Forréttindin sem börnin njóta við að Bóndinn er að læra til kokks er að þau geta fengið að vera endalaust í eldhúsinu að dóta með honum. Ekki er verra að fá að vera með kokkahúfu. Ekki rugla og halda að ég sé að bedúa eitthvað í matseldinni. Ég var búin að segja að ég hef verið rekin með skömm úr eldhúsinu (eða að ég var svo fegin að þurfa ekki að standa í því að ég valhoppaði viti mínu fjær af gleði út úr því..). Ég er örugglega bara að ná mér í nammi eða smella tyggjói í eitthvað ruslið uppá borði.

Þetta er Bóndinn eins og þið vitið. Það sem er merkilegt við hann núna er þetta próf sem hann var í. Prófið er staðið en hann fær ekki einkunn  fyrr en  á föstudaginn næsta.

Ekki nóg með að hann hafi farið í próf heldur skilaði hann líka ritgerð í gær. Ég dó næstum úr pirringi við að hjálpa honum með hana, eða lesa yfir. Honum er fyrirmunað að meðtaka ráð frá mér þó hann hafi sjálfur beðið um þau. En ritgerðin var hin fínasta textasmíð, ég á ekki von á öðru en að hann fái frábærar einkanir fyrir.

He he

Á sunnudaginn héldum við uppá afmælið hennar Sunnevu. Það var gert þannig að allir krakkar sem eiga afmæli frá júlí til okt að mig minnir eða nóv halda afmæli fyrir bekkinn saman. Það var s.s núna fyrir hennar hóp. Allur bekkurinn gaf svo eina sameiginlega gjöf og fékk hún barbíhús eða einskonar íbúð sem hægt er að pakka saman í þunnan pakka..

Krakkarnir í bekknum hennar Sunnevu. Þau voru hin ferskustu enda sex ára  og aldrei þreytt. Mér finnst þetta bara fínt fyrirkomulag. Að vísu að okkar mati frekar langt að hafa afmæli frá 12 til 16 en það er líka bara okkar skoðun.

Annars er, eins og venjulega, allt við það sama hér. Aðeins farið að kólna og ég er búin að grípa úr geymslunni útifatnaðinn. Mér til mikillar lukku svona í “því sem ekki er rætt á þessari síðu” þá á ég útiföt á liðið. Heppin að hafa gotið svona mörgum börnum. Ég þarf örugglega aldrei að kaupa á Sindra útiföt, regnföt, skó eða föt. Það er reyndar ekki satt en ég er seif í bili.

Við sendum jákvæðnisbylgjur héðan og heim á landið hrjáða. Verið góð lömbin mín. Hér er mikið að gera, Bóndinn er ekki eini sem þarf að skila verkefnum, ekki bara halda að ég sé bara að blogga og bora í nefið… svo óvíst er að ég nái að halda úti daglegum fréttum til ykkar, aðdáendur mínir eins og verið hefur venjan…ég er búin að éta of mikið m&m. Ég get bara ekki látið sjá mig öðruvísi en með vænar bólur á hökunni og þar kemur m&m stekrt inn…sjæsö..