Ég hef alltaf verið hrifin af því sem ég kalla “random daga” eða “tilfallandi daga”.. eða kannski “tilfellu dagar”..

Random dagur er dagur þar sem þú vaknar á morgnana, ert að fara að gera bara það sem þú gerir alltaf, gerir það jafnvel líka í smástund en ákveður síðan, eins og við á þessum fína laugardegi að skreppa niður á strönd því það var svo gott veður.

Búist er við að strandferðin sé bara venjuleg. Þú hjólar með tonn af stranddóti, nesti og með úngmenni sem gætu farið sér og öðrum að voða í umferðinni vegna alls augnarúllsins (þú veist, únglíngaaugnarúll) sem þau þjást að þessi misserin (ætlaði að skrifa þessa dagana.. en ég held ekki að þegar um únglíngaaugnarúll er að ræða að þá megi reikna með að það taki daga, frekar misseri (misseri svo órætt tímabil)), gargandi smábarn, sveittan og þreyttan Eiginmann og sjálfa þig að sjálfsögðu sem mögulega ert í mega pirruðu ástandi alveg þangað til búið er að hlunkast niðureftir, velja stað (Guð hjálpi mér), drösla hjólum og börnum yfir sandinn og búið að breiða úr sængurverinu sem planið er að slaka á, á.

Allt er gott og hið besta veður er. Fagri búinn að grafa sig í sandinn. Fröken Sprengja búin að liggja í sólbaði. Geðmundur og Eiginmaðurinn búnir að fá útrás í boltaleik og Bjútíbína búin að rífa sig úr fötunum og setjast berrössuð í sandinn til þess að gráv stor húll.

Það er þá krakkar mínir sem undrin og stórmerkilegheitin gerast. Það er þá sem hin úttaugaða nútíma fjölskylda sem hvert um sig hugsaði sinn gang á hljóðlátri heimferð, mögulega eftir enn eitt rifrildið um hver ætti að gera hvað hvenær og hver gerði hverjum hvað, sér skjaldböku í göngutúr.

skjaldbaka-a-strondinni

Já börnin góð, eins og ég lifi og anda þá var skjaldbaka í göngutúr á leiðinni heim frá ströndinni um daginn. Allt hversdagslegt og ekkert nýtt að frétta. Allir í sínum heimi og það var skjaldbakan líka. Sjá bara hvað hún er flott!