Geggjað gaman að prjóna þetta sjal. Eins og mér finnst nú hálf leim að heil lopapeysa sé bara hálft kíló af garni, svona miðað við allt sem ég á eftir að prjóna úr, þá finnst mér eiginlega enn fúlara að þetta sjal er bara 180 grömm! En samt.. 1050gr urðu að 870gr, endurtaka það 4 sinnum og ég hef 4 eins sjöl og eitt lítið. Það hljómar einhvernveginn meira yfirstíganlegt heldur en 870 grömm.

Mega flottir litir líka. Svo hresst eitthvað.

Dagatalið mitt segir að það séu bara tvær vikur þangað til ég þarf að vera búin að pakka. Er ennþá bara búin að pakka í 20 kassa, flestir af þeim niðri í geymslu, allt er annars ekki í neinum kassa. Gamalkunnugt ástand er samt að dúkka hér upp, það er ástand sem lýsir sér helst svona:

  • Þú hættir að nenna að taka almennilega til.. andlegur undirbúningur fyrir massíva sorteríngu er hafinn og þér finnst ekki taka því að ganga frá neinu
  • Um leið og þú hættir að nenna að taka almennilega til ferðu að hugsa ótrúlega mikið um að byggja ekki upp þvottafjöll – þú vilt ekki að óhreinatauið sé fullt daginn áður en það kemur til þín gámur .. ógisslegt að taka uppúr poka eða kössum óhrein föt.
  • Þú gerir lista yfir allt sem er í frystinum og þarf að borða fyrir flutning en kaupir samt alltaf inn í matinn..
  • Þú ferð að við að þér hinu og þessu sem gott er að hafa við höndina í flutningum. Kynstrin öll af kössum (keypti 50 stk um daginn),  vakúm pokum, svörtum ruslapokum, breiðu límbandi (fleiri en eitt, algjört möst), penna til að merkja kassana, einnota tuskum og svo höfum við ákveðið að fá okkur nýja ryksugu þar sem hin gamla er farin að lykta ógeðslega, þannig að þegar við gerum lokaþrifin verður þeirri gömlu hent en hinni pakkað í gám.
  • Þú hefur svarið að þú ætlar aldrei aftur að handskrifa nafn og heimilisfang tvisvar á hvern einasta kassa og hvern einasta hlut sem þú flytur – aldrei aftur! – í þetta skiptið skal hafast að prenta þetta út á límmiða.

Síðast en ekki síst þá færðu á tilfinninguna að farið sé að þrengja ótrúlega að í íbúðinni. Ég er með marbletti sínhvorummegin á mjöðmunum því ég er alltaf að reka mig í. Nei, ég er ekki búin að fitna svona rosalega skarpt að ég sé ekki búin að átta mig á eigin ummáli og sé þessvegna alltaf að reka mig í, nei, þetta er útaf því að það er f-ing EKKERT pláss HÉRNA INNI OG ég verð Brjáluð Á AÐ HUGSA UM ÞAÐ!!! – hvað þá að standa í því að geta ekki almennilega athafnað mig við þvottinn og að þurfa alltaf að taka milljón hluti frá til að komast í það sem þarf. UrrrrghhH.

Ókei.. veit þetta er “vandamál” sem er kannski ekki beint vandamál, þetta er bara eitthvað pirrandi akkúrat núna.. mikið að gera í vinnunni, spennan vaxandi, of mikið dót útum allt..

Bráðum förum við á autopilot til að lifa flutningstímabilið af, ekki að ég haldi að það verði leiðinlegt, bara eitt af þessu sem þarf að lifa af þar sem allt sem heitir venjulegt líf eins og við þekkjum það verður ekki. Persónulega finnst mér alltaf best að vera heima hjá mér og er ekkert mikið fyrir að vera annarsstaðar í lengri tíma. Svo ég verð fegnust þegar þessar tvær til þrjár vikur sem við verðum “húsnæðislaus”  eru liðnar.

Það er síðan svartur sandur á Íslandi. Hér er gulur sandur. Mér fannst guli sandurinn jafn æðislegur þegar ég flutti hingað og mér finnst svarti sandurinn á Íslandi vera núna. Það er ótrúleg tilfinning að þyrsta í að sjá svartan sand.