Röð, hehe, pósta um geðveiki. Það er spennandi lestur. Þetta er nú mitt blogg og ég skrifa það sem mér sýnist hverju sinni. Það er allt í lagi.

Ég var að segja frá því að ég væri með fælni. Mér líður í alvöru eins og enginn hafi vitað hvernig mér leið. Ég sagði ekki neitt um það heldur hvernig mér leið. Ég er ekki reið útí neinn fyrir að hafa ekki vitað hvernig mér leið. Tilfinningin er eiginlega meira að ég er alveg rasandi hissa yfir því að ég hafi bara verið svona frá því að ég var yngir en 6 ára og þar til ég var yfir þrítugt… og er enn, ég er bara orðin meira fær í að lifa með þessu heldur en ég var.

Það er eiginlega lygilegt hvað getur verið í gangi inní höfðinu á fólki og enginn getur getið sér til um að það sé bókstaflega að sturlast innan í sér, á bak við augun og á bak við hjartað.

Ég man sérstaklega vel eftir því að hafa aldrei eiginlega viljað vera heima hjá mér. Það var ekki útaf því að það var eitthvað að heimilishaldinu, þvert á móti, við erum mjög vel upp aldar við systurnar og ást og kærleikur, það var ekki málið. Og engin læti á heimilinu eða drykkja eða neitt þannig.

Ég er hinsvegar andlega lasið barn. Best að vera úti, úti undir berum himni. Man vel eftir ótrúlega þungum og kvíðafullum skrefum heim, af ýktum ótta við að ég myndi ganga inní þær aðstæður sem ég bara hafði ekki getu til að höndla. Erfiður hjartsláttur inn Melhagann, fram hjá sundinu, fram hjá skrítna kjallaranum hinum megin, fram hjá hvíta grindverkinu og birkitrjánum við framgarðinn, kíkja innum eldhúsgluggann með hjartað í buxunum, rölta niður tröppurnar og opna inn í íbúðina og inní hvað?? Skanna með augunum hvern krók og kima og skanna fólkið líka, hvort það sjáist á einhverjum að það sé eitthvað að?

Geta bara sofið í einni en ekki annarri stellingu því annars mun eitthvað gerast.