Ég er búin að breytast í einhverskonar frystisnilling. Alveg þar til núna hef ég ekki verið neitt sniðug í að frysta, en ég get lengi á mig blómum bætt.

Ég veit nú ekki hvað veldur, upplýsingaleysi líklega, en mér datt ekki einusinni í hug að búa til ávaxamauk (annað en stappaðan banana) handa eldri þremur þegar þau voru á barnamat, sjálf. Ég bara vissi hreinlega ekki að það væri hægt að gufusjóða ávexti og mauka þá. Ég átti samt alveg matvinnsluvél í mörg ár. Hún hefur bara mjög nýlega gefið upp öndina.

Ég sauð líka alltaf kartöflur og gulrætur og þannig oní börnin bara þegar það átti að éta þetta og stappaði. Það var ekki alltaf heppileg áferð á soðinni stappaðri gulrót. Ég, aftur, vissi bara ekki að það væri betra að gufusjóða allt draslið (til þess að vernda næringuna) og mauka síðan.

Við vorum hér í framleiðslu um daginn á barnamat. Suðum, maukuðum, fyrstum og pökkuðum. Gerðum kartöflur, gulrætur, brokkólí, eitthvað fleira og svo epla og perumauk. Allt heppnaðist vel, nema kartöflurnar sem af einhverjum ástæðum breyttust í tyggjó og eftir að ég tók úr frosti voru bara orðnar kartöflur aftur, en ekki mauk.

Nú, galdurinn við þetta er að setja þetta í klakabox og  frysta en taka svo úr klakaboxinu og setja í poka. Ég þvaðraði um það um daginn að ég væri hætt að kaupa frosin ber úr búð vegna smithættu á öllum fjandanum og væri að kaupa fersk ber og frysta þau sjálf. Það geri ég enn og hef bæt við spínati. Bæði ber og spínat kemur stundum í svo asnalega stórum pakkningum og hefur arfa stuttan líftíma í poka þannig að þarna má klárlega spara sér smá. Þarna er maður líka að fá sko kuldann í þeytidrykkinn.

IMG_1278

Brot af matnum hennar Bjútíbínu. Loksins, L O K S I N S fékk ég tækifæri til að nota klakaboxin sem ég hef svo margsinnis keypt í IKEA, sem eru með allskonar formum. Þarna var ég búin að frysta í kögglum það sem hún á síðan að borða og setti svo í poka.

Ekki stoppa ég þarna við. Ég er viss um að ég eigi eftir að taka uppá því að frysta allt. Ég vil ekki hafa kúamjólk í smúþíunum mínum. Það er ekkert útaf neinu sérstöku, bara vil það ekki. Vil heldur hafa heimagerða möndlumjólk. Hana hef ég oft gert og það er ekkert mál, meira að segja þó ég eigi ekki neinn spírupoka*.  Hinsvegar hefur mér alls ekki alltaf tekist að klára skammtinn. Nú frysta! Hellti bara möndlumjólkinni beint í klakapoka og tók þá síðan úr þegar þeir voru frosnir og setti í aðra poka sem þægilegt er að ná í nokkra klaka úr í senn. O ég er svo sniðug.

 

*Ég get varla að það sé sett þannig upp í bókum og uppskriftum almennt að það sé eiginlega ekki hægt að framkvæma nema hafa búnað eða hráefni af sérstöku merki. Það finnst mér bara vera auglýsingalegt ofbeldi.