Það er sem af mér hafi dottið allar dauðar lýs! Hverjar eru þessar húsmæður sem alltaf er verið að tala um? Hef rekist á tvær greinar núna undanfarið þar sem mér, sem sko húsmóður og eiginlega bara sem konu, hefur verið svo harkalega misboðið að lá við að ég æti lýsnar sem duttu dauðar af!

Hver er það sem heldur að húsmæður séu einhverskonar þjóðfélagshópur í minnihluta?.. og þá helst, ef ég skil allt rétt, þjóðfélagshópur sem er hálfgerðir aular eða í það minnsta að berjast í bökkum geðheilsunnar og sannarlega, Ó SVO sannarlega einhver allt önnur manneskjutegund en t.d kona sem er vöruhönnuður eða fegurðardís.

Húsmóðir þýðir skv. íslenskri orðabók “sú sem ræður fyrir innanstokks” sem þýðist á venjulegri íslensku: kona sem ræður heima hjá sér.

Alveg er mér nú sama hvort konur sem búa heima hjá sér vinna heima hjá sér eða vinna fyrir einhvern annan, en í þessum tveimur greinum þá er klárlega verið að ýja að því að húsmæður séu ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni, séu þjófar, illa vaxnar, ljótar og gráðugar.

Ásdís Rán leitar að ljótri konu

Ásdís Rán leitar að húsmæðrum í raunveruleikaþátt. HJÁLP!! Hvert er veröldin að fara, hún er klárlega (habbðu það Bragi Valdimar, klárlega, klárlega) að fara niðurá við veröldin. Einhver, bókstaflega, gervilegasta kona Íslands, vill gera húsmæðrum landsins greiða. Það er að segja einni “heppinni” húsmóður. Dreptu mig bara ekki með kjöthamri!

Afhverju er hún ekki bara að leita að einhverri konu? Hvaða konur mega þá skv. hennar kenningu á því hvað húsmóðir er, ekki sækja um hjá henni? Ásdís er titluð athafnakona í þessari grein…. ég fer að halda að ég geti ekki lengur titlað sjálfa mig sem húsmóður heldur verði ég að fara að titla mig sem athafnakonu, það er eiginlega ljóst, eiginlega yfirlýst, að ég hef aldeilis athafnað mig mikið í gegnum tíðina.

Og kannski frekar;  Afhverju eru hún að þessu yfir höfuð, veit hún ekki hvað þetta er heimskuleg hugmynd og sendir allskonar asnaleg skilaboð til kvenna. Það er kannski ekki við örðu að búast frá henni..?

Gráðugar húsmæður í skúmaskotum, vopnaðar málmböndum?

Og hin greinin.. sem meira að segja hefur setið í mér síðan ég las hana í desember. Þessi grein er um hönnun og hönnunarstuld. Ekki misskilja mig, auðvitað er ég á móti því og finnst jafn hallærislegt og næstu manneskju að einhver hanni eitthvað og svo fari bara allir í búðina og kaupi sér efni og leiðbeiningar til að búa til eins og selja á uppsprengdu verði.

Fyrsti hluti greinarinnar er ekki svo galinn og á við rök að styðjast. En svo er mér eiginlega bara allri lokið.

Þegar einhver nýútskrifaður hönnuðurinn sem hefur eitt þremur árum og fúlgu fjár í nám sitt, ákveður að hanna vöru og setja á markað hér á íslandi, þá er eins og það verði uppi fótur og fit í öðruhverju skúmaskoti landsins.Húsmæður landsins hópast saman til þess að mála perlur og búa til perlufestar eða sauma kjóla, því það er jú ódýrara að henda í festina sjálfur eða sauma flíkina en að kaupa vöruna af hönnuðinum sjálfum. Það eina sem þarf að gera er að skjótast niður í búð vopnuð málmbandi og myndavél í vasanum, hendast svo með flíkina inn í næsta mátunarklefa og mæla og mynda. Nú og svo auðvitað að versla efnið í herlegheitin í tilheyrandi handverks eða saumabúðum.
Ekki líður á löngu þar til auglýsingar flykkjast inn á bland.is þar sem eftirlíkingar af vöru, grey unga hönnuðarins, eru seldar “miklu ódýrara”.

Eftir situr hönnuðurinn með sárt ennið og himinhá námslán. Atvinnuvettvangurinn er horfinn. Hann var étinn upp af gráðugum húsmæðrum. Húsmæðrum sem hafa að öllum líkindum líka farið í gegnum háskólanám og starfa nú við það sem þær hafa lært, greiða niður námslánin og eru nú alsælar með þessar sniðugu aukatekjur sem þær nú hafa.
En hönnuðurinn sem átti hugmyndina, af nú fjöldaframleiddu vöru húsmóðurinnar, lækkar aftur á móti í launum. Vinsæla, fallega varan hans er nú seld á bland.is á svörtum markaði af gráðugum húsmæðrum. Varan sem tók hönnuðinn að minnsta kosti 3 mánuði að þróa og hanna, launalaust, er komin inná annaðhvert heimili landsins, stolin hönnun.

Þarna er ég búin að merkja við með feitletrun lykilatriði þessarar greinar. Samkvæmt henni Guðrúnu Hjörleifsdóttur eru ungir hönnuðir aumingjar, húsmæður búa í skúmaskotum og eru gráðugar. Þær eru líka æstar húsmæðurnar og finna einhverja annarlega fróun í því að mála tréperlur. Húsmæðurnar eru líka þjófar sem ræna auma hönnuði með málmböndum og myndavélum. Og þær græða síðan á tá og fingri húsmæðurnar meðan hönnuðurinn ber enni sínu í hurðina hjá LÍN. Gráðugar húsmæðurnar flykkjast á bland.is og selja öll hálsmenin hinum gráðugu húsmæðrunum, þú veist, þessum sem voru uppteknar við að sauma EMAMI kjólinn.

Þetta er nú svo fyndin grein að ég er alveg við það að fá drullu.

Í greininni á Kvennablaðinu er bara ekki verið að tala um stolna hönnun og eiginlega ekki eftirlíkingu heldur. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli að stolin hönnun og eftirlíking er alveg eins vara. Þ.e.a.s þá væri verið að búa til nákvæmlega eins vöru og upphaflega varan og selja sem upphaflegu vöruna, eins og Nike skó frá kína, þeir eru, ef sagan segir rétt frá, ekki alvöru Nike skór.

Það er sko aldeilis ekki nýtt á nálinni að þræða kúlur og perlur uppá band nota sem hálsfesti og alveg örugglega er ekki nýtt að mála tréperlur. Þetta eru allt bara útfærslur á hugmyndinni, sem sennilega hefur alltaf verið til. Umræddar hálsfestar í greininni, þessar:

trehalsfestar

eru ekki einusinni líkar, þó þær séu báðar búnar til úr tréperlum, málningu og borða. Gullhálsfestar eru heldur ekki líkar þó þær séu allar búnar til úr gulli, eða aðrar perlufestar, þó þær séu allar búnar til úr þræði einhverjum, festingu og perlum.

Fáið nú ekki andateppu og haldið að ég, hönnuðurinn, sé að skíta yfir meðhönnuði mína og finnist í lagi að stela hönnun. Akkúrat þetta dæmi sýnir bara ekki slíkt. Þetta kallast bara föndur æði, rétt eins og þegar allir máluðu krukkur, klipptu út þrívíddarkort og notuðu crackl efnið frá föndurbúðinni til að gefa máluðum hlutum antík yfirbragð.

Ekkert við þessu að gera. Hönnuðurinn ætti að vera upp með sér að allir séu að herma eftir honum. Greinilega slegið í gegn. Það er síðan starf hönnuðarins að vera skrefinu á undan öllum gráðugu húsmæðrunum sem flykkjast úr skúmaskotum landsins (og dansa stríðsdans með tréperlur um hálsinn??) og halda áfram að þróa vöruna sína og fara í allar þær áttir sem hinum hnífunum í skúffunni dettur ekki í huga að gera.

Mér er svo mikill hlátur í huga.