Jú, það var sko ágætt fyrsta skóladaginn. Nú er ég orðin svo vön í að mæta eitthvert í fyrstaskiptið að ég varð ekkert stressuð þó mér hafi mistekist að fara á réttum stað úr strætó í morgun og horfur voru ekki aðrar en að ég kæmi of seint. Ég rétt skaust inn 1 mínútu yfir 9, það var í lagi því það var ekki byrjað að kenna, eða kynna frekar, dagurinn fór bara í að kynna námið og kynnast samnemendunum. Ekkert nema gott um þá að segja, nokkrir Íslendingar og eiginlega svo bara einn eða þrír frá mjög mörgum öðrum þjóðernum. Örugglega 10 þjóðerni, ef ekki fleiri. Það myndast að mínu mati strax mjög spes stemmning þegar það er saman komið svona margt fólk af mismunandi toga.
Fyrsta verkefnið er að gera hópkynningu og skal hún framberast á fimmtudaginn.
Fyrsta “busa” ferðin er um helgina en ég fer ekki. Mér finnst ekkert spes að fara “eitthvert” sem ekki stóð hvar var í kynningarbréfinu og vera þar með 60manns sem ég ekki þekki yfir heila helgi. Í kynningarbréfinu var lögð rík áhersla á það að þeir sem myndu reykja ættu að hafa það í huga að fyrirhuguð staðsetning væri ekki í návist við sjoppu eða búð.
Fyrst fórum við í kynnisleiki, þ.e við áttum að finna landa okkar og mynda hóp, raða okkur í aldursröð, raða okkur í stafrófsröð eftir fornafni og þannig.
Þá vorum við teymd í túr um skólabygginguna. Ekki svo stór bygging svo það var í lagi. Þarna á hver hópur sína stofu. Þarna er mötuneyti og þarna er líka herbergi sem kallast “chill out” eða “taka því rólega” herbergið. Þar inni er starfræktur Föstudagsbarinn. Hann er opinn frá 13 á föstudögum til 18 sama dag. Þar inni er lyktin eins og á Þinghúsinu sáluga (en endurlífgaða undir öðru og betra nafni) á laugardögum klukkan 7, þegar við vorum gjarnan að skúra með annaðhvort sand í augunum af þreytu því við höfðum ekki farið að sofa um nóttina eða við vorum með stýrur niður á kinnar því við rifum okkur upp til að fremja gólfþvotta fyri opnun í hádeginu. Sem sagt gömul og þung bjórlykt sem ekki er hægt að ná af.
Mér finnst náttúrulega merkilegt að það sé sérstakt drykkjuherbergi í skóla. Eða að það sé yfirleitt eitthvað um reykingar tekið fram í kynningarbréfi fyrstu busaferðarinnar. Sinn er siður í hverju landi mætti kannski segja.

Sindri er hér vakandi þó klukkan sé kvöld. Hann hefur tekið þvílíku ástfóstri við kínaskóna sína að hann neitar að fara úr þeim og sefur þessvegna í þeim. Er ekki merkilegt hvað hann getur verið sætur.
Gummi fór sem einhver agalegur sverðmaður í skólann í dag í tilefni af Fastelavn/Öskudagsskemmtun.
Sunneva fór sem Bratz stelpa á föstudaginn í sinn skóla af sama tilefni.
Rolan ég gleymdi að veifa myndavélinni svo ég neyðist eiginlega til að útnefna miðvikudaginn, sem er jú hinn rétti Öskudagur, sem búningadag hér heima svo ég geti tekið af þeim mynd og jafnvel sett Sindra í Íþróttaálfsbúninginn.

Bolludagur er vissulega í dag. Í gær gerði ég tilraun til bollubaksturs sem mistókst hrapalega. Í dag gerði ég aðra tilraun og sú tókst ekki betur… þessvegna er ég svo þakklát fyrir uppskriftabókina sem Pálína frænka mín sendi mér með Mömmu R þegar hún kom. Bókin er bæði flott og gagnleg, verst það er ekkert um bollur í henni og þessvegna neyddist ég til að nota bakarainnsæi mitt til að töfra fram bollu uppskrift, því miður hafði ég auðvitað týnt töfrasprotanum mínum og því fór sem fór. Ég man það náttúrulega núna að ég á bakara fyrir frænda. Þegar ég finn töfrasprotann aftur þá töfra ég hann hingað yfir til mín og sannfæri hann um að baka fyrir mig bollur. Svo töfra ég hann aftur til baka áður en Bóndinn kemur heim svo hann fari ekki að grenja enn eina ferðina yfir vonleysi mínu við eldavélarofninn.

Og þá fáum við gesti á fimmtudaginn. Þá koma Ása systir Þorvaldar og sonur hennar Hafsteinn. Þar með sannast enn og aftur kenning mín um að miðjubarnið sé öðruvísi í útliti en hin tvö, séu systkini amk þrjú. Ég var nú búin að kynna þessa kenningu mína fyrir einhverjum en hún er sú að elsta barn og yngstabarn eru líkari hvoru öðru og miðjubarnið er öðruvísi. Það sést einmitt ágætlega á þeim systkinum Ásu, Þorvaldi og Jóa Búbbabörnum. Ása og Jói eru há og mér finnst þau vera lík. Þorvaldur er hinsvegar ekki hár og miklu líkari Auðunnarstaðagenginu heldur en þau hin. Þetta má líka sjá á Gumma, Sunnevu og Sindra, strákarnir eru líkir en Sunneva öðruvísi og er oft á tíðum klárlega barnabarn afa Búbba.

Smá yfirlit yfir það nánasta:
Bergur Tómas, Gylfi og Guðjón
Brynjar, Otri og Hófý
Halldór, Þórarinn og Páll Ármann
Þóra Hlíf, Eydís Eir og Eygló
Fleiri?