Þá hef ég búið til nýja síðu fyrir vort kongelige Félagsbú. Ég get varla verið að læra margmiðlunarhönnun og ekki reynt að gera síðu fyrir mig sjálfa. Þessi er að vísu ekki gerð af mér frá grunni því ég nota “ready made” kerfi til að halda utan um textann og myndirnar. Skiptir ekki máli, síðan er kúl fyrir það. Síðan ef framtíðin leyfir þá ætla ég að setja hér inn mynda albúm og sitthvað fleira. Ekki veit ég hvað ég geri svo við allar gömlu greinarnar af hinni síðunni, þætti nú leiðinlegt að tapa þeim.. annað hvort prenta ég þær út og gef út bók eða færi þær á þessa síðu. Enn annað þá ætla ég, einnig ef framtíðin leyfir að búa til alvöru pró mó só síðu sem mun kynna mína megagóðu margmiðlunarhönnun. Ég get alveg sagt þetta því enginn getur í rauninni sagt almennilega hvað margmiðlunarhönnun er..hehe, ég gæti allt eins verið að fara að bjóða fram símaþjónustu af einhverju tagi..þar sem margir tala í einu = margmiðlun..jæjahh..

Af okkur er jú fínt að frétta. Hér ríkir, eða amk í mér, einhver furðu stemmning. Hafiði ekki upplifað að hlakka til einhvers og kvíða því í bland og vita ekki nákvæmlega hvað það er? Þannig líður mér núna.(smellið á “read more” hér aðeins fyrir neðan til að lesa alla færsluna)

Veturinn nálgast maður finnur það. Hendurnar mínar eru aftur orðnar verri en á gamalli kellingu. Þær eru eiginlega eins og roð á harðfiski, krumpaðar og þurrar. Það er líka töluvert kaldara hér á morgnana en hefur verið, eðlilega kannski, en fyrr má nú fjandans vera. Ég er ekkert hrifin af kulda, mér leið mikið betur þegar ég þurfti að rífa mig úr öllum fötunum í sumar og gat bara verið á bikiníinu eða brókinni af hita. Bóndanum finnst þetta hins vegar æðislegt, enda held ég að hann hafi aldrei átt úlpu í lífinu.

Það er uppskera að sjálfsögðu. Hér eru tveir tómatar af tómatatrjánum. Ég get bara ekki tekið mynd af gróðrinum í Gróðrarstöðinni, hann er bara í orðsins fyllstu merkingu arfaljótur og illa hirtur. En tómatarnir voru bara ágætir. Ég verð að gera aðra tilraun með graskerið trúi ég, það er amk ekkert á, það eru bara blóm en ekkert grasker.

Var ég búin að þusa yfir því hvað mér þætti geðveikislegt hvað það er mikið að gerast alltaf í skólunum hjá vorum börnum? Síðasta fimmtudag var hyggeaften í bekknum hennar Sunnevu. Þá gerðu allir einn rétt á matarborðið og svo átu allir frá öllum. En áður en það var gert var allt stóðið rekið útí port í svokallað andsigts löb. Já…ég er svooo fegin að Sindri rauk í burtu og ég þurfti að elta hann því þeir foreldrar sem fóru í hlaupið vissu örugglega ekki að það voru fjórir hringir sem þurfti að hlaupa = auga, auga, nef og munnur. Þ.e það var teiknað auga á hendina eftir hringinn og svo koll af kolli. Á myndinni er Sunneva nýbúin að fá eitt eða tvö augu og eitthvað foreldrið sem sennilega liggur í harðsperrum í dag er að láta krota á sig. Sú ljóshærða er kennarinn hennar Sunnu. Hún kom einmitt til okkar og spurði hvað við hétum í eftirnafn. Ég sagði að Sunna væri Þorvaldsdóttir, eymingja kennarinn getur ekki borið það fram og segir Sunnu alltaf verða svo súra við sig ef hún segir það vitlaust. Skapið ..

Og beint eftir huggulega bekkjarkvöldið var okkur Albísi boðið á foreldrafund í 1.x. Þar vorum við eins og geimverur frá Mars. Á dagskránni var að ræða hversdaginn í skólanum hjá strákunum, ég held að það sé allt svona venjulegt bara miðað við ..það sem venjulegt er. En svo kom umræðan að einhverju ferðalagi sem liðið vill fara í yfir helgi í október!!!…YFIR HELGI??? Er þetta lið ruglað segi ég nú bara. Það ræðir um að fara í tómt hús sem ein mamman á, ég heyrði ekki hvar og nú er verið að ræða um rútuferð þangað. Ég veit það ekki..hvað ef ég kemst ekki eða langar ekki að fara? Hvað ef ég nenni ekki að fara með alla fjölskylduna í helgarferð til Hverveithvert með fólki sem heldur að ég sé frá Mars?? Getur einhver skilið að mér er ekki skemmt yfir þessu? Ég vill síðan náttúrulega ekki að Gummi verði undan því að fara í ferð..mikið er ég fegin að Hrafn sé í sama bekk, við getum þá farið með spilin með okkur og haldið áfram vorri keppni í Kana, ég er lægst enn sem komið er, bíðið bara.