Núna hef ég rekið Félagsbúið í nær 10 ár. Reyndar hófst minn heimilis rekstur 6 árum áður en ég stofnaði Félagsbúið. Ég rak allskonar bú í allskonar útgáfum. Ég held, útfrá reynslu minni við heimilisrekstur, að það ætti að vera til áfangi í grunnskóla sem héti HER (HEimilis Rekstur)  103 og upp í 803. Það hefði ábyggilega sparað mér fullt af áhyggjum yfir öllum fjármála mistökunum sem ég hef gert.

Það er nefnilega þannig að í gegnum allan þennan tíma sem ég hef verið í sjálfstæðum rekstri, þá núna 16 ár, þá hefur fylgt mér óþolandi, en algengur draugur að nafni Peningavandræði.

Ef það væri ekki fyrir það að ég á góða að og að ég hef verið fáránlega vinnusöm, þá væri ég löngu dauð úr eigin aumingjaskap. Ég hef alltaf haft allt til alls, ég hef aldrei upplifað að hafa ekkert, amk ekki fram til ársins 2010. Ég vissi bara ekki að ég hafði það gott.

Í hinni svokölluðu kreppu höfum við á Félagsbúinu ekki farið varhluta (hva, voðalega er ég formleg í orðavali í dag) af því að hér er ekki mikið um pening. Hér er ekki lengur hægt að kaupa sér slatta af fötum í hverjum mánuði, fara í klipp og lit þegar þarf, fara með börn í klippingu þegar þarf, skreppa til Íslands 2 á ári eða oftar, kaupa gsm síma og tölvur eins og enginn væri morgundagurinn eða eyða kæruleysislega í eitt og annað sem engan skiptir máli þegar upp er staðið.

Nei, hér á Félagsbúinu getum við varla fengið af okkur að kaupa strætómiða því það kostar formúgu. Ég er svo heppin að eiga fullan fataskáp og að ég hef engu á mig bætt svo ég get notað fötin sem ég hef keypt hörðum höndum síðustu árin. Ég fer vel með símann minn og myndavélin mín er orðin eitt af merkilegustu hlutunum sem ég á, ég tek ótrúúúlega mikið af myndum. Margar á dag. Ég þygg með þökkum þegar fólk gefur mér föt af sínum börnum, það er hreinn fjársjóður. Með öðrum orðum, ég kann að meta það sem ég á, það er ekki lengur bara eitthvað drasl.

Það er stundum heartbreaking að kíkja inn  í fataskápinn hjá börnunum og finna að maður getur ekki keypt á þau nærbuxur fyrr en einhverntíma seinna. Maður getur ekki sagt já við að fara í tívolí eða dýragarð eða bíóferð. Núna er aðal markmiðið að eiga eitthvað að borða í öll mál,  alla dagana í öllum mánuðum á árinu.

Það er ekki lengur þannig hjá okkur, sem byrjuðum bara tvö og urðum síðan fimm, að það sé nóg að kaupa einn hálfskílóa bakka af hakki og segja, þarna er kvöldmaturinn og jafnvel afgangur fyrir næsta dag kominn. Nei, nú er öldin önnur og Félagsbúið stendur frammi fyrir að fæða, því sem jafngildir, 5 fullorðnum manneskjum. Einni konu (mér) og fjórum körlum (þau hin). Einn gæti hugsað..ö, þið eruðu með 3 börn. Það er rétt, en öll börnin eru stór og hraust og borða eftir því. Ég segi það og skrifa, 1kg af hakki og meððí er bara rétt oní okkur. Heill kjúklingur dugar ekki og 2kg læri dugar kannski í hádegissnarlið daginn eftir.

Ég eyddi rosalegum tíma í að hugsa um þetta í desember. Ég er staðráðin í að lenda ekki í því aftur, eins og ég lenti í hér í haust að ég átti ekki eina krónu (án djóks) í heila viku og þurfti að töfra fram úr skápunum bara eitthvað og láta sem ekkert væri fyrir framan börnin sem stóðu þarna, alveg jafn heimtufrek og ég, og góluðu MEIRA MEIRA, NAMMI, NAMMI.

Til að þagga strax niður í þeim sem hugsa núna: “svona var þetta nú líka hjá ömmu þinni og afa, hvað ert ÞÚ að væla?”, “það eru marrrgir sem hafa það mikið verra en þú” og “ég fer hjá mér að lesa þetta væl” þá segi ég, þetta er mín saga. Ég hef aldrei áður upplifað að hafa ekkert milli handanna. Það kemur mér að engu gagni að forverar mínir hafi líka haft ekkert. Ég ber hinsvegar fulla virðingu fyrir þeim sem hafa haft ekkert eða mjög lítið en samt komið öllum börnunum sínum frábærlega vel til manns.

Fylltir kúrbítar á leiðinni inní ofn, ÝKT góðir, mmm

Ég hugsaði ekki bara um fjárhaginn heldur líka um hvað við höfum verið að láta ofan í okkur. Mér hefur nýlega verið gert ljóst að Ég er ekki bara líkami minn.. þ.e Ég næ óendanlega mikið lengra heldur en ysta lag húð minnar. Mér ber að fara vel með þennan líkama og kenna grísunum sem ég dúndraði í þennan heim, það líka. (Ég er með ógeðslegt samviskubit að vera að skrifa þetta og vera með kremið af gulrótarkökunni klínt útá kinn..haha, iss, ég er ekki að halda ræðu um að ég sé fullkomin).

Þannig að ég eyddi fleiri klukkutímum í að skoða eldhúsbækur, þær sem ég hef haft ofnæmi fyrir hingað til. Þar valdi ég og merkti við með þar tilgerðum límmiðum alla þá rétti sem ég (og aftur..þetta snýst allt um mig í minni veröld) vildi prófa. Ég henti hræðslunni við að öll afkvæmin myndu baula OOOOOJJJJ, við öllu sem ég eldaði og setti nýja reglu á heimilið, það er bannað að segja oj við mat.

Þá bjó ég til excel skjal við hliðina á fjárhags excelskjalinu mínu (sem núna er búið að vera til í 2 ár) sem inniheldur dagana í mánuðinum og innkaupalista. Þar hef ég sett inn hvað á að vera í kvöldmat á virkum dögum og hádegis og kvöldmat um helgar. Fyrir heilan mánuð. Svo skráði ég niður allt sem hægt er að kaupa af því sem þarf í þetta, sem dugar út mánuðinn og fór og verslaði það allt í einu. Ég þarf ekkert að taka fram að ég svitnaði verulega á meðan. Svo skráði ég niður allt sem dugar bara í viku og keypti með mánaðar innkaupunum fyrir fyrstu vikuna og fer síðan á mánudögum og versla það sem vantar uppá fyrir vikuna.

Þetta hefur gengið ljómandi vel. Ekki bara veit ég að það er til nóg af mat, heldur er hér í flestum tilfellum allskonar nýmeti á borðinu, sem smakkast vel. Það er ekki alltaf kjöt, fiskur eða fugl í matinn og það er frábært.

Búnglingnum kennd handtökin í eldhúsinu.

Ég er þakklát fyrir að eiga mat í húsinu. Það er öllu/m öðru/m að þakka að ég get borðað.