Þetta með aldurinn fer nú að verða þreytandi. Áður en ég varð þrítug gekk þvílíkt á í hausnum á mér af því að ég væri að verða þrítug að ég gæti aldrei sagt frá öllu sem ég hugsaði. Núna er að læðast að mér sú staðreynd að ef tíminn fer ekki að líða hægar þá verð ég orðin fertug innan mjög skamms.

Fertug.

Ekki að meina að mér finnist það eitthvað gamalt. Ég á meira að segja fullt af vinum og vinkonum sem eru fertug. Þau eru öll bara venjuleg og að gera venjulega hluti.

Hinsvegar finnst mér ég alltaf vera svo mikið barn eitthvað. Þessvegna passar það svo illa inní hausnum á mér að verða bráðum fertug. Það passar kannski svona alveg að vera tvítug og barn, semi passar að vera þrítug og samt barn ennþá, en það passar aldeilis ekki að vera fertug og barn. Fertugt barn.

Kannski er það líka staðreyndin að eftir rétt, bara rétt lítið, rúmlega mánuð á ég táning. Þannig að ég ver í sumar 35 ára barn sem ræð yfir og þarf að skóla til táning. Ég svitna við tilhugsunina eina.