Þá er komið í ljós að ég á risastóran aðdáendahóp hér á blogginu. En skemmtilegt. Ég vissi þetta auðvitað innst inni en þúst, það er ótrúlega glatað að vera svo góður með sig að maður sé að gaspra um eigið ágæti svona fjálglega (þýðir það ekki annars að gera eitthvað glannalega?). Allavega.

IMG_0957

Þessir tveir eru komnir á sinn stað. Ég á erfitt með að lýsa tilfinningunni. Við erum komin á heimili okkar. Það er SVO gott!. Ég veit ekki með þig en ég er orðin þreytt á að það sé alltaf  “eitthvað”. Eitthvað sem þarf að bíða eftir að lagist svo hægt sé að líða vel eða betur. Auðvitað er það oft bara spurning um hugarfar og persónulega er ég búin að vera alltof lengi föst í hugarfarinu “þegar þá”. En undanfarin fá ár þá finnst mér eins og hvert smáatriðið hafi rekið annað. Flest tengt fjárhagnum, eða óhagnum öðrum orðum. Það er stressandi og passar ekki við ný markmið mín, sem er að minnka stress-levelið í mínu lífi. Stressið við hina íbúðina hefur verið slíkt að ég hef orðið sáralitla barnafitu heftir, sé pínu eftir henni bara.

Þannig að þú getur rétt ímyndað þér mig þegar ég var að valhoppa hér um með kassa í fanginu, að rífa upp og faðma allt dótið mitt, öll fötin mín, aðeins eins og ég hefi fengið heilan fataskáp af nýjum fötum. Ekki búin að nota þau í svona 1.5 ár. Þefa af dótinu og muna lyktina af mínu eigins heimili, ó hvað ég hef saknað þess og er  hverri sekúndu fegnust sem líður frá því að við vorum fjölskyldan sem bjó í ferðatösku, en samt ekki í ferðalagi.

Alltí lagi, ég er á ferð og flugi með kassa, já og Bjútíbínu, í fanginu þegar ég kemst að því að ég fæ ekkert útborgað þessi mánaðarmótin! Hvaða! Einmitt. Misskildi mig eitthvað og ég er ekki á launatímabilinu fyrr en næst. Vá hvað ég var alveg um það bil að fá taugaáfall og var næstum því búin að leggjast í gólfið, ofaná alla tómu kassana og dagblöð síðan um jól sem voru utan um allt dótið og G R E N J A. Hágráta.

En ég hlýt að vera að þroskast eða eitthvað. Í staðinn fyrir að leggjast í gólfið ákvað ég að taka bara hraðar upp úr kössunum og þvo þvott í meira offorsi. Já og svo bauð ég Búnglingnum að baka pönnukökur, sem hann gerði og ég var viss um að hann myndi svoleiðis úða sykri á þær. Át síðan með græðgi.

Var ég búin að nefna hvað ég er orðin þreytt á þessu? Kræst. Ég er eiginlega komin með alveg bara mega mikið ógeð. Óska hér með eftir áfallalausri  framtíð. Ekki misskilja mig samt, ég er alveg meðvituð um að það er aldeilis hægt að lenda í honum meira kröppum en þessu. Þetta eru bara mín vandamál og þau líta bara svona út. Ég er auðvitað þakklát fyrir að þau hljóma ekki uppá aðskilnað eða einhverskonar veikindi. Hver hefur sinn djöful að draga.

En þetta var að virka, best að hætta að henda sér í gólfið og grenja. Í offorsinu fann ég líka snúruna af myndavélinni. Það ER VEL.

IMG_0886Bjútíbína hefur verið að skoða heiminn. Henni kippir í kynið. Hún er löngu farin að skríða. Er allt í einu bara horfin inní eitthvað herbergi og loksins þegar maður kveikir á því þá gómar maður hana við að reyna að setja uppí sig rykhnoðra eða leikfang eða sokkaskít. Já, ég var alveg bara búin að gleyma hvernig það er að vera með svona lifandi ryksugu/kúst á heimilinu. Hún er komin með tvær tennur. Alveg greinilegt að henni leið ekkert sérstaklega vel meðan þær voru að brjótast í gegn. Hélt hún ætlaði aldrei að sofna. En upp komu þær. Hún er með einhverja hornös núna og getur ekki án mín verið. Hún er búin að vera límd á mig svo sólarhringum skiptir. Úff. Það er voða næs að hafa hana, hún er svo skemmtileg, en að geta ekki einusinni farið ein að tefla við páfann..

IMG_0943Hún er að lesa to-do listann minn og æfa hnébeygjur í leiðinni. Fjölhæf.

IMG_0896

Hún er svo mikil eðla eitthvað hehe. Fyndið að vera að drepast í hendinni því hún slagar uppí 8 kílóin, þú veist, það verður alveg þreytandi að halda á 8 mjólkurfernum sem eru á svo miklu iði að það kæmi aldrei til að mjólkin súrnaði. Í leiðinni er hún svo lítil í stóra samhenginu , eins og þegar hún er  á stofugólfinu og ekki í neinum fötum.

IMG_0895Fagri er í karate, var ég ekki búin að nefna það? Við förum á öllum þriðju- og laugardögum í karate. Hann er svo duglegur og eitthvað svo ótrúlega góður. Ég vildi að ég væri líka dugleg og góð. Ekki svo að skilja að ég sé vond, en ég vildi að ég væri svona hreinhjörtuð eins og hann. Hann stækkar svo hratt. Ég fer hjá mér þegar ég sé hann vera búinn að troða sér í einu nærbuxurnar sem eftir voru og þær eru á 6 ára..hehe, ég gæti alveg eins lánað honum mínar.

IMG_0953Svo fórum við Sprengja (sem hefur verið að springa helv… mikið undanfarið) útá Kastrup í skautahöllina á prufu skautaæfingu. Það var æði, sá hana alveg fyrir mér í S-inu sínu við þetta. Því miður getur hún ekki byrjað að æfa skauta fyrr en í september, það er bara einn mánuður eftir af tímabilinu. En það er hægt að fara þangað á laugardögum og leika sér á skautum. Kannski gerum við það. Hún er svo dugleg líka, svolítið hormónuð þessa dagana. Ég fékk harðort hatursbréf frá henni áðan þar sem mér var tilkynnt að hún hataði mig, hún mætti aldrei neitt og ég hefði eyðilagt líf hennar. Úr því varð vísa.

Ég er ömurlegasta mamma í heimi
segi aldrei já
geymi alltaf allt nammið í leyni
börnin mega ekkert fá

Ég er geðbiluð grýla
elda ógeðslegan mat
Ég krakkana er alltaf að kýla
hendi súrri kótilettu á fat.

Ég reyni allt hvað ég get
að leggja líf þeirra í rúst
ég haggast ekki hænufet
og flengi þau með beittum kúst.

IMG_0901Búnglingurinn var að keppa um daginn og fórum við Bjútíbína, Fagri og ég með hann útá Kastrup þar sem við skildum hann eftir. Hann fór  sá og sigraði og var kominn heim bara 5 mínútum á eftir okkur.. Við nefnilega þurftum að skoða og tala um hverja einustu steinvölu, hvert einasta sandkorn og hvert einasta laufblað á leiðinni til baka. Þessar myndir eru teknar í febrúar, sko bara því það er alveg eins og það sé sumar.

IMG_0903

Hortensíu (held ég) afgangar. Það er amk eitt merkilegt við þessa mynd í mínum augum. Laufin á þessu annars frekar viðkvæma blómi (aftur: held ég) eru ekkert dottin af!. Var ekki óveður hérna fyrr í vetur? Sko óveður þannig að í fréttir komst. Afhverju hanga laufin á?

IMG_0882Alveg ótrúlega danskt útsýni. Þetta er ekki mynd úr ferðinni frá Kastrup heldur er þetta gatan sem skólinn hans Fagra stendur við. Hann er strax búinn að breytast í danann sem hann var. Og þau öll byrjuð að rugla á Díslensku.

IMG_0893

Síðast en ekki síst. Minn elskulegi eiginmaður. Einn alveg risastór kostur við að hann sé á vöktum, eins og ég hataði það vinnufyrirkomulag, þá fáum við sjaldséð tækifæri til að eyða tíma saman. Það er aldeilis þess virði. MMM. Ég er að elska þessar stundir. Aldeilis er best þegar við römbum á gersemar eins og þennan grip þarna sem situr ofan á barnavagninum. Þetta fundum við í gegnbrúks verslun. Ef maður togar í skúffuna dettur hún svona niður og í ljós kemur hyrsla með tveimur skúffum sem hægt er að draga til hliðanna og ofan í skúffunum eru mörg lítil hólf. Undir þessum skúffum er síðan stórt pláss fyrir t.d GARN! Yay. Ég er að hugsa um að pússsa þetta apparat og hvítta það. Ég fæ verðlaun ef ég læt verða af því.