Ég og skórnir mínir fórum út að ganga í fyrrakvöld. Svo kallaðan Merkurhring, sem allir vita hvað er, sem búa á Hvammstanga, en þar erum við einmitt búin að halda okkur síðan á miðvikudagskvöldið síðasta.

Ég reif að sjálsögðu myndavélina með í þetta geim, en þegar ég ætlaði að festa á filmu fallega kvöldlagið (það var ekki sól) þá kom í ljós að ég hafði gleymt minniskoritnu í tölvunni heima og var bara með eitt 16 megabita kort sem er 8 ára gamalt. Skemmst er frá því að segja að það var ein mynd á kortinu og vélin tjáði mér að það væri ekki pláss fyrir fleiri…

Merkurhringurinn er að ég held um það bil 3km og heitir Merkurhringurinn útaf bænum Mörk sem við hann stendur. Sumir kalla hann litla Vatnsneshringinn. Ég s.s þrammaði hringinn og áði (því ég er búin að vera að gera krossgátur) á móts við hesthúsin sem á leiðinni eru.

Svo fórum við á ströndina. JÁ! Ströndina. Ég er strax  komin með leið á yfirlýsingum á facebook frá Danmerkur búandi vinum mínum um hvað það sé alveg bara 20 stiga hiti, of heitt til að vera í fleiri fötum en stuttermabol og myndir af börnum að leik á sundfötunum á ströndinni í glampandi sólarljósinu. (Abbó ehf).

Þannig að nú mun ég  birta hér myndir af okkur á ströndinni hér fyrir neðan Hvammstanga. Á Hvammstanga Strönd. Búnglingurinn var fyrst ekki viss hvort honum ætti að finnast þetta vera vert þess að njóta. Fyrstu skrefin niður á strönd voru eiginlega tekin í fýlu. En svo komum við niðureftir og ég var búin að ota að honum neðri kjálka af einhverjum óheppnum fisk, að hann gleymdi sér og gleðin við að vera á ströndinni braust út. Hann gekk þarna um eins og fornleifafræðingur sem gerði hvern merkilega fundinn á fætur öðrum. Tróð því öllu í poka og lagði stoltur á pappír á gólfið hjá Ömmu L.

Sprengjan var sprengja og má sjá hana í fjarska á myndinni fyrir ofan.. langt á undan öllum hinum.

Víkingarnir mínir.

Bóndinn á kletti sínum.

Ég var þarna líka. Búnglingurinn að kemba fjöruna fyrir beinum úr hvaða skepnu sem er, fyrir aftan mig.

Hér er þá myndin af eitthvað af mínum börnum sem eru að leika sér á ströndinni böðuð í sólargeislum. Eini munurinn er að þau eru kappklædd.