Hér í sjónvarpinu eru þættir um andleg vandamál, þegar fólk er lasið á andlegu hliðinni. Núna er verið að tala um fólk sem hefur misst sér nákomið fólk sem ekki hafði það gott. Síðast var þáttur um börn sem eru kvíðin, óttaslegin og ómöguleg að mörgu leiti.

Það er að mörgu leiti erfitt að koma orðum að því að ég var sjúklega óttaslegið barn.  Og ég hef á tilfinningunni að enginn hafi vitað af því. Ég þekki hvert einasta orð sem sagt var. Ég skildi börnin í þættinum sem voru með galopin augu, sem lamaðar hendur og svo mikinn hjartslátt að liggur við að ætli upp um hálsinn og rifna út undan hökunni.

Ég var og er með fælni (phobia). Það skilgreinist sem stöðugur óraunhæfur ótti við ákveðinn hlut, aðstæður eða ákveðnar gerðir. Þú tekur eftir orðinu stöðugurSem barn var ég alltaf, hverja einustu mínútu, alla dagana, allar vikurnar, alla mánuðina og öll árin óttaslegin. Með hjartsláttinn og galopin augun. Reyndar ekki bara sem barn, líka sem unglingur og fullorðin manneskja.

Reyndar eru örfá ár síðan ég byrjaði að reyna að læra á þetta. Þá hafði ég farið til lækna, geðlækna, sálfræðinga og meira að segja presta. Ég fékk meira að segja taugaáfall og fór til að leita mér hjálpar á geðdeild í Reykjavík, en gekk þar eiginlega á vegg bara, manngreyið sem tók mig í viðtal hafði bara engin ráð, þ.e.a.s honum langaði ábyggilega að hjálpa mér, hann hljóp á eftir mér út, þar sem ég staulaðist hágrátandi, gat ekki hætt að gráta, og spurði hvort ég ætlaði ekki örugglega bara heim.. hvort ég ætlaði mér nokkuð að fara mér að voða. En sístemið hefur sennilega bara ekki verið með neinn lausna pakka fyrir fólk sem er í venjulegum fötum, ekki sturlað og ekki búið að pissa á sig og þarf ekki innlögn, heldur bara faglega ráðgjöf og umhyggju.

Ég veit alveg að það veit enginn af þessu, enda ber maður ekki svona á borð fyrir fólki. En það er kannski vitleysa.