Ok! Lets face it! Ég á ekki auðvelt með að sleppa tökunum á hlutunum. En ég er komin með svo óheyrilega mikið leið á eigin rödd að ég er alveg að fara yfir um. Ég gæti alveg hugsað mér að fara í klaustur og tala ekki fyrr en árið 2024 og þá bara við þannn sem ég vil og um það sem mig langar. Raddleiðinn kemur útaf því þegar ég er að ala upp og aga börnin. Eða ég tel mig vera að því.

Hvað ætli ég sé oft búin að segja :

  • Þvo hendur
  • Slökkva og loka á baðherberginu
  • Taktu til í herberginu
  • Lærðu heima
  • Nennirðu að taka hjálminn þinn og ganga frá
  • Nennirðu að hengja úlpuna þína upp
  • Nennirðu að ganga frá skónum þínum
  • Taktu úr vélinni
  • Ertu til í að hoppa útí búð fyrir mig
  • Geturðu aðeins tekið Bjútíbínu
  • Farðu í sturtu
  • Nú skalt þú fara í sturtu
  • Jæjahhh, nú er sturta
  • Slökkva á sjónvarpinu
  • Tölvutíminn er búinn
  • Tölvutíminn er búinn
  • Tölvutíminn er búinn
  • Klæddu þig vel
  • Lokaðu herberginu þínu (því Bjútíbína fer þangað inn og borðar allt petshoppið)
  • Ertu til í að taka úr þvottavélinni fyrir mig
  • Ryksugaðu herbergið þitt
  •  Þú gengur fáránlega illa um
  • Tannburstaðu á morgnana
  • Ekki tala svona við sistkyni þin
  • Taliði fallega við hvort annað

…OG svo lengi mætti telja. Ég veit í alvöru ekki hvað ég bið þau oft um að ganga frá fötunum sínum en það er sennilega svona 15 sinnum á klukkutíma. Þetta er náttúrulega ekki það eina sem ég segi við þau, ég segi líka fullt af jákvæðum hlutum við þau, það er bara ekki til umræðu hér og ég er ekki við það að rífa eigin raddbönd úr sambandi þegar ég segi þannig við þau.

Ég er bara svo hrædd um að ef ég hætti að biðja þau um að þvo sér um hendurnar að a) þau fari að bera hér inn allskonar veikindi og b) að ég megi þá taka fram fjárans tuskuna til að þrífa hér veggi og allt sem má koma við, s.s alla fleti íbúðarinnar og alla fleti alls sem er hér inni.

Og hvað ef ég hætti að biðja þau um að taka til í herberginu sínu? Þá mun sennilega gerast aftur það sem gerðist hér um árið, þegar ég fann 5 hálf étin, á mismunandi stigum rotnunar, epli þegar ég loksins tók frá tvo daga til að taka þar til. Í það skiptið fann ég líka 17 staka sokka, engan á gólfinu og á öðrum kasjúal stöðum, heldur hvert einasta stykki inní leikföngum, oní dótaveski eða tösku, neðst á botninum í dótakassa og einhver var á bak við bækurnar í bókahillunni. Hvað ef ég þyrfti enn einu sinni að nota tvo eða fleiri heila daga bara í að taka til í einu litlu barnaherbergi? H r o l l u r.

Hvað ef ég myndi aldrei biðja þau um að gera húsverk. Þau myndu á endanum ekki kunna rass og ég myndi þurfa að gera allt á heimilinu ein (þegar ég er ein heima, ég á blessunarlega ekki við heimilisverkaerfiðann mann að stríða). Það er algjör óþarfi þegar börn telja sig það fullorðin að mega ráða hvenær þau fara að sofa, vera með síma í höndunum allan daginn og ráða í hvað peningarnir fara að þau lyfti ekki litla fingri á heimili og eru fúl í hvert skipti sem beðið er (já, ég veit að ég var svona líka.. breytir ekki að þetta er fáránlegt). Síðan ætti að vera regla að þegar fólk er komið með hár undir hendurnar að það bara hjálpi nú aðeins til, helst áður en beðið er um það. Nóg er af verkefnum.

Nú ég gæti lengi áfram haldið. En eins og ég segi, þá er ég komin með svo mikið leið á þessari ræðu að ég hef langanir til þess að henda tölvunni, með þessum skrifum, útum gluggann, hlaupa svo niður og stappa á henni. Láta þar ekki kjurrt liggja og kveikja í henni á meðan ég öskra á bálið (þetta heitir að vera bálreið).

Útaf þessu öllu hef ég ákveðið að í dag mun ég segja já við öllu (nema það innihaldi eitthvað fáránlegt eins og ferð til tunglsins eða kröfu um að ég eyði peningum), ég mun ekki biðja þau um að gera nokkurn skapaðan hlut og mitt ábyrgðarsvæði í íbúðinni er allt nema barnaherbergin. Þau kunna reglurnar og ég þarf ekki að tyggja þær ofaní þau. Ég ætla ekki að segja hvenær á að slökkva á sjónvarpinu og ég ætla að segja þeim að þau megi ráða hvort eða hvenær þau fara í tölvu eða síma, þ.e ef þau spyrja. Ég setti ekki stopp á páskaeggja átið í gær og þau fengu öll ógeð.

Erum við ekki spennt hvernig til tekst? Óala börn í amk einn dag.  Enginn til að stjórna þeim. Mun heimurinn farast? Verður þetta lengsti föstudagurinn langi lengi?