Sprengja varð 8ára þann 5.október. Hún var mikið búin að hlakka til dagsins eins og gefur að skilja muni maður eitthvað eftir sér sem krakka. Ég man eftir þvílíkri eftirvæntingu. Niðurtalning í gjafadaginn.. nei, ég meina afmælisdaginn, ætlaði engan endi að taka.

Við höfum myndað hér skemmtilega afmælisdagahefð, sko fyrir krakkana, að opna gjafir um morguninn áður en haldið er til skóla.  Hér erum við einmitt að því en frá okkur fékk Sprengjan húllahring, sem hún getur sko notað, það er reyndar pissfyndið því hún er alveg eins og spýtukarl meðan hún húllar. Hún fékk langþráða ruslatunnu (já, ruslatunnu!), Hello Kitty púða sem hægt er að festa tónlistarspilara við og liggja á honum og hlusta ásamt því að það komu pennar og bók með sem skrifa má á og henda svo í þvott til að þvo skrifið af..já mikil undur í veröld Hello Kitty. Síðast en ekki síst fékk hún þarna um morguninn Hello Kitty leggings. Já, Sprengjan hefur breyst í bleika blöndu af Hello Kitty og Strawberry Mary.

Dagurinn hennar var góður og fór hún með skúffuköku í bekkinn sinn.

Og að sjálfsögðu héldum við uppá afmælið hennar. Ég hef nú ekki verið stærsti aðdáandi þess að halda barnaafmæli og tók ákvörðun í þetta skiptið að ég nennti ekki að eltast við einhverjar fermingarkökur í barnaafmæli og gullhúðað heimili til sýnis foreldrunum þegar börnum væri fylgt til okkar og þau sótt.  Þarna stendur yfir undirbúningur á hinu venjulega barnaafmæli sem haldið er á laugardegi frá 13 til 16, heima hjá afmælisbarninu og það voru engir leikir eða “show” undirbúið.

Ég bakaði skúffukökuna frægu, ricekrispís og pönnukökurnar einnig frægu. Ég er búin að baka þetta svo oft að ég kann það utan að og er búin að fá ógeð á því.. svo og allir sem ég hef bakað fyrir hlýtur að vera. Bóndinn tók líka þátt í undirbúningi og breytti bolludeigi í kanilsnúða.

Og þetta voru þá veitingarnar í afmælinu.

Ég tók ekki myndir af veitingunum.. en hér kemur nærmynd af kanilsnúðunum..

Afmælisbarnið var tilbúið fyrir allar aldir. Skellti sér í fötin frá ömmu R og var hin kátasta. Gat ekki lesið klukkuna rétt og spurði á mínútu fresti hvenær gestirnir myndu koma.

Frumburðurinn var til að byrja með mjög áhugasamur um undirbúninginn og var búinn að ákveða með Sprengjunni allskyns leiki og skemmtileg heit þegar gestirnir loks myndu koma.

Þessi var líka spenntur fyrir komu gesta.

Og svo hringdi fyrsti gesturinn dyrabjöllunni. Nú, við skulum athuga að gestirnir voru 11 talsins og allir stelpur og þær eru nær allar 8 ára.

Nokkrar komnar, Örverpið passaði skuggalega vel inní þennan hóp föngulegra verðandi kvenmanna.

Svo var blásið til pakkaopnunar. Þær þustu allar í einn hnapp og má sjá glitta í Sunnevu þarna með fastafléttur.

Og svo var lýðnum stýrt að kökuhlaðborðinu sem að sjálfsögðu var dekkað með Hello Kitty. Þetta er eina “blás” myndin sem ég náði af Sprengjunni þetta árið, enda er hún skot fljót að öllu. Og fyrst þær voru 11 með afmælisbarni þá þurfti ég að láta nokkrar sita saman á stólum og eymingja drengirnir..

…þeim var nú bara ýtt eitthvað út í horn.

Fjör í boðinu og á einhverjum tímapunkti var það trend að fá sér blöndu af einhverjum appelsín like drink og fanta sem var með ávaxtablöndubragði eða einhverju hættulegu öðru. Ég varð örlítið stressuð um að gosið sem ég keypti myndi ekki duga í þessa svelgi.. og ég sem hélt í búðinni að þetta væru píur og þær væru ekkert að gúffa í sig kökur og gos eins og það væri í alvöru enginn morgundagur. Öðru nær!

Allt partíið. Sprengjan þarna við endann eins og afmælisbarni sæmir. Við hliðina á henni er ein af betri vinkonum hennar sem heitir Emilie. Hún er dásamleg í allri sinni mynd.

Hér eru þær einmitt í fyrra á 7 ára afmæli Sprengjunnar. Ég held að þær eigi eftir að stofna sprengjuvinafélagið áður en langt um líður. Að minnstakosti springur allt í kringum þær þegar þær koma saman. Það eru einmitt þær sem ekki hafa leyfi, og hafa ekki haft síðan í núll bekk, til að sitja saman í bekknum.

Og ýmsar skapgerðarsveiflur flugu um í þessu afmæli. Maður lifandi. Öllum stelpunum 11 fannst eitt eða annað sem Frumburðurinn sæti gerði alveg pípandi fyndið og hlógu og hlógu. Fyrst fannst honum það bara töff og kúl en svo fóru þær yfir strikið (já .. eins og einhver kvenmaður sé þekktur fyrir það) sinnum ellefu og það var of mikið fyrir ungan og viðkvæman drengstaula. Fyrst lokaði hann sig inná baði og var þar, þar til ég þurfti að reka hann út. Og þá settist hann í stólinn sinn og var þar í leeeeengri tíma. Hann var ekki eins viljugur eins og fyrr um daginn að fara út í leiki með stelpurnar.

En þær voru engu að síður sendar út og nú, fyrst þær eru jú 8 ára og kunna ýmislegt sem ég er nokkuð viss um að ég kunni ekki þegar ég var 8ára þá neitaði ég að elta þær út til að hafa ofan af fyrir þeim. Þær eru börn og kunna að leika sér. Ég er héðan í frá á móti því að börn séu mötuð á því sem á að gera. En það var greinilegt að þær hafa einmitt verið mataðar á leikjum af fullorðnum því þegar þær komu niður og ætluðu í einhvern leik var ein sem ekki nennti að vera með og í stuttu máli fóru þær aldrei í neinn leik heldur byrjuðu að hlaupa á eftir þeirri sem hafði á móti leiknum og svo  í enn styttra máli þá var önnur komin í fýlu og setti sig á bak við ruslatunnu. Eða ég komst að því þegar ég fann mig knúna til að fara niður í garð og skakka leikinn..og líka til að týna engu barni. Hversu neyðarlegt yrði það þegar foreldrarnir kæmu að sækja..

Áður en ég vissi af var ég komin með allar fýlubrækurnar inní ruslageymslu niðrí garði. Og á dönsku.. Á DÖNSKU, hélt ég ræðu yfir þeim sem miðaði að því að sýna fram á að maður getur ekki vorkennt sér að eilífu þó einhver láti eitt eða annað orð falla en samt sem áður að maður getur ekki látið yfir sig vaða. Ég veit ekki hvort þær tóku þessa visku með sér út í lífið en ég fékk þær með mér upp í það minnsta.

Það sem gerðis síðan inni hjá okkur er eitthvað sem enginn af okkur stundar né hefur séð áður. Einhverjar þrjár af þeim undu sér að (aaaahaha..vinda sér að einhverjum..) þeirri sem hafði orðið á að grýta þær með orðum og sögðust vilja tala við hana alvarlega! Ég.. já eða við stóðum hjá með galopin augu, spurningarmerki á enningu og skilningslaust blikkuðum augum. Þá upphófst fyrirgefningarferlið og þær tjáðu óeirðaseggnum að hún hefði komið illa fram við þær, prinsessurnar,  og píndu uppúr henni fyrirgefningarbeiðni. En þar sem þær eru jú stelpur and all þá hættu þær ekkert að tala um þetta. Gögguðu og gögguðu og ætluðu að hlaupa niður til mömmu ógæfustelpunnar og tala við hana um málið. Nei, þá var mér nú eiginlega nóg boðið og bað þær að hætt að ræða þetta, þetta skipti ekki neinu máli lengur. Þær hlýddu sem betur fer.

Við skulum síðan athuga að Sprengjan okkar fallega var ekki viðriðin nein af þessum leiðinda málum heldur var allan tíman að leika sér bara glöð og ánægð. Og svo gerðist það sem gerist greinilega í öllum afmælum á þessum bæ að Bóndinn brá á leik. Í þetta skipti sem hestur fyrir þessar þrjár “dömur”. Þeim tveim sem eru þarna á baki með Sprengjunni var síðan gleymt í afmælinu og voru ekki sóttar fyrr en einum tíma síðar en afmælið var búið.

En Sprengjan var hress og er búin að vera hress síðan. Það sem er svona gott við að búa í útlöndum og eiga afmæli er að maður fær gjafir yfir svo langan tíma. Á afmælisdaginn, í veislunni og þegar pakkarnir koma frá Íslandi :)