Svona líður mér

Ég heyri að nágranni minn er með kvef. Já! Ég heyri meðan ég ligg í þögulli íbúð minni (ein heima) að nágranninn hnerrar. Ég veit ekki hvort hnerrinn kemur að neðan, ofan eða frá hlið.Ég gæti fundið mér allt til foráttu í augnablikinu en ætla bara að byrja á að tala um íbúðina sem ég bý í núna. Og þú mátt vita að það er vanþakklæti mitt sem talar.

Íbúðin er:

  • Illa lyktandi (það er nóg til að hin nýlega krýnda frú Bústýra verður afhuga)
  • Lítil. (Ég veit að 100fm get dugað oss, en það er ekki í þetta skiptið, hér þrengir óþarflega að)
  • Er mjög rakadræg, hér má enginn svo sem fara í 5 mínútna sturtu að allir gluggar eru farnir að grenja af svita.
  • Ofnarnir virka illa.
  • Rafmagnið er þannig að stingi ég hraðsuðukatlinum í samband þá blikka ljósin.
  • Við sofum í stofunni. Auðvitað er ég með ráð í pokahorninu og búin að búa til einskonar krók fyrir rúmið, en það er bara .. þú veist. Fer ekki vel með samlífi hjóna að vera í sviðsljósinu.
  • Það er eins og í frystikistu hér.
  • Stigagangurinn er sá óhreinasti og mest illalyktandi sem ég hef upplifað og nú hef ég reyndar búið á fjölmörgum stöðum.
  • Enginn þrífur stigagang né sameign nema ég.. og ég er orðin svo fúl að ég nenni því ekki heldur.
  • Þvottavélin skilar þvottinum illa lyktandi.
  • Þvottahúsið er svo drullugt að það mætti halda að það væri líka hjólageymslan..NEI BÍDDU.. það ER líka hjólageymslan!
  • Maðurinn í kjallaranum reykir svo svaðalega að þvotturinn minn angar af hans reykingarstybbu. Það er MJÖG óaðlaðandi að verða með þessum hætti fórnarlamb óbeinna reykinga.
  • Það er bara íbúðin. Það er ekki garður, eða neitt í kringum húsið. Bara íbúðin.

Mér líður blandið. Því um leið og ég er þakklát fyrir að hafa þó húsnæði, sem ekki er of mikið af akkúrat núna,  þá finnst mér þetta alveg fáránlega léleg íbúð.

Og útaf því að ég hef komist að því að líklega er ekki hægt að hafa allt eins og maður vill hafa hlutina, t.d að búa í Vesturbænum í nógu stóru á viðráðanlegu verði og í göngufæri frá skólum, já og hjólfæri frá vinnum og öllum íþróttastundunar stöðum þá hef ég eiginlega ákveðið að ég myndi frekar kjósa, nú þegar ég er búin að prufa hitt, að þurfa að keyra örlítið meira á daginn heldur en að þurfa að vera mikið lengur í of litlu og of illa lyktandi húsnæði .

Þarf ég að kveðja minn ástkæra Vesturbæ? Já, ætli það ekki. Ég fylgist náið með leigumarkaðnum og það er ekki á hverjum degi sem upp koma íbúðir í Vesturbæ Reykjavíkur og bara aldrei 5 herbergja.

Svona er það nú.