Við gerðum víðreist í dag. Við sem aldrei förum spönn frá rassi stigum uppí lest og tuðruðum beint yfir til Svíþjóðar, Malmö nánara tiltekið.

Ok, ok.. ég veit að það er næstum því varla hægt að tala um útlanda ferð í þessu samhengi en við vorum nú samt í öðru landi með öðrum peningum og öðru tungumáli. Þetta er eiginlega samt pínu eins og að skreppa uppí Mos frá Vesturbænum í Reykjavík. Þetta er nefnilega bara svo stutt. Þangað sem við vorum að fara, sem var heim til vina vorra, var klukkutíma ferð, með því að bíða óvenju lengi eftir metró hér úti, með því að fara tvisvar uppí Öresunds-lestina, þessi sem við fórum uppí fyrst fór bara niður á flugstöð.., svo við þurftum að bíða þar eftir annarri lest sem fór alla leið yfir. Anywho.. s.s um klukkutíma ferð með því að taka vitlausa lest og með því að ganga í 15 mín heim til þeirra.

Við að vísu tókum bara tímann á gönguleiðinni þegar við fórum heim því við fórum beint í miðbæinn að dóla oss, þegar við vorum komin þangað. Mikið lifandis ósköp sem mér finnst gaman að sjá nýtt umhverfi. Og veðrið eins og best verður á kosið, sólskin og blíða, kalt samt sko, ekkert sólalandaveður, heldur mjög blítt og milt vetrarveður.

Hreint alveg dásamlegur dagur.

Þegar við vorum á leiðinni heim til þeirra gengum við fram á þessa merkilegu brú:

bru-i-malmo

Ég er mikill aðdáandi brúa. Ég veit ekki afhverju, ekki er ég byggingaverkfræðingur eða smiður með svona líka áhugann á byggingarlist og almennri fúnksjón brúa. Ég er bara alveg heilluð af brúm. Mér finnst þær tignarlegar og mér finnst gaman að vera á þeim og horfa til beggja hliða. Útsýni á brú er að mínu mati yfirleitt mjög spennandi.

Þessi brú er svolítið sérstök í laginu. Ég hélt fyrst að um væri að ræða einhverskonar listaverk, vegna þess að brúin er svona bogin í endann sem snýr að okkur á þessari mynd. Og svo er einhver gasalegur steypuklumpur efst.

SVO! Fattaði ég það. Þetta er pínulítil brú yfir pínulítið vatn og það er hægt að láta hana opnast. Já, í saðinn fyrir að opnast í miðjunni eins og stærri brýr, þá rúllast hún opin á bogadregnu hliðina og steypuklumpurinn er auðvitað til að halda henni opinni. Já, sko mína. Manneskja sem aldrei kveikir á einu né neinu á sér smá von um að verða kannski eitthvað einhverntíma.

Að öllu leiti frábær dagur. Áráttuþráhyggjuröskunin í hausnum á mér vill meina að því hljóti að fylgja annaðhvort skelfileg nótt eða margir ömurlegir dagar, en ég er að hugsa um að blása á þá pælingu og fara að sofa með bros á vör.

Það er alltaf gott að tengjast aftur góðum vinum :) Knús.