í maskara sem ég á eftir að prufa. Sprengjunni vantaði ákveðna liti og þegar hún var búin að búa til það sem hún þurfti þraut þolinmæðina og hún flengdist inní herbergi og skildi mig eftir með fráganginn.


2015-07-11 13.12.23

Þarna eru þær systur búnar að draga fram Silvanians dótið. Þetta er alveg ótrúlega flott dót að mér finnst. Bjútíbína varð strax alveg heilluð. Handlék litlu kanínubangsa-kallana sem fylgja þessu dótiog dáðist að. Fékk að vera í smá inni hjá stóru og sat í kassa. Hvað er málið?

2015-07-11 17.05.13

Við fórum í matarboð um daginn til vinkonu minnar sem býr í Rødovre. Ég vil búa á þessari götu, bara vegna þess hvað hún heitir, Rómantíkurvegur. Mmmmm!

2015-07-11 17.39.20Vinkona mín er með ótrúlega skemmtilegt verkefni í gangi. Hún er að rækta sitt eigið grænmeti, ávexti og krydd og æltar að lifa á því eitt ár, s.s án þess að kaupa nokkuð útúr búð. Hún byrjaði í mars síðasta.

Mér fannst þessi blómaskál svo falleg. Ótrúlega flottir litir.

2015-06-29 14.18.37

Eins finnst mér þessi plóma vera geggjað flott. Það er eins gott á bragðið eins og það lítur vel út.