“Ég ber virðingu fyrir mönnum og konum sem gangast við börnum sem eru ekki blóðskyld þeim. Ég ber virðingu fyrir þeim sem gefa egg og sæði svo aðrir geti notið þess að eiga börn. Ég ber virðingu fyrir konum sem ganga með börn fyrir annað fólk. Ég ber ekki virðingu fyrir þeirri hegðun hjá fólki, að frussa út úr sér einhverjum alhæfingum um eitt og annað sem það veit ekkert um.” -skrifaði ég á Facebook um daginn og er ennþá sammála sjálfri mér.

Mér finnst bara áhugavert hvernig við erum tengd hvert annað, þá ég og þú og allar hinar menneskjurnar sem gista Alheiminn.

Mér finnst áhugaverð sú hugsun mín um það að vera móðir eða faðir er ekki endilega bundið við að maður og kona hafi á árangursríkan hátt stundað kynlíf og verpt barni nokkru síðar. Nei, manneskja getur eignast barn á margan máta, þessvegna segi ég að ég beri virðingu fyrir fólki sem eignast börn á óhefðbundinn hátt (semsagt ekki bundinn niður í hefð, eða “normið”..ónormbundinn hátt). Ég ber virðingu fyrir því  útaf því að það er á ónormbundinn máta, því það er oft fyrirlitið og gargandi erfitt að standa í því að eignast, fá, umgangast börn sem eru ekki eigið blóð.

Þessvegna finnst mér  hrein snilld að það sé í alvöru fólk þarna úti sem er tilbúið til að ættleiða börn einhverstaðar frá, það eru til konur sem eru tilbúnar að gangast undir erfitt hormónaferli til að gefa annarri konu egg svo hin síðari geti fengið séns á að vera uppalandi, það eru menn þarna úti sem gefa sæði sitt til þess að aðrir menn sem ekki geta, geti feðrað barn, það eru til konur sem eru tilbúnar til að ganga með barn fyrir annað fólk. Ég veit um feður sem hafa af snilldinni einni saman gengist við mjög smáum, og jafnvel ófæddum börnum kærustu sinnar, þó það væri ekki þeirra eigið barn. Þeir gerðu það bara að sínu eigin barni.

Mér finnst allt þetta alveg gargandi eðlilegt. Líka þegar tvær konur eru í sambandi eða tveir menn og þau eignast barn. Ég get bara ekki séð að einstaklingur verði eitthvað skrítinni í hausnum að vera alinn upp af tveimur af sama kyni. Ég er viss um að kærleikur er nóg, sama frá hverjum hann kemur.

Þessvegna, því mér finnst þetta svo eðlilegt, finnst mér ótrúlega þroska-heft, að það sé svo erfitt að fá að ættleiða barn og svo dýrt að fara í allskonar frjóvgunaraðgerðir (kann ekki nafn á öllu því) og svo ótrúúúlega mikið vesen allt saman. Hvernig veit einhver þurrkunta sem vinnur á skrifstofu sem sér um að “deila börnum út” til “æskilegra” foreldra, hvort viðkomandi barni er best borgið hjá þeim sem eru eftir hinum og þessum stöðlum um normið, fullkomnir uppalendur?

Ég verð reið þegar ég hugsa um þetta. Ég ætlaði heldur ekkert að tala mikið um allt þetta. Langaði bara að segja útí Alheiminn að ég er þakklát fyrir allt þetta fólk, sem gefur af sér á alla kanta til þess að börn séu partur af þeirra, eða annarra lífi. Ég er líka þakklát fyrir öll börnin, sama hversu gömul þau eru orðin, sem hafa gengist við foreldrunum sem þeim buðust í þessum heimi, í þessu lífi.

Aðeins að öðru sjónarhorni:

Fyrir mér er móðir einhver sem gefur öðrum líf og faðir einskonar verndari. Sko séð í aðeins víðari skilning en bara í mömmu og pabbaleiknum inná vísitöluheimilinu. Fjölskylda, fyrir mér, er ekki endilega bara blóðfjölskyldan. Líka fólkið sem maður hittir og fær að kynnast á lífsleiðinni. Fjöl-skylda. Fjöl- því við erum mörg og skylda- því við erum öll eitt og  berum við skyldur til að sýna náungakærleik og virðingu fyrir öllum verum. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Það er spurning um að vera andlega vakandi og meðvituð/aður til að sjá sannleikinn í því að allir í Alheiminum eru ein fjölskylda, við erum öll partur af öllu. Manneskjur eru ekki almennilega lifandi án þess að vera andlega vakandi.

Þannig getur manneskja líka verið móðir, ef hún vekur aðra manneskju andlega og gefur henni með því nýtt líf. Á þann máta á ég amk tvær aðrar mæður en mÖmmu R og mÖmmu L . Fyrir þær er ég tryllt þakklát, þær gáfu mér nýtt líf!

Á ég að fara skrefi lengra og segja að ég sjálf sé líka mín eigin móðir því ég gef mér sjálfri líf með því að halda mér andlega vakandi? Var þetta of mikið?..ojæja…ég á pottþétt eftir að fá væna munnræpu um fleiri pælingar af þessum toga, svona er þetta bara.