Ef þið rýnið þá getiði séð að ég hef tekið mynd yfir garðinn og í íbúðina á móti. Mér ofbauð svo, eða öfundaði, ekki veit ég hvort, stærðin á sjónvarpinu þeirra að ég neyddist til að klæða mig í svartan samfesting, setja á mig hettu með aðeins götum fyrir augu og nef…klifra kattliðug uppí gluggakistu og leynast bakvið gardínurnar og fleygja mér svo fram, rétt eins og ég væri minn eigins skuggi, og smella af í loftinu… já seisei.  Ástæðan að ég klæddi mig í þennan búning og framkvæmdi þennan rokkna gjörning með myndavélina er auðvitað að þau sjá alveg jafn vel hingað yfir og við til þeirra. Maður má passa sig sko.

Var ég ekki síðan búin að minnast á að það eru tvö karlmannspör á móti, ekki uppi í pent hásinu eins og við sem erum kúl búum í heldur í  míní íbúðunum fyrir neðan. Karlmannspörin eru meira en vinir… það höfum við jú séð en þær þreifingar og slef smökkun standa ekki það lengi að ég nái að fara í búninginn sem ég er svo kattliðug í til þess að getað smellt af þeim svosem einni mynd í action. Og sérlega annað karlaparið er mjög frjálslegt og það er jú yndislegt. Þeir hafa samt greinilega ekki kvenmann til að þið vitið, gera það sem kvenmenn gera best, sem er að henda upp gardínum og þessháttar því þeir hafa sett sængurver skakkt á einhvern stangarræfil í svefnherberginu. Íbúðin þeirra er aðeins fyrir neðan sjónlínu hjá okkur, enda eru þeir á 3.hæð og við á 5. hæð. Í svefnherberginu skipta þeir um nærbuxur eins og við hin, það sem þeir vita hinsvegar ekki er að í fyrstalagi þá er sængurverið ekki alveg fyrir öllum glugganum (örugglega því verið liggur bara einhvernveginn á stönginni) og í öðrulagi þá er spegill á miðjuhurð fataskáps þeirra og mamma mía… segjum bara að ég hafi séð óþarflega mikið af …. verkfærum þeirra.

Hér hafa auðvitað öngvar rassasýningar verið.

En hér hefur rignt…

Og svo urðu Litla Typpi og Glókollur veikir. Glókollur (já nýtt nafn, hann er jú eini sem er með ljóst hár í þessari fjölskyldu) átti meira bágt en flestir sem bágt  hafa átt bara síðan fyrir krist held ég. Ekki bætti úr skák þegar kom í ljós að Litla Typpi var orðinn steikjandi heitur, þá varð Glói eiginlega hálfu verri. Svo varða um einhverja nóttina að LT gat ekki sofið, örugglega því hann var jú alveg að steikna, að hann rauk fram úr rúminu og æddi fram í hurð á svefnherberginu. Eyminginn hefur örugglega vaknað þar því þá fór hann að háorga og jarmaði af hræðslu. Ég rauk að sjálfsögðu til og fullvissaði hann um að ég væri þarna og þá væri nú ekkert að óttast (ó, hve stutt það nær…) hann hætti jú að vola en innan úr herbergi barst skyndilega….aaaááá….uuuuuáááá… Já, Glóa varð ekki um sel þegar hann var ekki lengur sá eini sem fékk alla veikinda athyglina.

Honum þykir nú væntum um  þann litla samt og klappaði honum og knústi. Og eins og sjá má voru þeir alvöru kjúklingar, með glös á víð og dreif með djús og röri í og fengu hvað sem þeir vildu að borða og borðuðu það hvar sem þeir vildu.

Þrátt fyrir að vera í yfir 40 stiga steik þá staulaðist hann framúr að máta afmælisgjöfina sem hann fékk senda frá ömmu R og var hinn ánægðasti.

Sunneva var hress að vanda á meðan bræðurnir lágu eins og skötur í sófanum.

Og ég fór í H&M að kaupa nærbuxur á Sindra því hann er hættur með bleiu, gerði það bara sjálfur, við stóðum bara ekkert í að koppa/klósettvenja. S.s fann þennan frábæra náttgalla. Sumum finnst kannski ekki að maður eigi að troða svona stórum börnum í náttfatasamfesting en hann er bara svo mikil rúsína í þessu að ég meira segja horfi framhjá því að það er jógúrt í gallanum..hehe, það geri ég aldrei við hin náttfötin. Það eru meira að segja svona broddar á bakinu á gallanum,svo hann er alveg eins og lítil risaeðla.

Veikindin hafa auðvitað rjátlast af þeim, Glói fór í skólann á fimmtudaginn en Sindri fer ekki fyrr en á morgun. Þeim þykir vænt um hvert annað börnunum.

Og því krafturinn er núna aftur kominn upp í 100% þá var hér byggt hús..eða hytte eins og þau nefna það. Þýðir kofi eða lítill bústaður. (hver væri ekki til í svoleiðis með heitum potti???) Já, s.s þau fengu að taka fram öll teppi heimilisins, alla púða og alla stóla með því skilyrði að það yrði gengið frá, já og ekki bara það heldur gengið frá án þess að fara í fýlu og um leið og yfirvaldið (ég) myndi nefna það. Ekkert, smaaaaááá stund í veeeðbót..baaaara eina mínútu..ég LOFA.. við eigum eftir að sjá hvernig það endar.

Og auðvitað er eldabuskan að elda í hyttunni.  Hún fór í afmæli í dag, mjög sæl með það. Kom heim með nammi í poka, fána (reyndar án prikanna) og blöðru. Bræðurnir átu nammið og sprengdu blöðruna. Bíði þeir bara segi ég…stelpan er ótrúlega sterk. Ekki var verra að afmælið var haldið í svona leikjalandi þar sem foreldrar og forráðamenn geta gleymt börnum sínum meðan það verslar í Fields og það var boltaland og maður gat alveg grafið sig oní þá..sagði hún.

Hytturáðandinn sem var ekki í stuði til að hleypa neinum þar inn. Honum fannst ég ekki fyndin með að vera að taka svona myndir.

Héðan er síðan allt venjulegt að frétta. Ég á að byrja í skólanum í þar næstu viku og svo kem ég líka aðeins heim til Íslands í þar næstu viku. Þorvaldur er að byrja að gera prófverkefni og Gummi er svo að segja farinn að lesa. Sunneva glöggvar sig á stöfum hægri vinstri og hefur lært utan að margt af því sem stendur í lestrar vinnubókinni hennar, eða ég þykist vita það, þar sem hún er ekki enn læs. Sindri, eða Sindgggri eins og hann heitir opinbert er sprækur fyrir utan ólempuna í síðustu viku. Hann er s.s hættur með bleiu og næst á dagskrá er að snuðið fái að fjúka. Við sjáum nú til hvernig það fer.