Já, nei. Ég segi farir mínar sko ekki sléttar. Þær voru að vísu alveg sléttar þar til um klukkan 19:30 í gærkveldi.

Eftir bara aldeilis fínan vinnudag ákvað ég að hjóla í Kringluna til að eiga gæða stund með sjálfri mér í mátunarklefum allra fatabúðanna þar. Það fannst mér gaman og fann ég fullt af flottum fötum.

Gekk síðast inní Hagkaup og keypti þar inniskó og nestisbox og var því með bæði bakpoka og einn poka á stýrinu á hjólinu.

Og veðrið! Það var dásamlegt og einmitt þegar ég rann undurlétt niður brekkurnar í Reykjavík, varð mér hugsað til þess að tilkynna það hér á mínu persónulega en úber flotta bloggi, að það er sko aldeilis ekki langt að hjóla uppí Kringlu frá Vesturbæ. Held ég hafi verið 7 mínútur frá vinnunni…eða korter. Öllum er sama þegar veðrið er svona gott.

Og svo var ég komin á Suðurlandsbrautina og  þurfti fram hjá þremur mönnum sem voru auðvitað úti að ganga í góða veðrinu. Ég dinglaði bjöllunni af Kaupenhávnskum sið og sagði hátt og snjallt (í allri gleði minni yfir að vera til og það á svona fínu hjóli) “afsakið” og ætlaði að líða framhjá, tignarlega, eins og þeir myndu vita að ég væri drottningin.

Þá tók einn af körlunum þremur í hjólið mitt, gargaði að mér “STOPPAÐU” með fýldasta tón sögunnar og ýtti mér síðan svo ég datt. Ekki nóg með að hann hafi ýtt mér, hennar hátign, heldur byrjaði hann að lesa mér pistilinn meðan ég lá, í tótal skilningsleysi á atburð þessum,  í götunni. Hinir tveir, sem síðan kom í ljós að voru ekkert með þessum fýluhroða, hjálpuðu mér að standa upp og réttu mér pokann sem hafði hrunið af hjólinu.

Þeir fóru síðan, enda er ekki þekkt að fólk á Íslandi, sem notar göturnar saman með mér sé eitthvað að standa í því að sýna of mikinn náungakærleik. Þeir vildu frekar láta mig, stelpuna, díla við mannfýluna sem þarna stóð ennþá og fannst hann endilega verða að garga á mig svolítið meira.

Nú, þar sem ég var nú staðin upp, með beyglaðan ökkla, gat á hnénu og með hárgreiðslu sem líktist frekar úfnum hænurassi í verstu norðanátt en einhverju sem situr á manneskjuhöfði, ákvað ég að svara fyrir mig og gólaði á hann á móti að ég myndi nú bara hjóla þar sem mér sýndist! Eða fyrst reyndi ég að vera kurteis, að sjálfsögðu og tjáði honum að þeir hefðu bara verið þarna allir þrír í röð og ég hefði bara ekki komist annarsstaðar framhjá. Hann þóttist ekkert heyra það OG ÞÁ gólaði ég að ég væri bara þar sem mér sýndist.

Fústrerandi!!

Og mannfýlan!!!

Svo þumbaðist hann áfram og ég tjaslaði mér saman.

Ég var satt að segja svo miður mín að ég í öllum mínum þokka, á öllum mínum 30 og eitthvað árum fór að grenja þarna á miðri Suðurlandsbrautinni. Já! Grenja. Mínar tilfinningar voru móðgaðar svo svaðalega. Ég var næstum búin að hringja í flugfélagið og bóka mér ferð aftur heim til Köben.

Trúi því  að allir sem koma inní líf mitt séu englar. Englar sem eiga að kenna mér eitthvað um sjálfa mig. Pínulítið erfitt með að átta mig á því hvað þessi fúli kallpúngur átti að vera að kenna mér.

Ég reyndar áttaði mig á því að tilfinningar manns eru manni á einhvern máta allt. Þær eru eitthvað sem maður gerir ALLT til að vernda og í sumum tilfellum ALLT til að finna ekki fyrir þeim.  Þær eru mínar. Ég á erfitt með að útskýra þetta. Ég samanstend af þeim. Þær eru ég og ég verð ekki aðskilin frá mér.. fattaru?

Mikið finnst mér leiðinlegt hvað ég hef haldið lengi að það væri ekki í lagi að vera með tilfinningar. Hvorki gleði, tilhlökkun, sorg, reiði, hamingju, ást.. kærleik. Ég veit það eru margir sem hafa haldið það sama. Það er í raun og veru ekkert eðlilegra en að hafa tilfinningar og bregðast við þeim á einhvern máta. Manneskjan hefur oft svo þjóðfélagslega bældar tilfinningar. Ég meina að flestum þykir kannski ekkert í lagi að ég hafi farið að grenja á Suðurlandsbrautinni. Hefðu kannski kosið sjálf að vera meira reið og skrifa kvörtunarbréf í Moggann. Grenja svo kannski í laumi í sturtu löngu seinna..eða aldrei. Safna því bara upp í tilfinningalegt illkynja æxli sem lifir í huglæga hjartanu og lamar það að öllu leiti.

Nei, útaf því að ég hef fjarlægt illkynja æxlið sem ég var með úr hjartanu mínu þá get ég ekki beðið með að grenja í sturtunni. Ég orga bara á staðnum. Heppin þennan dag að vera með sólgleraugu..hehe. En útaf því að ég er ekki með tilfinningalegt æxli lengur þá fæ ég líka að vita hvað mér er ætlað. Ég fæ að vera yfir mig ástfangin án þess að hafa áhyggjur af einu eða öðru. Fæ að vera áhyggjulaus, fæ að elska skilyrðislaust. Fæ að vera þakklát, fæ að vera glöð. Fæ að leiðrétta sjálfa mig, fæ að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég hef eina og aðra tilfinningu sem er kannski ekki eftir annað hvort því sem ég bjóst við eða því sem þú bjóst við. OG ég fæ að vera svona heppin eins og ég er. Er ekki að tala um happdrættis heppni heldur lífsheppin. Allir eru boðnir og búnir að vera hérna fyrir mig….. -mig!! Og yfir því er ég auðmjúk og þakklát, á hjánum.

Baba Nam Kevalam.