Þessa mynd tók ég í vikunni, þegar ég var á leiðinni yfir Löngubrú og ofaní bæ. Ég á eftir að sakna þess mjög að hjóla um borgina og verða vitni af svona fegurð. Ys og þys.

Ok, enginn var með svar við því við hvaða aðstæður maður gæti notað frasann “Abbabbararabararabbbabb !!!!!!!”. Það myndi vera þegar smábarn gerir eitthvað, eins og að reka höndina ofaní sultukrukkuna til að sækja sér lúku og stinga uppí sig, tekur sér hníf í hönd og finnst það mega fyndið og gerir sig líklegt til að ætla að hlaupa með hann, er skyndilega, og án þess að nokkur hafi áttað sig, hálfnað með smjörkubbinn, heldur á kílói af perlum og er í þann mund að sturta þeim öllum á gólfið eða t.d tekur hamsturinn upp eins og um tuskudúkku sé að ræða og kremur hann svo duglega með litlu lúkunum sínum.

Við öll þessi tækifæri er það sennilega þannig að heilinn setur forvarnarviðbragðið í gang á undan talstöðvunum og út kemur bara eitthvað rugl, eins og abbabbararabararrabbabb sem þýðir auðvitað bara “NEEEEEEEEIIIIIII – HÆTTU – STOPPAÐU!”.

Enn og annar grár veðurdagur hér í kóngsins. Hvað á það að þýða? Reyndar var svo mikil þoka hér um helgina að það var hreinlega eins og við byggjum hvergi. Ekkert í kring. En það var alveg logn og eiginlega hálf töfrum stráð að vera úti í þokunni og algjöru logni, myndaðist einhver merkileg þögn, sem mér fannst góð.

Eiginlega situr svolítið í mér síðasta vika. Ég hef auðvitað haft áhyggjur af henni Birnu, eins og rest þjóðar. Mér finnst þetta jafn hörmulegt og þér. Get eiginlega ekki hugsað um það. Það er líka það sem ég geri þegar ég rekst á eitthvað í lífinu sem mér finnst erfitt að hugsa um, þá geri ég eiginlega hvað ég get til að flýja það. Kannski er ekki heldur neinn tilgangur í að velta sér uppúr því, þannig, og byrja að spinna upp allar mögulegar útkomur á því hvað kom fyrir blessað barnið eða hvernig fjölskyldu og vinum hlýtur að líða. Þetta er nýbúið að gerast hér í DK. Stúlka týndist og fannst látin mörgum mánuðum síðar reyndar. Ferlegt.

Það sem mér fannst vera áhugavert samt, er þessi ótrúlega samkennd. Það segir mér að fólk, sennilega hvar sem er, stendur saman. Að sundrungin sé líklega ekki eins mikil og halda mætti. Eins og sálfræðingurinn sem kom í viðtal á RÚV nefndi, að almenningur væri, með því að taka svona opinskátt þátt í þessu, að segja við fjölskyldu og vini Birnu að okkur er ekki sama. Og að í leiðinni erum við að segja við hvort annað að okkur er ekki sama. Ég held að þetta sé grundvöllur alls og alls. Að vera ekki sama.

Tvö pör af ullarsokkum úr stassinu prjónaðir. Mínus 242 grömm af Álafosslopa. Bújahh.