Afhverju ekki að blása bara til hátíðar ljóss og kærleika? (Sem er Divali, sem haldið er í Indlandi núna)

Ég mótmæli bönkum sem fyrirbæri og sem stofnun sem hýsir valdníðinga,  eiginhagsmunaseggi og vitleysinga.

Breyttist ég yfir nótt í þennan fúla Íslending sem hefur allt á hornum sér? Nei, nei, ég er alveg þokkalega róleg. Ég er meira að segja frekar æðrulaus og kann bara mjög vel við mig í Núinu, en þangað er ég flutt.

Ég mótmæli bæði stöðunni sem bankarnir eru í og stöðunni sem ég er í. Reyndar mótmæli ég bara öllu sem er rangt í þessu þjóðfélagi sem er greinilega ekki fullt af ást né friði, heldur meira af hatri, græðgi og eiginlega bara ógeði.

T.d kirkjan og bankinn, báðar stofnanir eiga það sameiginlegt að hafa rotnar mannsveskjur við stjórnvölinn, kannski ekki allstaðar en nóg til þess að eitra út frá sér.  Báðar stofnanir hafa ágætis fólk við störf, fólk sem er okkur í almenningi nauðsynlegt, þú veist, ef krísu ber að garði eða mig langar í messu eða ef ég þarf að taka peninginn úr bankanaum  eða greiða eitthvað.

Báðar stofnanir eiga annað sameiginlegt. Innan kirkjunnar hafa konur og börn verið beitt kynferðislegu ofbeldi og í bankanum erum við öll tekin í rassgatið. Mér er ekki hlátur í huga. Mér finnst bæði ógeðslegt og bæði algjör firra. Svipað og nýja eiginmanninum mínum finnst um  viðtal við einhverja konu frá Bandaríkjunum sem taldi að við, hinar miklu vinaþjóðir, gætum nú alveg leyst vandann um hve mikið af hval við Íslendingar drepum, það væri engin ástæða til að hætta að vera í sambandi við svoleiðis þjóð (okkur þá). Þá datt uppúr eiginmanninum: “Og hvað, finnst okkur í lagi að vera í sambandi með þjóð sem drepur fólk?”.

Ég er langt í frá að meina með þessum ljótorða pistli að ég sé að ætlast til að allar skuldirnar mínar verði teknar af mér, rétt eins og þær hefðu verið settar á mig í einhverju óréttlæti. Auðvitað kaus ég að skulda þetta. Mér finnst ábyrgðin liggja á mörgum öðrum stöðum, reyndar um leið og ég tek ábyrgð á þessu sjálf. Flókið,  huh?

Mótmæli mín eru í aðgerðum. Annað en að góla og garga og berja hluti fyrir framan alþingishúsið (því ég er svona mikið betri en allir hinir..ojoj). Ég hef ákveðið að nota ekki þjónustu banka eins og er hægt. Ég vel að taka allan peninginn bara út um hver mánaðarmót. Telja hann (hehe) og taka frá það sem ég þarf til þess að við höfum í okkur í hverjum mánuði. Þú tekur eftir að ég segi ekki einusinni í okkur og á, heldur bara í okkur. Og afganginn ætla ég að nota til að gera mitt besta í að greiða það sem ég þarf að greiða. Þá ætla ég ekki að nota nein kort eða gera neitt sem bankinn græðir á, þú veist, ekkert sem í mínu valdi stendur að gera.

Ég sný dæminu við. Í staðinn fyrir að börnin séu illa klædd, í gatslitnum skóm og lítið að borða þá ætla ég að gera okkur öllum greiða og hafa þetta þannig að það eru ekki skuldirnar sem koma fyrstar, heldur við.

Með þessu afstýri ég heilsufarshremmingum á eldri árum útaf stressi og vannæringu. Þú veist, þegar ég ætti að vera að njóta mín því ég væri búin að borga allar skuldir. Fuss.

Af þessari ákvörðun minni hlýst nátttúrulega sú leiðinda afleiðing að ég þarf að fara inní banka til að taka út og leggja inn. Þurfti þess í vikunni. Ég ætlaði að leggja inn á reikning og senda tölvupóst með skýringu. Tölvupóstsendingin kostaði 100 krónur var mér tjáð. … 100krónur fyrir að senda friggin tölvupóst. Í ALVÖRU. Var ég búin að nefna að í bankastofnuninni erum við öll tekin í rassgatið? Ekki með hundraðkalli náttúrulega, hann kannski skiptir minnstu máli í þessu samhengi, en maður lifandi! Er í alvöru ekki hægt að skrifa eitt tölvupóstfang í reit og rukka ekkert fyrir það.. svona til að hætta að strá salti í sárin.

Ég kýs frelsi. Og ég kýs frelsi annarra.