Spa meðferð fyrir handavinnu hendur

Þegar við prjónum eða heklum mikið (kannski er afstætt hvað “mikið” er) verða hendurnar auðvitað þreyttar eins og eftir hvaða aðra vinnu. Sömu hreyfingarnar aftur og aftur leiða til þreytu í liðum og vöðvum, sem og slits (sérlega í liðum) síðar meir.

Þreytan verður ýktari þegar hreyfingarnar eru litlar, snöggar og sí-endurteknar, eins og títt er í prjóni og hekli, svo og í allskonar annarri vinnu eins og t.d vinnu með mús við tölvu.

Ekki bara er þá nauðsynlegt að gera æfingar fyrir hendur og axlir heldur er líka nauðsynlegt að dekra svolítið við þessa vinnugarpa okkar.

Ég ætla að deila með ykkur nokkrum æfingum fyrir hendur sem ég hef lært í tenglsum við vinnu mína sem vefhönnuður og í náminu  mínu til yogakennara, sem ég hef notað þegar ég finn að ég verð þreytt alveg upp að eyrum eftir mikið af prjóni og hekli.

  1. Teygja sig! Bara standa upp og teygja sig. Súper einfalt og vekur alla mögulega vöðva.
  2. Rétta og kreppa fingur, þ.e búa til hnefa og rétta svo úr, þetta má gera 20 sinnum og finna að allir liðir smyrjast og verða hreyfanlegri. Sonur minn æfir karate og þar hjó ég eftir því að þau gera þessa æfingu, rétta og kreppa oft og mörgum sinnum frekar hratt, til þess að styrkja úlnliðinn og vöðvana sem liggja frá fingrum og yfir úlnliðinn og upp framhandlegginn.
  3. Flétta saman fingur og teygja úr þeim þannig að lófarnir snúa út.
  4. Teikna 10 hringi réttsælis og svo 10 rangsælis með hverjum einasta fingri á báðum höndum.
  5. Rúlla úlnliðina líka í 10 hringi rétt- og rangsælis.
  6. Standa vel í báða fætur, hafa hendur niður með hliðum og hrista hendur. Bæði gætirðu prufað að hrista duglega en það sem etv. er áhrifa meira alveg upp í öxl, er að hrista bara höndina, ekki olnbogann eða öxlina, alveg án þess að olnbogi eða öxl verði stíft.

Og hér kemur svo rúsínan í pylsuendanum, en það er uppskrift að spa-meðferð fyrir hendurnar þínar.

Dekur spa-meðferð fyrir prjónara og heklara:

  • 4 msk epsom salt
  • 4 msk sjávarsalt
  • 6 dropar Lavender ilmkjarnaolía*
  • 6 dropar Rosemary/Rósamarín ilmkjarnaolía*

Öllu blandað saman í glerkrukku sem hægt er að loka.

Lavender olían virkar bólgueyðandi bæði í stoðkerfinu og húðinni og einnig verkjastillandi og þreytulosandi. Rósmarín olían er ein besta olían gegn liðagigt og nánast öll fótkrem og fótabaðsölt innihalda einmitt þá olíu því hún virkar vel á þreytta vöðva. Þú getur keypt ilmkjarnaolíur í heilsubúðum.

Fyllið bala eða stóra skál, þannig að báðar hendur geti verið ofaní, með eins heitu vatni og hendurnar þola og setjið 1 – 2 tsk af blöndunni góðu ofaní vatnið, hafið hendurnar í baði eins lengi og langar, eða þar til vatnið hefur kólnað. Hitinn í vatninu, saltið og olíurnar munu svo vinna í því að mýkja bæði vöðva og liði meðan þú leggur hendurnar í bleyti og lætur þig dreyma um hvað þú ætlar að hekla eða prjóna næst :)

*Ilmkjarnaolíur á alltaf að nota með varúð. Þær eru mjög sterkar. Þær má að mínu viti ekki taka inn og einu ilmkjarnaolíurnar, aftur að mínu viti, sem má setja á húð án þess að þær séu leystar upp fyrst (í einhverskonar grunnolíu, vatni, sjampó t.d) eru Tea Trea og Lavender olía.  Þær eru það sterkar að öruggasta ílátið til þess að geyma svona blöndu í er krukka úr gleri, þ.e ekki nota plastílát.