Fyrst ber mér að nefna, í þessu væntanlega flutningsuppgjöri, að ég og við reyndar bæði erum stórlega kát yfir allri hjálpinni sem við höfum fengið, bæði í sjálfum flutningnum og líka eftir flutninginn. Líka í bílleysinu, sem er reyndar ekki á enda, ég held áfram að bíða og vona að vor bíll komi til okkar aftur.

NÚMM.. hér í Ásgarði er allt að koma saman. Við máluðum miðhæðina sem samanstendur af forstofu, eldhúsi og stofu. Eða við máluðum.. ég gerði svosem ekki mikið af því heldur faðir minn og eiginmaður sáu um að sveibbla málningu hér uppum alla veggi. Það er samt fyrst í dag, 25 dögum eftir flutning að  það er ekki pappakassi á gólfinu með einhverju ófrágengnu dóti, hér á miðhæðinni þá, þar sem skrifstofan mín er og ég sit nú. Þetta byrjaði sirka svona í öllum herbergjum:

Örverpið fagra stendur þarna í miðri hrúgunni, þarna erum við samt búin að flytja allt dótið inn uppum allt hús og færa það tvo hringi á milli herbergja. Svo óákveðið hvernig allt gat verið og líka á meðan við vorum að mála.

Til að mynda var eldhúsborðið innan í kassavirki í nokkra daga meðan við reyndum að komast yfir að sletta málningu á eldhúsið. Taka þurfti klofvega skref alla leið úr eldhúsi og inní stofu yfir alla þá þúsund kassa sem lágu um víð og dreif.

Og eldað og vaskað upp einhvernveginn í kringum þessa frábæru stóla.

Svo tókum við okkur nú upp á rassgatinu og dúndruðum úr nokkrum kössum. Allt að gerast. Við skulum samt athuga að meðan þú kannt að halda að þett eigi nú ekki að vera svona mikið mál, þ.e að ganga frá dótinu sínu í hillur og hyrlsur þá er það öðruvísi þegar það eru alltaf fimm manns í röð við hverja hreyfingu. Útskýri betur. Alltaf þegar ég greip í kassa og var í djúpum íhugunum og pælingum um hvað það væri best að gera með innihaldið voru á eftir mér fjórir, sem höfðu allir sitthvað að segja um hvar umrætt dótarí ætti að vera geymt sem og eltu mig hvert einasta skref. Ég hafði fjórfaldan skugga með ákveðnar skoðanir.  Það mætti líka halda að þetta væri þá á réttri leið af þessari mynd að dæma.  En þá gerðist þetta (mynd tekin nánast í sama sjónarhorni inní stofu):

Það hafði nefnilega komið í ljós að upphaflegt plan okkar um að við myndum búa til risastóra og ljósrauða kynlífsdyngju í kjallaranum þar sem við  myndum æfa barneignaleikfimi af kappi gekk ekki upp þar sem eitt af aðalatriðunum til iðjunnar kæmist ekki niður stigann. Nú er ég ekki að tala um að Eiginmaðurinn nýji sé svo stór um sig að hann komist ekki niður þröngar kjallartröppurnar heldur fleti vort sem leikfimin átti að eiga sér stað á (æ, ég nenni ekkert að halda uppi þeirri ímynd að það sé gott að stunda barneignaleikfimi annarsstaðar en bara í rúminu sínu) kemst ekki.

Við þurftum þessvegna að gera erfiðar breytingar. Erfiðar útaf því að við höfum verið í stofunni með leikfimisvæðið lengi, lengi og þessvegna farin að hlakka til að vera hvorki með smábörn að vakna á mínútufresti eitt af öðru né heldur fyrir opnum tjöldum í stofunni. Auðvitað ganga afleiðingar barneignaleikfimiæfinga okkar fyrir  og við gáfum dyngjuna frá okkur (með tár á hvarmi) fyrir leik og dótaherbergi fyrir ráðríku afkvæmin þrjú og neyðumst nú til að sofa í herbergi sem er aðeins of lítið fyrir risastóran skeiðvöllinn því við náum ekki að loka hurðinni. Okkur er samt alveg sama.

Þetta skapaði samt vandamál númer tvö en það er að til að byrja með þurfa einhverjir tveir að sofa saman í herbergi, það verða að þessu sinni Sprengjan og Örverpið. Og til þess að gera langa sögu enn lengri þá þurftum við að finna eitthvað sniðugt til þess að  nýta plássið í þessum herbergjum. Ég fór því á veiðar á Barnalandi og fann þessi líka fínu skrifborð en eitt af þeim er þannig að það er rúm uppi og skrifborð og skápur undir.

Þetta er samt allt að smella saman, næstum því fullkomið á miðhæðinni.

Annað er með þetta ágæta húsnæði, en það er hvað það var óheyrilega skítugt þegar við komum hingað. Við höfðum að vísu dílað við fyrrverandi íbúa að þrífa ekki í staðinn fyrir að lofa okkur inn á sunnudegi í staðinn fyrir mánudegi. En mér sýnist 3 cm þykk, brunnin olía og fita og ..ég eiginlega veit ekki og hvað, allskonar matur bara næstum orðinn að olíu sem hefði mátt bora fyrir,  í ofninum bera þess merki um að það hafi máske ekkert verið þrifið síðan bara í nam. Það er alveg eðlilegt að ég finni mig knúna til þess að festa þennan ófögnuð á filmu. Enda var ég á þessum tímapunkti búin að skrúbba kattahár föst í matarfitunni sem hafði slettst (hvernig stafast þetta..) á hvítmálaðar flísarnar fyrir aftan eldavélina, þrífa baðherbergi með sköfu og skrapa kattaskít af veggjunum á leiðinni niður í kjallara. Ég er mjög ánægð með nýmálaða og hreina veggi á miðhæðinni, hlakka til þegar allt verður málað og búið að gera við það sem þarf að gera við niðri svo við getum farið að nýta kjallarann.

Hér er samt miki líf og fjör! Lýðurinn rauk út um daginn þegar lyktaði aðeins af vori og dreif sig í garðrækt og mosa upptöku.

En svo kom auðvitað snjór aftur, en þá fóru þau bara í svarta ruslapoka og renndu sér í brekkunni sem er hér fyrir utan, sem og átu lummur í kuldanum. Mér líst bara vel á það.