Ég hef ætlað að setjast niður og segja eitthvað á veraldarvefnum alveg síðan síðast. Ég hef margt að tala um en er búin að vera í svo massívri fýlu og haldin svo brjálöööðu eirðarleysi..já og bara drep leiðist, -að ég hef ekki haft nennu í mér að skrifa neitt.

En nú er ég nú bara  komin með samviskubit (og öðlast hæfni til að ljúga beint uppí opið geðið á þér) og verð nú bara að deila fréttum.

Fyrst er trúlega að nefna að eftir afmæli Örverpisins, grandskoðun sálar og plástrun hjartans á nokkrum erfiðum dögum í byrjun janúar, þar sem við minnumst elskulegs drengs og erum æðrulaus og einlæg yfir tilfinningum okkar,  og að koma öllu af stað aftur eftir jólafrí og svona, þá datt páfagaukurinn niður steindauður í búrinu sínu síðastliðinn föstudag.

Mér var ekkert alveg sama. Ég gekk framhjá og þarna lá hann bara. Andvana ..(eða á ég að segja páfagauksvana..hahaha (ok, þú þarft ekki að hlæja)).  Með hálf opin augun og hálf innfallinn á bakinu. Með klærnar kuðlaðar einhvernveginn undir sér. Já, þetta er í fyrsta skipti sem ég hef átt dautt gæludýr. Ég man eftir að á Breiða (bú afa og ömmu) var einusinni dauð kú, en hún var falin undir einhverjum dúk svo ég sá aldrei framan í hana.

Þvílíkt borgarbarn get ég verið. En einhverntíma er allt fyrst. Örverpið var hér heima með mér og spáði mikið. “Eru dýr með hjarta?” og “Hann getur ekki bitið núna er það nokkuð?” eru dæmi um spurningar. Honum fannst ekkert mál að kíkja á fuglinn, sem ég hafði falið með hvítu laki, bara svona eins og önnur lík.  Þá kom Búnglingur heim og var alveg eyðilagður. Gat ekkert kíkt á fugl greyið og grét og grét. Og grét svo meira. Úff, greyið mömmuhjartað í mér. Eftir að hann breyttist í Búngling hefur verið svo mikill fyrirgangur á töffaranum í honum að mér brá þegar kom í ljós að töffarar hafa líka tilfinningar.

Og svo var Sprengjan sótt í afmælið sem hún var í og hennar fyrstu viðbrögð voru hvort hún mætti halda á honum. Hún grét bara daginn eftir, ein, lokuð inní herbergi og við hefðum aldrei vitað það nema því ég gassaðist inn til hennar.

Við jörðuðum dýrið við athöfn í almenningsgarði hér í grenndinni.

Ekki er ein báran stök því svo hefur hin trygga pönnukökupanna yfirgefið hæfileika sína til að steikja pönnukökur. Ég held ekki að ég viti hvað ég á við mig að gera ef ég á enga pönnukökupönnu.

Hér er síðan búinn að vera snjór síðan í Nóvember. Það er verst þegar það er ekki hægt að hjóla. Hingað til hefur bara komið einn dagur þar sem ég hugsaði með mér…”í alvöru..afhverju er ég EIN að hjóla, í allri Kaupmannahöfn?” það líklega því enginn annar hefur svona óljós mörk um hvað er hægt og hvað er ekki hægt. Mér finnst myndin flott. Smellti af á fullkomnu mómenti. Myndin er öll í bláum litum, tekið í ljósaskiptunum, á hálffrosnum kanalnum.

Svo mikill snjór hefur verið  að um tíma snjóaði fyrir svalahurðina. Við þurftum auðvitað að verja kanínu greyið fyrir veðrinu. Hún hélt sig inní herberginu sínu bara.

Kannski er ég ekki ein um að bera enga vitneskju um hvað er hægt og hvað er ekki hægt. Og þegar ég sé svona þá verð ég stolt af því að vera þannig úr garði gerð, að ég ana bara út í flest allt sem mér dettur til hugar. Þetta er önnur af tveimur blómabúðum sem eru á Kaupmángaragötu. Þær eru settar upp á morgnana og teknar niður um kvöld. Þessi hýrðist undir tjaldi með hitalömpum í mestu slyddunni. Spurning um að vera ekkert að gefast upp þó móti blási, í orðsins fyllstu. Hin búðin breyttist í jólatréssölu rétt yfir hátíðina.

Og lengra niðrí bæ, eða niðri á Striki þar sem Strikið og Kaupmángaragata mætast. Svona fjarlægjum við snjó af göngugötum hér í Danmörku. Fyrst ryðjum við í miðjuna og svo keyrum við á fleiri, fleiri, fleiri, fleiri trukkum með snjóinn égveitekkihvert og skiljum hann eftir þar. Það er bara fín lausn.

Sprengja og Örverpið. Stærðarmunurinn er skaðræðslega lítill. Það er ekki því hún er lág í loftinu heldur er Örverpið sæta frekar stórgert barn. Stór með stórt hjarta. Húfan sem frökenin er með hefur verið föst við hausinn á henni síðan jólasveinahúfan… “hvarf”. Þarna vorum við að fara með Sprengju til vinkonu sinnar sem er ekki minni sprengja en hún og að sækja Búnglinginn sem fékk að gista hjá vini sínum. Svo fórum við, ég og strákarnir í vinnuna. Mikil ósköp! Það er nú varla að ég nenni að fara til vinnu aftur nema þeir komi með, það er mun þægilegra ef þeir gera helminginn af vinnunni, haha og ég borða vínber á meðan.

Örverpi og Búnglingur. Stærðarmunurinn á mér og Búnglingnum er vandræðalega lítill. Hann nær mér uppá aðeins meira ein öxl. Hvert er heimurinn að fara segi ég nú bara. Búnglingurinn notar skó sem eru fáránlega nálgæt mínum í stærð. Nú er ég meðvituð um píur sem eru á mínum aldri og eiga drengi sem eru á svipuðum aldri og Búnglingurinn kunni að fussa og segja..það gerðist fyrir löngu hjá mér, við notum nú þegar sömu skóna. Málið er bara að ég nota ekki skó númer 36 eins og margar þeirra, heldur skó númer 40 og stundum 41.

Við drengir fengum okkur risastóra pönnuköku með súkkulaði hjá manni sem var með trúðslæti og með krókloppnar hendur við pönnukökubaksturinn. Hann sagði við föður sem stóð á undan okkur í röðinni með dóttur sína, sem vonandi skildi ekki ensku, að hann (pappi stelpunnar) væri að drepa hana með að gefa henni þetta ógeð að borða. Pabbinn varð bara vandræðalegur og kom með eitthvað leim komment löngu seinna eins og alger dani og við hin kjánaleg.