Ég og hinn fagri frumburður vorum í búðarápi á mánudaginn síðasta þar sem hann hafði gengið úr öllum skónum sínum og fann hvergi stígvélin, annars hefði ég neytt hann til að vera í stígvélum fram á vor, eða þegar það hentaði veskinu mínu betur að vera að versla á hann skó.

Ég var að ræða við hann að það þýddi ekkert að vera að fara inn í milljón og sjö búðir og geta ekki valið (höfum lent í því áður ) og vilja bara það sem kostaði mest og þar fram eftir götunum. Hann var bara svo spenntur að vera að fara að fá nýja skó að hann sagði já og amen við öllu.

Ég ætlaði að grípa tækifærið og ræða þá í leiðinni hárið á honum og þá staðreynd að það verður að snyrta hárið þó það eigi að vera svona sídd í því.  Hann er bara alls ekkert sammála því. Hann vill ekki láta snyrta hárið. En ég er þrjóskari og frekari en öll börnin mín til samans og hann veit að hann hefur ekkert í mig. Og þessvegna fór hann að telja upp hverjir í skólanum væru með sítt hár, að hann hafi séð einn í tónskólanum líka með sítt hár og að  “mor, det er moderne i dag”… jáhh, það er s.s orðið ljóst að fallegi drengurinn minn er orðinn að einhverskonar millistigi milli barns og unglings.

Fyrstu vísbendingu fékk ég um daginn þegar ég fór að sækja þau á leikvöll hér í nágrenninu og þótti skyndilega svo rosalega vænt um flokkinn að ég ákvað að knúsa þau öll fast og mikið. Ég fékk knús og aukalegan koss (eða Örverpið heldur reyndar að knús þýði koss..)  frá Örverpinu og væna kremju frá Sprengjunni. En búnlingurinn (barn+unglingur) neitaði og fór allur hjá sér… ég hef líka séð hann roðna, hehe. En þegar hann fór að tala um að eitt eða annað væri í tísku, þá var mér eiginlega allri lokið.

Annars er hér allt bara eins og í logni við Hrútafjörðinn, óalgengt en dásamlegt þegar það gerist. Við erum bæði bara eitthvað að rolast í vinnunni og svona, ekkert merkilegt svosem uppá pallborðinu. Og í svona lognmollu (ég er reyndar að ljúga, það er ekki beint lognmolla ég er alveg að græjast í einu mjög spennandi, jafnvel tvennu, en tala um það bara síðar) verður svo áberandi hvað maður er fastur í rútínu. Alltaf þegar ég kem heim úr vinnunni þá fæ ég mér að borða og sit á meðan við tölvuna og skoða Facebook. Ég geri það reyndar líka af og til yfir allan daginn. En mikið rosalega er oft leiðinlegt að skoða facebook. Maður lifandi. Nú mun ég gerast svo djörf að lista nokkra statusa sem mér finnst alveg mega leiðinlegir:

  • lasin.is eða veik.is (hef ekki séð menn skrifa neina statusa um að þeir séu veikir )
  • er heima með veikan búblíbíus/lasarus/sætalíus eða önnur orð yfir börn sem minnir mann eiginlega frekar á eitthvað dýr en barn
  • er einhver á leiðinni norður?
  • veit einhver um far fyrir einn eða annan norður eða suður?
  • er með til sölu frábæran hlut !! (stundum held ég að þetta sé að breytast í Barnaland og ég hef aldrei á ævinni verið með eins mikið ofnæmi eins og fyrir þeim vefmiðli)
  • er að elda (tíu mín seinna) borðaði frábæran mat (tíu mín seinna) er alveg afvelta
  • þreif alla íbúðina og er svo fersk að ég ætla að baka milljón kökur

Og þeir eru fleiri. Mér finnast myndir af afmæliskökum í barna afmæli, sem líta út fyrir að vera eins og fyrir giftingu, vera leiðinlegar og yfirborðskennd komment sem fylgja þeim. Statusar, eða yfirlýsingar um eigið ágæti í alveg mörgum línum finnst mér líka vera alveg brjálað leiðinlegt. Og síðast en ekki síst þá finnst mér orðið alveg svakalega furðulegt hvernig stelpur, já eða kvenmenn á aldrinum kannski 20 til 40 eða kannski frá 15.. eru farnar að nota Facebook. Margar nota Facebook til þess að fá viðurkenningu frá, já hóld it.. ekki mönnum, heldur vinkonum sínum.

Það virkar þannig að ef ég set inn mynd af mér þar sem ég er rosalega töff og ógisslega kúl þá myndu allar stelpur sem ég þekki kommenta við myndina, “sæta”, “gordsjöss”, “sexy”, “vó, hot gella” og eitthvað svona fleira. Þannig að mér myndi aldrei líða vel nema allar vinkonur mínar myndu segja mér hvað ég væri fögur og spengileg. Mér finnst þetta vera bara einhverskonar villa sko. Mér finnst stundum eins og sumir facebook notendur séu búnir að búa til einhverja svona virtual útgáfu af sjálfum sér. Allt er æðislega frábært og allir alveg súper duglegir og allt í heiminum gengur alveg sjúklega (bókstaflega) vel.

Það sem mér finnst hinsvegar svo frábært við Facebook er að þegar fólk er ekki með athyglissýki og mikla þörf á viðurkenningu þá er hægt að sjá þarna hrútgamlar myndir af ættingjum sínum, love it! Hressandi statusa eins og einn frá frænku minni ” var í mjög heitu stuttu pilsi í dag, (kemst ekki strax í buxurnar mínar) enn ég var það heit að ég skrapp á salernið og gekk út með pilsið oní see thru sokkabuxurnar mínar…. CLASSSIC !” (takk Eydís) og annan frá annarri, en aðeins yngri frænku “var að ná að píkuprumpa í fyrsta skiptið!!! heheh :D” (takk Júlíana, ég vona að þú hafir skrifað hann sjálf, hehe).

Og talandi um frænkur, á Facebook fæ ég að fylgjast með ættinni minni, þá þeim sem nota Face. Það er líka gulls í gildi já ok og öllum sem ég þekki sem eru ekki hér.. haha.. jú og öllum sem ég þekki sem eru hér nálægt mér. Næsta skref er bara að það eru vefkamerur allstaðar og svo sitjum við bara og horfum á hvort annað í tölvunni.

Já, mér finnst margt sem ég les á Facebook vera leiðinlegt og oft alveg gargandi pirrandi. Svona er það nú.

Nú er að sjá hvort vinatalan mín fari lækkandi og hvort lesendur þessa bloggs verði móðgaðir og hætti að lesa.