OJ! Hvað í fjandanum er það eiginlega? Flösuvarta? Bjakk. Ég er engu að síður með nokkrar. Já, eftir að hafa lesið einhverskonar ófögnuð um myndun sortuæxlis í húð á meðgöngu þá gat ég ekki annað en farið í annað (fer reglulega) húðtékk.

Á öllum mínum meðgönum hef ég fengið nýja fæðingabletti, það ku vera tilkomið af hormónabreytinum á þessu skeiði og algjörlega eðlilegt. Sumir líta út eins og venjulegir og aðrir eins og bara freknur, sem hafa síðan DOTTIÐ AF! eftir meðgönguna. Það er fáránlegt að þurrka sér eftir sturtu og freknurnar bara hrynja af. Margt merkilegt til.

En að þessum flösuvörtum. Ég spurði sérstaklega, verandi viss um að þessir blettir væru alvarlegasta stig af sortuæxlunarmyndun, útí þá og þá sagði læknirinn þetta sem mig skoðaði.  Flösuvörtur. Lekkert.

Allir fæðingablettir s.s í lagi á mínum kroppi nema einn sem hann mælir með að láta fjarlægja. Ég veit ekki hvort ég vilji láta taka hann þar sem hann hefur verið á mínu innanverðu, uppverðu læri frá því að ég varð til. Þetta verður eins og að láta fjarlægja af sér útlim. Mind you, þá miðað við staðsetningu þá var ég með gráhært höfuð á sennilega 150 ára gömlum húðlækni undir bumbunni, vei of nálægt klofi fyrir minn smekk og hann var með stækkunargler. Nú sá ég ekki nákvæmlega á hvað hann var að horfa, en reikna fastlega með að það hafi bara verið fæðingarbletturinn, vona það amk.

Ég hef aldrei spáð í þyngd minni (fyrr en núna þar sem ég hef bætt á mig 27kg..) né hvernig hrukkótt ég er að verða, nema kannski þegar ég tók efitr því fyrst að ég væri yfir höfuð með hrukkur. Ég set aldrei á mig krem nema sólvörn (það er nú ekki svo oft að það þarf) og nota snyrtivörur yfirhöfuð afskaplega lítið. Rólegan mysing! ég er ekki búin að breytast í harðbrjósta, harðorða þýska rauðsokku með hnausþykkan ennistopp og órakaða handakrika. Ég er bara á þeirri skoðun að faktorí meid krem sem kosta báða handleggi geri ekkert fyrir mig, að loforðin utaná þeim séu jafnmikið prump og loforðin á sjampóbrúsanum sem segja að grófa, þykka, óstýrláta og síða hrosshárið sem ég skarta á mínu höfði verði lungamjúkt, rennislétt og non-frissy með notkun sjampósins. Þvílíkt og annað eins bull hef ég bara aldrei heyrt. Nota ólífuolíu á húð mína, stundum blandaða einhverri fínni ilmkjarnaolíu.

Anywho.. í algjörlega óspurðum fréttum tilkynnti læknirinn mér að “alveg þessu ótengt”  þá ætti ég, þó ég væri með sterka húð, að hafa alltaf hneppt uppí háls þegar það væri sól úti. Húðin á bringunni væri jú svo rosalega fljót að eldast, mikið fljótari heldur en t.d á brjóstunum og almennt svæðið utan við haldarahlýrana.

Greinilega kemur kvenfólk til hans með miklar útlitsáhyggjur. Ég spurði síðan útí holu sem ég hef á enninu. Samkvæmt síðasta húðlækni sem ég spurði þá var það stíflaður svitakitill eða einhver kirtill, man ekki alveg, og að ég þyrfti að fá hann fjarlægðan af lýtalækni. Hef ekki nennt að fara í þá aðgerð og freistaðist til að spyrja útí holuna og vonast í laumi til að hann tæki upp hníf sem ég hef séð brúkaðan við t.d fæðingablettaafnám, sem lítur út eins og pínulítil skeið, nema náttúrulega flugbeitt og myndi bara svúbb, skvera holuna af og smella á mig plástri og málið væri dautt.

Hann leyfði mér ekki að klára að tala, taldi þetta vera ör og sagði, með uppgerðri sætri röddu að þetta sæist ekkert, hann hefði ekki einusinni tekið eftir þessu fyrr en ég nefndi þetta.

Öhh. Það voru ekki mínar áhyggjur. Ég hafði ekki áhyggjur af því að húðin á bringunni á mér myndi eldast hraðar en önnur húð á mínum kroppi og ég hafði ekki áhyggjur af því að árans holan sæist eða ekki. Mér finnst að gamlir gráhærðir illa greiddir karl-læknar með stækkunargler í og við klof á konu eigi að sýna henni þá virðingu, því þeir vita að hún er yfir tvítugt (sennilega af því hve gömul húðin lítur út fyrir að vera.. fuss) að tala við hana eins og vitsmunaveru, en ekki eins og það eina sem komist að sé útlitið.

Ætlaði að setja mynd inn af flösuvörtu, en þetta er svo asnalegt fyrirbæri að það er ekki til mynd af því á google  og ég man ekki enska orðið yfir ófögnuðinn.