Ég er búin að ákveða að vera meira opin um það sem ég er að gera og get eiginlega ekki hugsað mér betri vettvang en einmitt hér, þar sem æstir aðdáendur mínir hópast saman og drekka í sig fróðleikinn sem vellur frá mér og hefur..ollið, oldið, valdið, velt, vallið…-runnið frá mér yfir síðustu 7 árin, í gegnum bæði sætt og súrt.

Þessvegna hef ég ákveðið hér með að sýna ykkur flotta lógóið sem vinkona mín hún Anna hjá Anton og Bergi, gerði fyrir mig OG náttúrulega að upplýsa nafnið á garnbúðinni minni.

Tadaaaahhh!

logo

Fjárhúsið Garnverzlun skal barnið heita, reyndar verður barnið á ensku líka og mun þá heita Fjárhúsið Yarnstore. Ég hef þegar pantað fyrsta garnið sem ég ætla að selja og einhver sætustu prjónamerki sem ég hef séð. Ég mun fletta hulunni, já eða dulunni af því síðar, hvaða garn það er.

Ég hef fleiri görn (eeeeheheh, þetta fór alveg með mig) í deiglunni. Ferlega gaman að vera á garnveiðum. Komin í samband við fólk útum allan heim og það er svo skemmtilegt, eina í Ástralíu, aðra í Kanada, annan í Finnlandi og eina til viðbótar í Bretlandi og svo hér í Dk. Allir eitthvað svo hjálpsamir og elskulegir. Ég er að fíla þegar fólk er opið og jákvætt. Eða það eru allir hjálpsamir og elskulegir og jákvæðir, nema þær sem ég talaði við hjá Ístex.  Það var meira svona “nenni ekki að tala við þig” tónn. Allir aðrir á Íslandi sem ég talaði við, og hér með er ég að upplýsa að ég ætla að selja garn sem er handlitað, já þú last rétt, handlitað garn, unnið af íslenskum konum. Mér finnst það óbærilega kúl, voru afar mjúkir og ástríkir í samskiptum.

Ég á hinsvegar eftir að ákveða hvaða heklunálar og prjóna ég vil selja og hvort ég vilji að hliðarmenuinn á vefsíðunni eigi að vera til hægri eða vinstri. Veit ekki hvort ég vil fara niður veginn sem allir hafa farið eða hvort ég vil finna eitthvað nýtt og skemmtilegt. Ábendingar eru vel þegnar.

Nú og ef einhver vill fjárfesta í þessu hjá mér þá er það auðvitað velkomið…

EN MIKIÐ HLAKKA ÉG TIL! Ég ætla að opna í júlí, en það þýðir sennilega að ég opni ekki fyrr en í ágúst. Það verður að fá að koma í ljós, allt svona tekur lengri tíma en maður heldur. En eins og móðir mín tengda segir “góðir hlutir gerast hægt”.