Það var síðan bara ekkert mál að hafa sig í sund. Ég get alveg bitið hluti í mig og get alveg haft mig af stað s.s. Fór meira að segja líka þó svo að Bjútíbína hafi fengið mjög óvægt frekjukast (NOT) hér í morgun og seinkað mér um að minnstakosti klukkutíma.

Ef ég hefði verið löt þá hefði ég auðveldlega getað sagt, æhh.. ohh, ég “neyðist” til þess að hætta við því vinnan kallar. En eitthvað inní mér er að öskra á að ég hugsi um sjálfa mig fyrst og svo vinnuna. Nei, ég vann ekkert minna þó ég hafi mætt of seint í hana. Vegna þess að ég er yfirmaður minn þá ákvað ég að ég mætti vinna lengur í staðinn. Sem ég og gerði.

Að jólafríinu.

Strákarnir eru ekki of gamlir, og nú er ég meira að meina þann eldri, til þess að grandskoða pakkana. Verst að það sé ekki til jólagjafasónartæki, sem hægt væri að skanna innihaldið með. Það yrði auðvitað eins og venjulegt sónartæki, þú sér móta fyrir einhverju en það verður ekki raunverulegt fyrr en komið er í heiminn, eða pakkinn opnaður.

2015-12-21 15.38.25

Það var eiginlega hálf þægilegt að sjá þá gaufa með alla pakkana.

2015-12-24 11.04.34

Bjútíbínu fannst eins og hún sæi jafnvel ekki alveg nógu vel yfir. Sótti því kollinn sinn og vatt sér uppá hann til þess að greina betur hvort hún ætti að láta til skarar skríða eður ei. Hún gerði það ekki. Pakkarnir voru að týnast undir tré frá miðjum des og hún lét þá alveg vera þangað til á aðfangadagsmorgun, þá gall alltí einu í minni “lúlagevahh!” Hún byrjaði að kroppa í einn pakka en það var hvæst á hana með þvílíku offorsi, af mér, að hún hrökklaðist frá greyið og þorði varla að opna pakka um kvöldið.. djók, hún þorði alveg að opna um kvöldið, en hún kroppaði ekki í annan pakka án leyfis.

2015-12-24 18.00.40

Þau hafa alltaf verið mjög pen í spenningnum á aðfangadag. Enginn alveg rasandi spenntur, svo rasandi að það liggi við innlögn á geðsjúkrahús. En spennt voru þau samt. Fíflagangur eftir því.

2015-12-24 18.02.13

Þeir voru þokkalega virðulegir bræðurnir að skera í jólamatinn og gúffa hann í sig. Maturinn góður eins og alltaf. Verst hvað mér leiðist matur, ég hefði getað haft prins kex í jólamatinn og verið sátt. En þeir voru held ég glaðir meðetta.

2015-12-24 19.00.13

Þá tók við pakka opnunar ferlið. Fyrir mat varð uppi fótur og fit vegna þess að þau þrjú voru ekki sammála um hvernig pakka útdeilingin ætti að eiga sér stað. Á endanum þurfti að draga um aðferð. Ég man ekki hvað það var, margir þessara daga eru í móðu. Eitthvað um að hver og einn myndi sækja sér pakka undir tréð og opna, en svo fór þetta held ég bara af sjálfu sér í gamla farið. Allt varð þó opnað, ekki stóð á því. Bína fékk dúkku, hún heitir Gagga eins og hin dúkkan. Það er búið að klæða hana mikið og fara mikið með hana í bað.

2015-12-24 19.05.34

Eitthvað var um tæknilegó…

2015-12-24 19.43.01

..og Bína fékk sæng. Einhver, klárlega ekki ég *hóst* var bara ekkert að spá í því að barnið þyrfti annað en ungbarnasæng þó væri að nálgast 3 ára (í sumar).. tók alltí einu eftir því að ungbarna sængin náði víst bara niður á hné..
2015-12-25 11.36.45

Jóladagsbröns.

2015-12-25 11.36.56

Virðulegu bræðurnir enn virðulegri daginn eftir. Held að allir hafi sofið vel.

2015-12-25 14.27.53

Þetta er það sem jóladagur hefur snúist um langflest jólin síðan krakkarnir komu til. Legó hér, legó þar, LEGÓ ALLSTAÐAR!

2015-12-25 19.20.25

Fagri fékk drónaflugvél í jólagjöf. Ekki lítið glaður. Þarna er verið að æfa flugtak og lendingu. Litli skugginn aldrei langt undan að gera eins og minni stóri bróðir sinn.
2015-12-26 10.38.46

Og þá var klárlega komið að því að viðra eitthvað af mannskapnum. Maður lifandi hvílík maraþon innivera og endalaust letilíf. Mikið til þoli ég ekki svoleiðis og fannst ég knúin til að fara út, líka þó það væri helli, helli demba.2015-12-26 10.56.42

Reyna að vera táknræn í myndatöku..

2015-12-26 11.12.21

Svo alltí einu tók ég eftir að það var búið að setja þetta upp í eitt blómabeðið á leiksvæðinu úti. Þetta hefur eitthvað að gera með skordýr, spennt að sjá þá í sumar hvað verður með þetta. En veit ekki ennþá hvernig þetta virkar eða eiginlega afhverju þetta er þarna.2015-12-26 12.29.16

Í öðrum garði sem ég hjólaði framhjá fyrir skemmstu hengu ennþá öll eplin á.. talandi um að geta ekki sleppt tökunum…2015-12-29 13.41.02

Eiginmanninum var boðið í kaffiboð. Hann fékk rótsterkt kaffi og réð ekkert við sig eftir það. Óafvitandi stofnaði hann til fíflagangs sem virtist byrja vel:

2015-12-30 17.19.40

Allir frekar kátir og ljúfir. Eftir þónokkrar stympingar þótti honum þó nóg um enda komnir fleiri í partýið heldur en hann reiknaði með, hann hafði líka gleymt að gestirnir voru nánast allir orðnir mikið stærri og sterkari en síðast þegar stofnað var til fíflagangs:

2015-12-30 17.18.48

Ekki leið á löngu þar til Eiginmaðurinn var yfirbugaður af lýðnum. Ég hef bara ekki séð hann síðan…

2015-12-30 17.18.55

Ætli hann sé ennþá undir rúmi?

2016-01-03 10.38.49

Í tilefni af því að við fengum gesti á laugardaginn síðasta, alla leið frá Svíþjóð, ákvað ég að það væri huggulegt að hafa blómstur á borðum. Mikið lifandis ósköp sem blóm geta ýtt undir að dagurinn sé betri. Ætti ég að hafa blóm allataf? Það passaði líka bara svo vel við að hafa blóm því Fagri átti síðan afmæli í gær.
2016-01-04 06.55.30

Hann er hvorki meira né minna en 10 ára orðinn. Stórafmæli.2016-01-04 07.00.29

Það er auðvitað merkilegt að eiga afmæli svona stuttu eftir jól. Sennilega ekki eins mikill spenningur fyrir að fá pakka. Spenntur samt alveg náttúrulega en það er bara svo nýbúið að opna helling af pökkum skilurðu mig. Eins og venja er á Félagsbúinu vöknuðum við elstu langt fyrir allar aldir (líka þó smábarnið hafi haldið fyrir okkur vöku..urrrr) til þess að undirbúa það sem ég vil kalla súkkulaði morgunmat. Nútella ofaná brauð og kakó í glasi.. sulta, ostur og smjör á ristað brauð. Allt auðvitað í tilefni af því að það var afmæli.

2016-01-04 07.00.35

Fröken árrisul og herra geturekkivaknaðámorgnana skófla í sig.

2016-01-04 07.00.39

Bjútíbínu fannst síðan alveg merkilegt að hún fengi ekki neinar jólagjafir í þetta skiptið. Fór að skæla og allt. Fannst helst til eins og hún væri að missa af einhverju.

2016-01-05 09.37.28

Þetta var móttakan þegar ég kom útúr sundlauginn í morgun. Ég held reyndar að þetta hafi verið horfið þegar ég kom heim 10 mínútum síðar og það er ekkert á jörðinni núna, en MEN Ó MEN hvað er ótrúlega kalt. Veður kallar á snjóbuxur, tvöfalda vettlinga, þykkari húfuna og tvær peysur… og loðfóðraða úlpu. Nei, ég hafði ekki ætlað að láta mér verða kalt, ein af þeim tilfinningum sem ég á afar erfitt með, enda sannfærð um að ég hafi upphaflega átt að vera í heitu landi en ekki köldu.