Myndin er sviðsett, enda myndi mér aldrei vera hleypt í að taka mynd af hinu ástfangna pari.

Ef ég á orðið tengdadóttur, fara þá ekki allir foreldrar vorir að fá svona langafa/ömmmu tremma? Finnst ykkur furðulegt að spá í þessu?.. gæti verið veruleikinn eftir 5 ár, ekki að ég sé að vonast eftir því eða spá því, en það er samt ekki möguleiki sem er útúr kortinu að ég verði orðin amma (ég dey af hlátri) innan við fertugt.

Nýju tengdadótturinni fylgir hærri símareikningur, fleiri og svæsnari skapsveiflur og glittir æ minna í barnið mitt sem ég veit samt að er þarna inni á bak við sí-hneykslað andlitið og upprúlluð augun.

Hinn ellefu ára Búnglingur á kærustu. Jább..  e l l e f u ára . Var þetta í alvöru að gerast svona snemma? .. ég man að vísu alveg eftir hvernig mér leið í návist hans sem ég var skotin í í Æskó Neskó (á nútímamáli Tíu til Tólfára starf Neskirkju), á íþróttaæfingum og í bekknum. Ég man meira að segja ekkert af því sem mér var kennt fyrir því hvað ég hugsaði mikið um hann.

Við áttum samtal í gær, ég og Búnglingurinn. Ég hélt nákvæma ræðu um það hvernig á að koma fram við dömur. Hvernig hann ætti undir öllum kringumstæðum að vera kurteis og aldrei, sama hvað gengi á að vera leiðinlegur við dömur og alltaf að vera heiðarlegur.

Búnglingurinn svaraði því til að hann vissi það sko alveg, enda útlærður í lífinu blessaður. Eiginmaðurinn roðnaði og fór hjá sér.