Ég hef alltaf verið hrifin af því þegar ég geng framhjá póstkössum, hér úti þ.e, að á þeim stendur “Familien Larsen” eða “Familien Knudsen” eða jafnvel “Familien Nielsen”.. nú eða eitthvað annað fjölskyldunafn. Hér rétthjá er reyndar “Familien Fuglsang”.

Ég hef svolítið verið að bræða með mér hvort mér finnist að ég eigi að heimta að við köllum okkur Fjölskyldan Björnsson, svona fyrst það er eftirnafn bóndans sem upp skal tekið. En ég er bara ekki á því. Mér þykir gott að vera Guðmundsdóttir og föðurnafn eiginmannsins segir ekki neitt, svona miðað við ef um væri að ræða fjölskyldunafn.

Bjútíbína getur hvorki sagt sitt eigið nafn né nafn föður síns. Reyndar segir hún ekki neitt nafn með R-i í, sko á íslenskan máta. Hún getur nefnilega ekkert sagt R nema á dönsku.

Við spurjum hana endrum og eins hvað pabbi hennar heitir og alltaf er svarið “Falallala” Þorvaldur = Falallala. Þessvegna er mest sniðugt að við breytum úr því að vera 6 einstaklingar í sömu íbúð yfir í að vera Fjölskyldan Falallala.

Kristín Guðmundsdóttir Falallala. Hvernig líst þér á?

Nú er orðið svo langt síðan ég setti inn myndir af ráði að þær eru þónokkrar með í þessum pósti og ég líka búin að vera óvenjudugleg að mynda. Það er nefnilega hlaupin í mig einhver aukagleði yfir umhverfi mínu, kannski vegna þess að ég fer að kveðja það bráðum.

Páskar 2017

Byrjum á nýliðnum páskum. Þeir voru að mörguleiti hundleiðinlegir. Ég er búin að vinna svo mikið, prjóna svo mikið og spila svo mikið á flautuna að framhandleggirnir, og þá aðallega sá hægri, eru eiginlega orðnir eins og grjót, svo harðir vöðvar. Renni óneitanlega hýru auga til heitra potta í nánustu framtíð minni.

Vegna þess að ég er með grjóthendur þá ákvað ég að ég myndi vera í fríi, meina sko alvöru fríi, um páskana. Það var í sjálfu sér frábært. Ég prónaði reyndar helling.. get ekki ekki prjónað. Og reyndi svo eftir bestu getu að leika við börnin. Mér finnst bara ekki lengur gaman í mömmó, svo ég reyni að draga litla dýrið með í eitthvað sem mér finnst gaman að gera.

Kannski get ég ekki sett mér markmið í formi áskoranna, eins og að ætla að teikna eina mynd á dag eða hekla einn ferning á dag í einhvern ákveðinn tíma. En ég er búin að vera að klára ákveðið garnstass í meira en ár núna og ég er að klára úr skápunum mínum hráefnið (settu í blandara avókadó, brædda súkkulaðiplötu (100gr) og tilfallandi hnetur og fræ – súper góð avókadó mús, er að éta eina slíka akkúrat núna) og þegar ég tók til í rauða skápnum mínum, þar sem ég geymi allt til allrar listsköpunar, fann ég hvorki meira né minna en þrjár vatnslitablaðablokkir og tvær mismunandi gerðir af öðruvísi vatnslitapappír, sem ég hef einhverntíma keypt í stykkjatali. Ég hef dregið þetta fram og held ég sé byrjuð að klára vatnslitapappírinn. Ein blokkin er sennilega eldri en Geðmundur.

Allavegana. Bína litla er líka listakona.

Henni fannst þetta auðvitað ekki allan tíman jafn æðislegt að vera svona útötuð í málningu.

Hún var sett beint í bað. Ég var bara fegin akkúrat þarna að hún á erfitt með að haldast í fötum.

Þetta er annar dagur en sama ástand. Stuttu eftir að ég tók myndina.. var s.s þannig að ég reif upp síman þegar ég sá í hvað stenfdi, smellti af, snéri mér við til að leggja símtækið frá mér og þegar ég leit á hana aftur þá voru hendurnar á henni alþaktar lími og öllum gerðum af glimmeri og smáskrauti. Í bað aftur með barnið.

Diddmundur á við svipaða “örðuleika” að stríða. Hann kom heim einn góðan veðurdag og óð inní herbergið sitt eins og allir sem náð hafa 10 aldursári á þessu heimili gera. Hann reyndar lokar ekki á eftir sér eins og þau eldri gera og ráfar fram og segir mér hina og þessa söguna svona af og til. Ég hinsvegar rak upp stór augu þegar ég sá peysuna hans! Hvaða.. ! Ég spurði hann auddað hvað hann hefði í ósköpunum verið að gera á klúbbnum (félagsmiðstöð).. hann svaraði því sem satt var “ég var að mála” og þar með var það útrætt.

Hann er svo góður með hana. Og hún er svo hænd að honum. Henni finnst hann æðislegur. Og reyndar öll systkin sín. En hún deilir ekki herbergi með þeim hinum og þau eru aðeins meira upptekin af því að vera þau sjálf, eins og vera ber. Hann getur verið  með hana endalaust í eftirdragi. Er stundum búinn að setja hana í bað (þegar ég er búin að góla að nú eigi að fara í bað). Hún vill bara allt gera eins. AWWW!

Við fórum í hjólaferð

Sem aldrei fyrr fórum við út að hjóla með lýðinn (var ég búin að segja hvað mér finnst skrýtið að vera bara úti með 2 börn en ekki allan flokkinn? ). Förinni var heitið niður að strönd. Amagerstrand.

Það fyrsta furðulega sem við rákumst á var þetta mega stóra indíánatald í húsagarði. Mér finnst það M E G A töff og ætla að setja svona upp í tilvonandi garðinum mínum.

Ótrúlega fallegur litur á þessum trjám. Veit ekki hvaða tré þetta eru samt eða hvaða ber koma á þau.. eða annar ávöxtur, ef það þá kemur ber eða ávöxtur.. veit ekkert um þetta.

Þarnæst stoppuðum við í skólanum sem Diddmundur var í þegar við komum 2014. Hann fór í móttökubekk þarna. Ferlega skemmtilegt leiksvæði með trampólíni. Þessi Eiginmaður skohh..

Þar er að finna þetta fantaflotta hlaupahjólastatív. Mér finnst ég verði að telja það Dananum til kosta, þó hann fari oft alltof snemma árs í stuttbuxur, að hann býr alltaf til það sem sést að vantar. Eins og þetta hlaupahjólastatív og leggur alltaf göngustíg þar sem það sést að fólk gengur. Fólk labbar nefnilega bara þar sem það labbar, hvort sem þar er fyrirfram ákveðinn göngustígur eða ekki. Almennt er það þannig hér að þá er bara lagður stígur þar sem farið í grasinu sést.

Næsta furðulegt sem við sáum var þetta.. ég veit ekki hvað, úti baðkar? Eða brynningalaug einhverskonar.. að minnstakosti mjög gamalt apparat sem samt augljóslega er kar fyrir vatn. Hvort það hafi verið til þess að brynna hestum í gamladaga eða hvort það var þarna til þess að skólabörn gætu farið í bað veit ég ekki. Þetta er inná skólalóðinni.

Þá komum við niður á strönd. Ég get alltaf andað léttara þegar ég er við sjóinn. Finnurðu ekki næstum því lyktina? Og hjalið í öldunum? Það var samt kalt, gleymum okkur ekki alveg.

Eiginmaðurinn og Diddmundur hjófust strax handa við að búa til kastala, moka sýki í kringum hann og göng. Þar á eftir að grafa risastóra, að móðurinni virtist tilgangangslausa, holu.

Á meðan þeir voru að hamast í kastala og holugrafningi bjó ég til grafískt sandlistaverk. Ég kalla það “Playmo píkan”

Á fullu að græja og gera.

Þetta er sandlistaverkið hennar Bínu.

Og fyrr en varð var vargurinn kominn af stað og hafði eyðilagt kastalann. Að sjálfsögðu lét hún grafísku píkuna vera, enda er móðir hennar með bæði hvöss augu og hastan róm.

Eiginmaðurinn.

Við enduðum ferðina á ís á línuna. Dýrasti ís sem við höfum fengið, miðað við magn. En góður var hann.

Vorið

Við erum ekki lengur að bíða eftir að vorið komi, það er hérna núna. Mér finnst hvítu blómin á þessum trjám unaðsleg.

Og hér:

Og hér:

Þetta er annar dagur og önnur ferð út að viðra lýðinn. Þetta skipti nær heimilinu á margumrætt tréleikpláss. Allt í hvítum blómum. Með eindæmum ferskt loft.

Þetta er bara heima í garði. Mér finnst alveg svakalega leiðinlegt að fara með þau út bara til að fara með þau út. Finnst ferðir góðar en að fara út til að horfa á þau leika sér.. bara úff! Þessvegna tók ég prjónana með mér. Sat og var aðeins of niðursokkin í að telja þegar ég heyrði útundan mér að þau voru bæði niðursokkin í eitthvað svakalegt. Höfðu auðvitað fundið eina pollinn á svæðinu og voru að búa til gras og drullukökur. Eða, eins og Bína segir, “múððerkage”.

Annar dagur, önnur fer útí garð. Aftur að stara á hana leika sér.

Hún er búin að vera að ferðast svolítið með þessa þrjá grísi og þrjár beljur með sér. Stillir þeim upp og fer svo að dúdda eitthvað annað. Inni í einu kinderegginu sem hún fékk um páskana var þessi kappakstursbíll. Hann var þá dreginn með búfénaðnum nokkra daga í röð.

Svona leit vorið út í tónlistaskólanum mánudaginn fyrir páska. Þetta verður örugglega allt steindautt og komið eitthvað nýtt þegar ég kem þara aftur eftir viku.

Annars er búið að vera fruntalega kallt núna allra síðustu daga, eins og þessi mynd ber með sér. Hún er tekin útum glugga hér á íbúðinni. Ótrúlega óspennandi byggingaframkvæmdaútsýni. Eina góða við þetta er að við getum alltaf séð hvaða vindátt er. Við erum nefnilega með vindkrana (ho ho) fyrir utan húsið.

Að lokum eru hér tærnar á Bínu. Hún veinaði upp af undrun þegar hún tók eftir að hún væri að flagna á tánni. Það sem hún síðan sagði er eiginlega betra á dönsku en íslensku, hún sagði “jeg er ved at få tæer som jer” eða “ég er að fá tær eins og þið” eða með öðrum orðum hún varð rasandi hissa á því sem hún sá og var í einlægni algjörlega fyrir utan sig af hneykslan og eiginlega líka í hálfgerðum viðbjóði að hún hélt að hún væri að fá svona fullorðins tær. Sennilega ekki of smart sem við erum.