Ég á mér draum.

Reyndar á ég mér marga drauma. Drauma sem snúa að öllum hliðum lífsins. Þessi draumur er um húsið sem mig langar að búa í.

Já mig langar að búa í húsi þó ég hafi tvisvar selt hús sem ég bjó í. Einn gæti haldið að það sé ekki hægt að gera mér til geðs, það má alveg halda það, en það er ekki þannig.

Húsið sem mig dreymir um að búa í er fallegt, nógu stórt (ekki endilega mega stórt, bara nógu stórt). Það er bjart og hlýlegt. Inni í því eiga allir fjölskyldumeðlimir sinn einka stað, en líka erum við þarna sem þessi eining sem við erum.

Inni í húsinu er hreint og ekki kaos. Eða, ef það er kaos, þá er það skipulögð kaos. Þegar ég geng um á viðargólfunum á tánum finn ég hvað ég er rosalega hrifin af þessu húsi. Ég geng í bjart eldhúsið og fæ mér vatnsglas. Öll herbergi hússins eru umvafin einhverskonar kærleika, einhverju sem erfitt er að útskýra, en ég hef verið í þeim öllum til að gera þau falleg og notaleg fyrir hvern og einn.

Baðherbergið er líka fallegt og það eru blóm þar inni. Allt hefur gott pláss, líka handklæði og þvottapokar. Baðherbergi er svo mikill griðastaður mæðra (og annarra foreldra) að mér finnst eiginlega að baðherbergið sé stórt og það er stóll þar inni og kannski karfa með garni þar við hliðina á eða bókum eða eitthvað þannig. Segist bara vera með drullu. ….hoho.

Í stofunni er góður sófi, en líka pláss á gólfinu með púðum og þannig, svo maður geti líka verið í sambandi við jörð, eða gólf. Sófar eru góðir, en kannski ofmetnir. Stofan er líka björt og full af plöntum. Þar er borðstofuborð sem er mjög langt, þannig að hægt er að hafa marga í mat OG fylla það með allskonar verkefnum þeim sem þarf að leggja fram á borði. Heimalærdómur, nótnablöð, framleiðsla listaverka, föndur, origami æfingasvæði, leiksvæði og það þarf ekki endilega að taka saman fyrir mat. Bara kannski. Í stofunni er líka bókaskápur með bókum um allt mögulegt. Eins og bókasafnið okkar er núna, þar ægir saman hinu og þessu.

Inni í húsinu hvílir góður andi og ég elska að vera heima. Enda krabbi og get ekkert að því gert.

Að hinu! Fyrir utan húsið er stór garður. Í honum eru ávaxtatré, matjurtagarður og gróðurhús. Pláss fyrir boltaleiki og sandkassi fyrir yngsta barnið og svo barnabörnin (vó..! alveg að hugsa það!). Það er líka pallur sem ég geng útá á tánum á heitum sumarmorgnum og drekk í mig lyktina af gróðrinum sem blotnaði í rigningunni yfir nóttina. Drekk í mig loftið og fyllist af einhverskonar orku. Það er blautt á pallinum ennþá og ég fleygi mér í hengirúmið í smá stund, eða rétt áður en ég þarf að sinna mínum skildum innandyra og í vinnunni minni.

Í draumnum mínum er húsið mitt, alveg. Ég er ekki að drepast úr áhyggjum inní því. Ég er ekki fangelsuð heldur frelsuð.

Ekki í draumi, heldur í veruleika gengum við á götu einni hér í borg sem heitir Badensgade. Þar er fólkið ferskt með flott húsnúmer. Ég er upprifin af þessari götu því ég held að þetta séu hús sem eru á 3 hæðum, svona tvíbýli. Garður fyrir aftan og róleg og skemmtileg gata.

Ég hef trú á því að draumar geti ræst. Ég get ekki séð að það sé holt að halda alltaf að það sé ekki að fara að gerast.