Þá er dagurinn runninn upp. Elstu börnunum tveimur leið illa í gær af spennu og ráðgerðu að sofna klukkan átta… tími sem alla aðra daga ársins kallar á kröftug mótmæli og augnarúll þannig að bæði Bústýra og Eiginmaður hlaupa undir með skálar skyldu þau hreinlega detta úr augnatóftunum á þeim,  sé stungið uppá því að farið sé snemma að sofa. Hátta klukkan átta.

Þau gátu vitaskuld ekkert sofnað og ég fékk uppáskrifað vottorð um að ég væri í alveru besta mamman þegar ég svaraði því þannig að þau mættu horfa á hvað sem þau vildu þegar um það var spurt.

Þessi mynd er hinsvegar tekin núna í morgun eftir að ég rónaðist frammúr eftir enn eina vansvefta nótt (eða sko vansvefta eftir kl 3, en svaf alveg til 9:30), þá voru þau, öll nema smádýrið, búin að fara fram og kanna jólapakkana, stara á þá með undrunarsvip og velta hverjum og einum fyrir sér.. frávita af tilhlökkun. Er ekki bara dásamlegt að vera barn? Það finnst mér.

Þau fengu náttföt í sokkinn, voru geggjahh hress með það og ætla að hafa það súper gott í allan dag.

Það ætla ég líka að gera. Ég er að íhuga að hafa það þannig alla daga, ekki bara á aðfangadag.

Ég get varla beðið eftir að árið 2015 gangi svo í garð. Það þýðir að ég hef um það bil viku til að plana hversu betri ég ætla vera á því ári. Ég keypti mér meira að segja fleiri en eina línustrikaða bók til þess að finna útúr því.

Mottó ársins 2015 er samt dottið í hús og hér með upplýsist það: tilbúin, viðbúin , FRAMKVÆMA!

Gleðileg jól frá okkur öllum! Hjarta, knús, hjarta, hjarta.