Mér ber auðvitað skylda til að tilkynna hér alltaf af og til að ég sé hvorki hætt að skrá skemmtisögur né eða að ég sé dauð.. á þeim nótum, ég ætti kannski að láta einhvern hafa aðgang að síðunni svo hægt væri að tilkynna dauða minn, skyldi ég taka uppá því að hrökkva uppaf, nema dauðar konur geti bloggað, þá ætla ég bara að gera það sjálf.

Nei, bara.. internetið ekki enn komið, allt í vinnslu samt. Allt gengur sinn sveitagang í sveitinni. Ef maður er óþolinmótt, íslenskt, borgarbarn en hefur búið í Danmörku, þá kann maður orðið alveg að bíða eftir hinu og þessu og reyna að gera gott úr því öllu saman. Til að mynda, þegar internetið kemur, þá get ég horft á endalaust af þáttum sem ég hef ekki getað legið yfir samviskusamlega á kvöldin. Ef ég hefði haft netið og horft á alla þættina, þá hefði ég líka misst af hinu og þessu sem hægt er að vera að gera á kvöldin þegar dagarnir eru langir.

Hrannast upp sögurnar og ég komin með algjöra meinloku með hvort ég eigi að gera eina í einu, allar í einu eða hvort ég muni vera búin að gleyma þeim öllum.

Ég verð samt að nefna hér bara í framhjárenningi að hundurinn sem ég sagði frá að væri að koma til okkar, er kominn. Hann kom fyrir viku síðan. Hann heitir Flóki. Hann er tæplega 8 vikna hvolpaskinn. Hann er pínulítill en samt með derring. Afar fallegur á litinn. Við erum að húsvenja hann á fullu núna. Það gengur vel bara.

Litli Herforinginn og ég fórum með hann í lautarferð í skrúðgarðinn á Hvammstanga í gær meðan við biðum eftir Ungdömunni, sem var að vinna. Flóki hafði annars verið á kontórnum hjá mér yfir daginn. Hann vissi náttúrulega ekki hvert hann ætlaði greyið, að komast í 17 útgáfur af nýju umhverfi á einum degi. Hann fékk bara hjartslátt af því að rölta skítahring í kringum Höfðabraut 6. Afgreiddi síðan í smástund í Bardúsa og fór að lokum í sprautu hjá dýralækni.

Herforinginn er með eindæmum afbrýðisamur herforingi. Hún vill að ég segi henni að hún sé dugleg í hvert skipti sem hún fer á klósettið að pissa… svona eins og ég geri við hundinn þegar hann pissar úti. Ég er alveg bara.. ha?